/

Deildu:

Auglýsing

– Íslenskir kylfingar fjölmenna í golfferðir til Ívars Haukssonar

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar / seth@golf.is 

Ívar Hauksson hefur á undanförnum árum og áratugum fengið gríðarlegt magn af íslenskum kylfingum í heimsókn til sín til Spánar. PGA golfkennarinn hefur skapað sér nafn í faginu og sá sem þetta skrifar hafði heyrt marga tala um hversu gott væri að hitta Ívar til þess að bæta golfleikinn. Golf á Íslandi heimsótti Ívar á Mar Menor sem er skammt frá Alicante á Spáni, þar sem við ræddum við hann um lífið og tilveruna. Viðtalið birtist í 1. tbl. Golf á Íslandi 2018. 

Það var auðvelt að finna Ívar þegar við komum á svæðið. Hann sker sig úr fjöldanum. Ívar er sterklega byggður og rífur að sjálfsögðu enn af krafti í lóðin. Hann er brosmildur og með síða hárið í tagli undir golfderhúfunni. Við settumst niður í glæsilegri aðstöðu í klúbbhúsinu við Mar Menor og eftir nokkrar mínútur í viðkynningu yfir kaffibolla hófum við viðtalið.

„Þegar ég var 10 eða 11 ára þá fór ég út á svalir á hótelinu þar sem við vorum í sumarfríi á Benidorm hér á Spáni. Þar horfði ég út á hafið og ströndina og sagði við mömmu. „Hér ætla ég að eiga heima. Mér hefur alltaf liðið eins og ég ætti heima hér á Spáni,“ segir Ívar og hann lét þann draum rætast fyrir tveimur áratugum og flutti til Spánar.

En af hverju valdi Ívar að einbeita sér að golfkennslunni?

„Draumurinn var alltaf að verða golfkennari. Þar er ástríðan hjá mér – og að gefa af mér skiptir mig mestu máli. Ég hef ástríðu fyrir því að kenna öðrum. Það gefur mér meira að sjá nemanda bæta sig í golfi eftir golfkennslu í stað þess að ég spili golfhring á þremur höggum undir pari. Ég hef alltaf verið svona og alveg sama í hvaða íþróttagrein það er,“ segir Ívar. Það kemur mér á óvart hversu miklum orðaforða hann býr enn yfir í íslenskunni eftir áratuga búsetu á Spáni. Erfið og flókin íslensk orð og hugtök renna upp úr honum líkt og hann hefði aldrei flutt frá Íslandi.

Ívar er án efa einn mesti keppnismaður sem Ísland hefur alið. Hann hefur fagnað Íslandsmeistaratitlum í öllum þeim íþróttum sem hann hefur byrjað að æfa. Svo einfalt er það.

„Ég er keppnismaður og ég geri ekkert nema gera það eins vel og hægt er. Nema kannski í pílukasti,“ segir Ívar í léttum tón.

„Það sem einkennir mig er að ég er þolinmóður og þolinmæði er eitthvað sem ég lærði þegar ég var að vinna með fólki hjá íþróttafélagi fatlaðra. Og það skilar sér í kennslunni. Ég hef endalausa þolinmæði og ég finn að nemendur mínir kunna að meta það. Þolinmæði og agi eru mínir helstu styrkleikar. Það vinnur mig enginn í því. Ég er eflaust með fullkomnunaráráttu. Ég hef alltaf náð að verða meistari í því sem ég tek mér fyrir hendur. Karate, vaxtarrækt og golf. Ég er bara þannig gerður. Það finnst mörgum skrítið að ég hef t.d. aldrei drukkið áfengi eða reykt. Þrátt fyrir að hafa verið mikið í kringum slíka hluti á sínum tíma. Ég var dyravörður og vann á ýmsum „búllum“ þar sem ýmislegt gekk á. Mér fannst þetta líferni aldrei passa við það sem ég vildi gera og var að gera, sem voru íþróttir. Við getum sagt að ég hafi alltaf grætt daginn eftir þegar aðrir sem voru í djamminu voru heima þunnir og þreyttir. Ég notaði þá tímann vel, æfði á meðan þeir sem fóru á djammið voru að jafna sig.“

En hvernig byrjaði þetta ævintýri að fá mörg hundruð íslenska kylfinga í heimsókn á hverju ári til Spánar?

„Ég byrjaði að fá íslenska kylfinga til mín þegar ég var PGA-kennari á Campoamor rétt við Alicante. Á þeim tíma var ég enn að keppa mikið og áherslan var mest þar. Ég var í þrettán mjög góð ár á Campoamor. Ég fékk tilboð um að taka að mér mjög spennandi verkefni á Marbella. Það var of spennandi til að taka því ekki. Á Marbella kom ég upp golfakademíu og það var skemmtilegur tími. Það var líka gleðilegt að margir af nemendum mínum frá Campoamor lögðu það á sig að keyra í 5 tíma niður á Marbella til að koma í tíma hjá mér. Mér þótti vænt um það og þykir enn þegar fólk leggur mikið á sig til að fá ráðleggingar hjá mér.“

„Það er gaman að segja frá því að tveir svissneskir bankastjórar koma reglulega keyrandi frá Sviss til Mar Menor til þess að koma í kennslu til mín. Ég veit ekki hvað það eru margir PGA-kennarar við störf á þessari leið þeirra. En þeir leggja þetta á sig og við náum vel saman. Þeir hafa komið reglulega til mín síðastliðin fimm ár hér á Mar Menor.“

Eins og áður segir þá flutti Ívar til Spánar fyrir rúmlega tveimur áratugum.

„Ég reyndi alltaf að lengja golftímabilið á Íslandi með því að fara til Spánar á vorin og haustin. Þegar ég var á heimleið eitt haustið þá fann ég að mig langaði ekkert til Íslands. Það er erfitt að útskýra þetta en þannig leið mér. Mér leið vel í þessu umhverfi og líkaði vel við fólkið. Ég var með flugmiða heim. Ég tók hann úr vasanum, reif hann, og hér hef ég verið síðan. Hvatvísi hefur alltaf fylgt mér. Ef mér dettur eitthvað í hug og ég hef trú á því að ég geti framkvæmt það þá geri ég það bara. Sjálfstraustið er til staðar en ég er ekki að fela neitt. Ég kem alltaf fram við aðra eins og ég myndi vilja að þeir kæmu fram við mig.“

Ívar talar mikið um fjölskyldu sína og það er greinilegt að honum er annt um sambýliskonu sína og dætur þeirra. Ana Moltó frá Spáni er sambýliskona Ívars til 18 ára. Saman eiga þau dæturnar Melanie og Raquel. Ívar á einnig eina dóttur á Íslandi, Írisi Tönju, og aðra sem býr í Los Angeles og heitir Ornella.

„Ég á frábæra fjölskyldu bæði hér á Spáni og á Íslandi. Maður er ríkur að eiga fjórar dætur. Dætur mínar Melanie og Raquel eru í hestamennskunni. Mér finnst gaman að fylgjast með þeim og styð við bakið á þeim í því sem þær hafa áhuga á.

Hestamennskan er eitthvað sem ég þekki vel frá því ég var lítill strákur og var í hesthúsunum. Sigurður Ólafsson söngvari og hestamaður var afi minn. Þuríður Sigurðardóttir söngkona og listakona er systir hennar Valgerðar móður minnar, sem lést fyrir 2 árum. Ég hef einhvern veginn aldrei komist yfir það, mamma var mér afar mikill stuðningur í öllu sem ég gerði og það að eiga ekki mömmu er mjög skrítið. Ég þekki því vel hvernig það er að vera í hestamennskunni. Mér finnst frábært að þær hafi þetta áhugamál og ég styð 110% við bakið á þeim. Ég hef ekkert reynt að ýta golfinu eða öðru að þeim. Þær gera það sem þær hafa áhuga á.“

Á undanförnum árum hefur gríðarlegur fjöldi íslenskra kylfinga komið til Mar Menor í ferðir sem Ívar hefur skipulagt. Ívar er með einkarétt á því að selja Íslendingum golfferðir á Mar Menor.

„Það komu rúmlega 500 Íslendingar til mín hér á Mar Menor árið 2017. Fólk pantar það flug sem því hentar til Alicante eða í nágrenni við Mar Menor. Ég get séð um að koma gestum frá flugvellinum og hingað ef þeir vilja. Og gestir þurfa ekki að vera á bílaleigubíl frekar en þeir vilja. Sumir kjósa að gera það og aðrir ekki. Ég sé síðan um allt sem snýr að gistingu, rástímum og skipulagningu á golfkennslu. Í raun sérsníð ég hverja ferð eins og viðskiptavinurinn vill hafa hana. Ég hef gríðarlega gaman af því að standa í þessu og fá gestina hingað. Og þeir fá þjónustu 24 tíma á dag, sjö daga vikunnar. Síminn er alltaf opinn ef eitthvað kemur upp á hvenær sem er sólarhringsins.“

Hver er lykillinn að velgengninni?

„Ég nota samfélagsmiðlana mikið til að auglýsa Mar Menor. Besta auglýsingin er orðsporið. Það sem fólk segir frá upplifun sinni við aðra. Það er auðvelt að selja fólki eitthvað einu sinni en þegar gestirnir koma aftur og aftur þá veit ég að hlutirnir eru í lagi og ég er að gera þetta rétt. Traust og orðspor er það sem ég legg undir – ef ég stend ekki við það sem ég segi þá kemur enginn aftur.

Hingað kemur alls konar fólk. Einstaklingar og allt upp í 70 manna hópa. Aðstaðan hér á Mar Menor er frábær. Það eru ýmsar gerðir af íbúðum í boði. Það geta verið 2-6 saman í íbúð eftir því sem hentar. Tveir í hverju herbergi og það er eldhús og þvottavél í hverri íbúð. Íslendingarnir sem hafa komið og eru vanir að ferðast til S-Evrópu hafa haft það á orði hversu hratt internetið er hér á Mar Menor. Slíkt skiptir máli í nútímasamfélagi. Og margir þurfa á þessu halda varðandi vinnuna sína.

„Ég mæli með því að leika þrjá velli í vikuferð, og leika þá alla tvívegis. Þá er hægt að kynnast vellinum í fyrstu heimsókninni. Í þeirri næstu er þá hægt að reyna eitthvað meira, ná betra skori. Það er hægt að velja um sex velli hjá mér og allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.“

„Í raun er hægt að leika golf hér á Mar Menor allt árið. Mesta umferðin er í mars, apríl, maí og júní. Og á haustin í september, október og nóvember. Það er ánægjulegt að Íslendingar eru farnir að skipuleggja sig betur. Þeir panta ferðirnar með meiri fyrirvara en áður. Þeir vita þá að rástímarnir eru betri sem þeir hafa úr að velja. Flestir vilja spila golf um kl. 10 að morgni. Þá er ekkert stress, hægt að fá sér morgunmat, og hita aðeins upp. Morgunhanarnir eru líka sáttir við rástímann kl. 8. Það er allur gangur á þessu. Fólk er líka meira farið að hugsa um heilsuna og vill ganga meira en áður á golfvellinum. Það hefur færst í vöxt að fólk gangi 9 holur og fari síðan í golfbílinn. Og þá fer hinn aðilinn út úr bílnum í göngutúrinn.“

Á undanförnum árum hefur Ívar boðið upp á golfkennslu á Íslandi í þeim stuttu fríum sem hann hefur tekið sér á Spáni. Hann var inntur eftir því hvers vegna hann sé að leggja þetta á sig?

„Það sem hvatti mig til þess að bjóða upp á golfkennslu á Íslandi er áhugi þeirra sem hafa komið til mín til Spánar í gegnum tíðina. Í sumar verð ég í Básum hjá GR með golfkennslu í góðri samvinnu við minn gamla heimaklúbb, Golfklúbb Reykjavíkur. Upphafið á þessum heimsóknum mínum var þannig að ég prófað að auglýsa fyrir fimm árum að ég væri væntanlegur. Áhuginn var mikill og allir tímar fylltust á augabragði. Ég þurfti ekki að auglýsa fyrir Íslandsheimsókn mína sumarið 2018. Það fylltist í alla tíma áður en ég vissi af og margir eru á biðlista. Á hverju ári fæ ég marga nýja nemendur. Líklega er það um 40% hlutfall. Það er mín skylda við golfið að sjá til þess að nýliðum líði vel í þessu nýja umhverfi – og séu líklegir til þess að halda áfram eftir kennsluna hjá mér. Ég hef mikla reynslu og þekkingu sem ég nýti í golfkennsluna. Þar blanda ég saman því sem ég hef lært úr öllum þeim íþróttum sem ég hef stundað. Það er mikilvægt að vita hvernig líkaminn vinnur, ekki endilega bara golfsveiflulega séð, því það eru margir samverkandi þættir sem þurfa að spila saman til að njóta velgengni í golfi. Margir eru með vandamál í líkamanum sem gerir það að verkum að ég þarf að finna lausnir sem henta hverjum og einum. Ég vinn út frá þeirri hugmyndafræði í kennslunni að bæta það sem viðkomandi er að gera en ekki reyna að láta hann gera eitthvað sem hann getur ekki gert, alveg sama hvað hann æfir mikið og ég kenni honum mikið.“

Ívar er eins og áður hefur komið fram afreksmaður og með afrekshugsun. Og það leynir sér ekki að hann væri alveg til í að fá tækifæri til þess að þjálfa íslenska afrekskylfinga samhliða öðrum störfum.

„Ég hef í gegnum tíðina aðstoðað allt frá byrjendum upp í afrekskylfinga. Í raun langar mig að gera meira af slíku, það er að segja þjálfa afrekskylfinga, en ég hef ekki gefið mér tíma í það. Ég hef fengið til mín afrekskylfinga frá Belgíu, Hollandi, Austurríki, Sviss, Englandi og Írlandi. Og það samstarf stendur enn yfir.

Þeir koma þá af og til á Mar Menor og við förum yfir hlutina saman. Ég hef oft sagt að maður þarf að þora að gera mistök og þora síðan að finna út úr því hvernig best er að bæta úr þeim. Mistök eru í mínum huga ekki beint mistök heldur bara reynsla sem maður lærir af. Þeir sem eru að byrja í golfi gera ekki mistök, það kallast reynsluleysi. Smátt og smátt öðlast maður þekkingu og byggir ofan á hana með reynslunni. Góðir hlutir gerast hægt og ef fræin eru sett rétt niður kemur upp fallegt blóm, en það gerist ekki frá einum degi til annars, “ sagði Ívar Hauksson að lokum við Golf á Íslandi.


Ívar Hauksson, Enrique Herrero Gil eigandi GNK á Mar Menor og Antonio Solano framkvæmdastjóri GNK.

„Einstakur staður“

–  Enrique Herrero Gil eigandi GNK á Mar Menor

„Mar Menor er einstakur valkostur fyrir kylfinga að mínu mati. Hér eru möguleikar í boði og aðstaða sem er ólík öllu öðru. Okkur hefur gengið vel á undanförnum árum að fá fleiri gesti á Mar Menor, flestir þeirra spila golf. Við erum sérstaklega ánægðir með hversu margir íslenskir kylfingar hafa komið til okkar á undanförnum árum. Þeir hefðu ekki komið nema með mikilli vinnu hjá Ívari Haukssyni og er hann með einkaleyfi á sölu golfferða til Íslendinga á Mar Menor,“ segir Enrique Herrero Gil eigandi Mar Menor við Golf á Íslandi.

Enrique Herrero Gil kom að rekstri Mar Menor árið 2011 og hefur reksturinn gengið vel á undanförnum árum.

„Hæfileikar mínir liggja á öðrum sviðum en í golfíþróttinni. Ég er ekki góður í golfi en ég reyni að leika eins mikið og ég get. Sérstaklega á vorin þegar það er bjart fram á kvöld. Mér finnst gott að komast út á völl og leika eftir erfiða vinnudaga. Ég kom inn í þetta verkefni árið 2011 sem ráðgjafi fyrir þáverandi eigendur. Það voru verkefni sem þurfti að leysa og fjármálaumhverfið var enn að jafna sig eftir erfiða tíma.  Mér leist vel á þetta frá upphafi og tók ákvörðun um að fjárfesta í þessu sjálfur. Hér er fimm stjörnu hótel, fjölbreytt úrval af íbúðum og gott úrval af frábærum golfvöllum sem eru hannaðir af Jack Nicklaus. Veðurfarið, maturinn, strendurnar og nálægðin við borgir á borð við Murcia, Cartagena og bæi eins og San Pedro del Pinatar og San Javier. Í næsta nágrenni við Mar Menor eru fjölmargir alþjóðlegir flugvellir. Og þeim valkostum á eftir að fjölga enn frekar á næstu misserum. Þar að auki eru væntanlegar tengingar við hraðlestir til stærstu borga Spánar.“

Enrique Herrero Gil er bjartsýnn á framtíðina og markmiðið er að stækka enn frekar.

„Hér hefur byggst upp gott samfélag íbúa sem eru flestir frá Norðurlöndunum, sérstaklega frá Noregi. Íslendingum er einnig að fjölga hér, og þar hefur Ívar verið í aðalhlutverki. Fólki líkar vel við hann og kann að meta það sem hann hefur fram að færa í golfkennslunni. Ívar hefur sérstöðu þar sem hann talar mörg tungumál og hann er góður í aðlaga sig aðstæðum og hefur einstaka kennsluhæfileika. Til lengri tíma litið þá er markmiðið að stækka enn frekar. Við viljum fá fleiri kylfinga í heimsókn og þá sérstaklega á aðra velli í kringum Mar Menor. Þar eru miklir vaxtarmöguleikar. Þeir sem hafa komið hingað hafa hrifist af völlunum sem eru hver öðrum glæsilegri,“ sagði Enrique Herrero Gil.

300 sólardagar á ári

– Antonio Solano framkvæmdastjóri GNK

„Það koma um 200.000 kylfingar í heimsókn á vellina okkar sex hér á þessu svæði. Flestir þeirra koma á Mar Menor þar sem spilaðir eru um 50.000 golfhringir á ári,“ segir  Antonio Solano framkvæmdastjóri GNK sem er rekstraraðili golfvallanna við Mar Menor. Fyrirtækið á fjóra af þessum völlum og er rekstraraðili tveggja valla til viðbótar.

Um 95% þeirra sem leika golf hjá GNK eru ferðamenn. Aðallega frá Bretlandi og Norður-Evrópu. Kylfingar frá Norðurlöndunum eru áberandi á svæðinu, sérstaklega Norðmenn og Svíar. Íslendingum fjölgar hér jafnt og þétt, sem er ánægjulegt að sögn Solano.

„Ég ætlaði sjálfur að verða afrekskylfingur á árum áður. Ég ákvað að gerast PGA golfkennari og þannig kynntist ég Ívari fyrir um 20 árum. Við erum miklir vinir og okkur hefur gengið vel að vinna saman,“ segir Solano en golfiðkun hans er ekki mikil í dag.

„Ég leik ekki mikið golf í dag en ég reyni að leika 9 holur af og til. Forgjöfin fer hækkandi með hverju árinu sem líður en mér finnst þetta alltaf gaman.“

GNK er stórt fyrirtæki með á annað hundrað manns í vinnu sem sjá um að allt gangi upp á völlunum sex.

„Þetta hófst allt saman hérna árið 2005 þegar 9 holur voru teknar í notkun á Mar Menor. Árið 2006 var La Torre opnaður sem 18 holu völlur og á næstu árum bættust hinir vellirnir við. Þeir eru allir ólíkir en samt með sama handbragðinu frá Jack Nicklaus fyrirtækinu. Margir þættir gera Mar Menor að áhugaverðum stað fyrir kylfinga að heimsækja. Fyrst vil ég nefna að það eru yfir 300 sólardagar á Mar Menor. Veðrið hérna er einstakt fyrir kylfinga allt árið um kring.  Þessi staðreynd gerir svæðið spennandi og eftirsóknarvert. Kylfingar kunna að meta þetta og þetta spyrst út. Fjölbreytni í gistimöguleikum er einnig stór þáttur í vinsældum Mar Menor. Hér á svæðinu eru tæplega 1.000 einbýlishús, tæplega 200 raðhús, og um 1.200 íbúðir í fjölbýlishúsum. Matsölustaðirnir eru fjölbreyttir, líkamsrækt, heilsulind, íþróttabar, ný matvörubúð og í raun allt sem kylfingar og aðrir gestir þurfa á að halda,“ sagði Antonio Solano framkvæmdastjóri GNK.

Umfjöllun um vellina sem eru í boði á Mar Menor birtist á golf.is síðar.

 

Ívar samdi við Callaway  

Ívar Hauksson bætti einni rós í hnappagatið nýverið þegar hann skrifaði undir samning við einn stærsta kylfuframleiðanda heims, Callaway. Íslendingurinn verður fulltrúi golfvörufyrirtækisins á Spáni eða „Ambassador“. „Ég er gríðarlega ánægður með nýja útbúnaðinn frá Callaway sem er sérsniðinn fyrir mínar þarfir.“ Ívar er með Callaway Rouge kylfur í pokanum en allar mælingar eru gerðar í frábærri aðstöðu í golfbúðinni Great Golf rétt hjá Mar Menor.

„Hér er mikið úrval af t.d. Callaway vörum og verðin eru mjög samkeppnishæf. Og þá er ég ekki að miða við Ísland heldur Spán. Golfvörur eru mun ódýrari hér á Spáni en á Íslandi,“ segir Ívar en hann hyggst bjóða upp á nýja þjónustu fyrir gesti sína á Mar Menor.  

„Í starfi mínu sem golfkennari þá veit ég hversu miklu máli réttur útbúnaður skiptir fyrir kylfinga. Nýliða eða lengra komna. Skiptir engu máli. Og í raun skiptir það meira máli fyrir þá sem eru að byrja í golfinu að fá útbúnað sem hentar hverjum og einum. Markmiðið er að geta boðið nýliðum upp á ferðir hingað á Mar Menor þar sem við tækjum allan pakkann í einu. Fólk kæmi þá hingað án þess að vera með kylfurnar, allt yrði sérsniðið fyrir gestina hér á staðnum, og allir fengju því kylfur sem henta þeim.“

Ívar Hauksson.
Ívar Hauksson.


La Torre

Vingjarnlegur og sanngjarn

Það er óhætt að mæla með því að hefja golfferð á Mar Menor með heimsókn á La Torre. Völlurinn er par 68, rétt rúmlega 5.400 metrar af öftustu teigum, og er frábær kostur til að „slá sig í gang“ eftir ferðalagið frá Íslandi.

Þrátt fyrir að völlurinn sé par 68 þá er mikið lagt í völlinn sem er hannaður af Jack Nicklaus.
Árið 2011 fór Opna spænska meistaramótið fyrir eldri atvinnukylfinga fram á þessum velli.

Hægt er að velja um að leika frá fjórum mismunandi teigum. Gulir teigar eru 4.900 metrar, bláir 4.500 metrar og rauðir 3.880 metrar.

Staðsetningargolf er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar leikið er á La Torre. Nicklaus hönnunin leynir sér ekki. Glompur og torfærur grípa þau högg sem fara ekki á rétta staði – en samt sem áður mjög vingjarnlegur og sanngjarn völlur sem býður upp í dans á mörgum brautum.

Utan brauta er lítið um gras. Um 5 hektarar af sandsvæðum eru utan brauta en það er lítið mál að leika boltanum úr þeim aðstæðum. Ekki þarf að leita mikið að boltum sem lenda utan brautar og upplifunin af La Torre vellinum er ánægjuleg.

Æfingasvæðið við völlinn er fyrsta flokks ásamt æfingaflöt þar sem hægt er að slá ýmsar gerðir af höggum. Ferðalagið frá Mar Menor tekur um 15-20 mínútur og er einfalt að koma sér á La Torre.

Kylfingar með meðal eða háa forgjöf eru markhópurinn á La Torre. Hann er samt sem áður krefjandi fyrir lágforgjafarkylfinga, og einbeitingin þarf að vera í lagi á þessum velli sem og öðrum golfvöllum sem hannaðir eru af Jack Nicklaus.

 


Alhama

Handbragð Nicklaus leynir sér ekki

Alhama-völlurinn er hannaður af sjálfum Jack Nicklaus. „Gullbjörninn“ kom sjálfur á svæðið margoft á hönnunarstigi vallarins og fylgdi verkefninu eftir persónulega. Handbragð sigursælasta kylfings allra tíma leynir sér ekki.

Fjölbreyttur gróður leynir á sér í eyðimörkinni. Landslagið virðist við fyrstu sýn kalt og hrjóstrugt en þegar betur er að gáð þá er mikið líf á þessum velli. Völlurinn er krefjandi en samt sem áður sanngjarn – enda hannaði Nicklaus völlinn sem keppnisvöll. Og hann stendur svo sannarlega undir nafni.

Það er óhætt að mæla með því að kylfingar leiki á teigum sem eru framarlega á þessum velli. Hann er langur, eða 6.884 metrar af öftustu teigum, 6.059 metrar af gulum teigum, 5.741 af bláum og 5.034 metrar af fremstu teigum.

Fimm stórar vatnstorfærur eða vötn leika stórt hlutverk í hönnun vallarins. Brautirnar eru breiðar og verðlauna fyrir góð högg. Flatirnar eru leifturhraðar og landslagið í flötunum er oft á tíðum stórfenglegt.

116 glompur með snjóhvítum sandi setja svip sinn á völlinn. Nicklaus staðsetti glompurnar með úthugsuðum hætti og það eru miklar líkur á því að kylfingar slái boltann sinn í einhverja af þessum glompum.

Þeir sem leika á Alhama þurfa að sjá fyrir höggin fyrir sér og einbeitingin þarf að vera til staðar í hverju einasta höggi. Skiptir þá ekki máli hvort um er að ræða atvinnukylfing eða áhugakylfing.

Alhama á eftir að þroskast enn frekar sem golfvallarsvæði. Enn á eftir að ljúka framkvæmdum við ýmislegt, þar á meðal klúbbhúsið. Æfingasvæðið er frábært og þessi völlur er í fremstu röð golfvalla á Spáni.

Það tekur um 30 mínútur að keyra frá Mar Menor á Alhama. Það ferðalag er vel þess virði.


Saurines

„Strandvöllur með kúrekakryddi“

Það fyrsta sem vekur athygli á Saurines er óhefðbundið en skemmtilegt klúbbhús. Tekið er á móti gestum á krá sem er innréttuð í kúrekastíl. Gæti verið frá árinu 1800 í villta vestrinu. Vinalegur staður sem brýtur upp staðalmyndir af hinu hefðbundna klúbbhúsi á golfvelli.

Fleiri tengingar við Bandaríkin eru til staðar á Saurines sem er í um 20 mínútna fjarlægð frá Mar Menor.

Völlurinn er hannaður af Jack Nicklaus og var opnaður árið 2011. Fyrirmyndina að vellinum má finna í Las Vegas í Bandaríkjunum. Þar er völlur sem heitir Lakes og Saurines er náskyldur ættingi hans.

Strandvöllur er það fyrsta sem okkur datt í hug þegar við lékum á Saurines. Veðrið var vetrarlegt að mati heimamanna á Spáni. Fyrir okkur íslensku kylfingana var veðrið á við bestu sumardaga á Fróni.

Par vallarins er 72 og af öftustu teigum er hann 6.500 metrar. Af gulum teigum er hann 6.000 metrar og 5.000 metrar af fremstu teigum.

Háar sandöldur eða „dunes“ einkenna Saurines líkt og á breskum strandvelli. Margar skemmtilegar holur eru á þessum velli. Par 5 holurnar eru skemmtilegar en fyrir högglanga kylfinga er hægt að slá inn á flöt í tveimur höggum í flestum tilvikum. Það er ekki mikið um hindranir utan brautar, þar er sandur í flestum tilvikum og hægt að slá úr þeim aðstæðum með einföldum hætti. Stór vatnstorfæra umlykur 9. og 18. brautina. Þar getur því ýmislegt óvænt gerst í keppni.

Flatirnar á Saurines eru vingjarnlegar og bjóða upp á möguleika að slá löng högg inn á flöt án teljandi vandræða. Saurines er áhugaverður kostur á Mar Menor svæðinu.


Hacienda Riquelme

– Frábær völlur í mögnuðu umhverfi

Það vefst fyrir mörgum að bera fram nafnið á Hacienda Riquelme vellinum sem hannaður er af Jack Nicklaus. Upphafsholurnar á þessum velli eru krefjandi og gefa tóninn fyrir það sem koma skal. Völlurinn var opnaður árið 2008 og er par 72. Hann er 6.400 metrar af öftustu teigum – og sannarlega verkefni fyrir þá sem kjósa að leika af þeim teigum.

Landslagið á þessu svæði er með þeim hætti að auðvelt er fyrir kylfinga að gleyma sér í því að skoða náttúruna. Völlurinn er í næsta nágrenni við verndað útivistarsvæði. Háir fjallgarðar eru einkenni staðarins og á nokkrum stöðum er hægt að sjá alla leið út á ströndina og Miðjarðarhafið.

Nicklaus og félagar hans leiða gesti Hacienda Riquelme í gegnum magnað landslag. Mikill hæðarmunur er oft á tíðum frá teig og inn að flöt, og öfugt.

Þeir kylfingar sem hafa leikið á völlum á Flórída í Bandaríkjunum ættu að kannast við margt það sem boðið er upp á í hönnun Hacienda Riquelme. Brautirnar eru breiðar, mikið af glompum sem eru sýnilegar af teig, og utan brautar eru runnar, sandur og aðrar hindranir.

Flatirnar á Hacienda Riquelme er hraðar og með miklu landslagi – og afar skemmtilegt að glíma við brotin sem boltinn þarf að fara yfir á leið í holuna.

Eins og áður segir er Hacienda Riquelme langur af öftustu teigum eða rétt tæplega 6.400 metrar. Teigarnir þar fyrir framan eru með ýmsum hætti og það ættu allir að finna teiga sem henta þeirra leik. Við sem lékum á Hacienda Riquelme mælum með því að kylfingar hiki ekki við að færa sig fram á teigum – sérstaklega á par 3 holunum sem eru oft á tíðum langar.

Hacienda Riquelme er frábær golfvöllur og einn af þeim betri á Murcia-svæðinu. Sannarlega vel þess virði að heimsækja þetta svæði og eiga góðan dag í frábæru umhverfi.

Það er einfalt að aka eftir RM-1 hraðbrautinni frá Mar Menor til Hacienda Riquelme – en það ferðalag tekur um 25 mínútur.


El Valle

– Demantur sem ekki má missa af

El Valle er sá völlur sem hefur skapað sér stærsta nafnið á Mar Menor svæðinu. Bestu kylfingar Evrópu hafa margoft keppt á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðinni á þessum velli. Og til þess að fá að halda slík mót þarf að uppfylla strangar kröfur Evrópumótaraðarinnar.

Í stuttu máli sagt er El Valle einn af áhugaverðustu golfvöllum sem sá sem þetta skrifar hefur leikið á löngum ferli.

Völlurinn var hannaður með það að markmiði að verða „stórstjarna“ í harðri samkeppni við bestu velli Spánar.

Landslagið á El Valle er það fyrsta sem gestir vallarins taka eftir þegar þeir koma á svæðið. Fyrstu holurnar bjóða kylfinga velkomna á svæðið með rólegu yfirbragði en þegar líða fer á hringinn er talið í og boðið upp á stórkostlegar golfholur með reglulegu millibili.

Flatirnar eru ávallt hraðar og mikið brot er í risastórum flötum vallarins. Það er ekki einfalt að koma boltanum nálægt holunni af löngu færi á þessum velli. En skemmtilegt er það samt sem áður.

Par vallarins er 71. El Valle er 6.355 metrar af öftustu teigum, af gulum er hann 5.634 metrar. Af bláum teigum er hann 5.379 og 4.466 af fremstu teigum.

Risastórar brautarglompur með hvítum sandi setja svip sinn á El Valle. Háir sandhólar og klettar eru í aðalhlutverki á mörgum brautum, auk þess eru risastórar vatnstorfærur í leik á mörgum brautum. Alls eru þrjár slíkar torfærur og eru þær í leik á samtals sex holum.

Lokakafli El Valle er stórskemmtileg áskorun og ansi margt getur gerst á þeim kafla. Þegar lokabrautirnar eru leiknar kemur í ljós hvers vegna þessi völlur er enn vettvangur fyrir stórmót á vegum spænska golfsambandsins og Evrópumótaraðarinnar.

Klúbbhúsið er glæsilegt og gnæfir tignarlega yfir lokaholu vallarins. El Valle er byggður í miklu landslagi og Jack Nicklaus og félagar hafa átt góða daga í vinnunni við þetta vel heppnaða verkefni.

Það tekur um 30 mínútur að aka frá Mar Menor til El Valle – það ferðaleg er einfalt í sniðum og auðvelt er að finna völlinn.


 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ