Auglýsing

Á Íslandsmótinu í golfi 2021 sem fram fór á Jaðarsvelli á Akureyri var keppt í fyrsta sinn um Björgvinsskálina sem er veitt þeim áhugamanni sem leikur á lægsta skori í kvenna – eða karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi ár hvert.

Aron Snær Júlíusson, GKG, Íslandsmeistari í karlaflokki 2021 var sá fyrsti sem fékk afhenta Björgvinsskálina eftir Íslandsmótið í fyrra.

Á Íslandsmótinu í golfi 2022 sem hefst fimmtudaginn 4. ágúst í Vestmannaeyjum verður keppt um Björgvinsskálina í annað sinn.

Skálin er veitt til heiðurs Björgvini Þorsteinssyni en árið 2021 voru liðin 50 ár frá því að Björgvin varð í fyrsta sinn Íslandsmeistari í golfi. Björgvin varð síðar sexfaldur Íslandsmeistari og er næst sigursælasti kylfingur Íslandsmótsins í karlaflokki.

Verðlaunagripinn hafði Björgvin Þorsteinsson ánafnað GSÍ en um er að ræða verðlaun sem Björgvin hlaut fyrir fyrsta Íslandsmeistaratitil sinn árið 1971.

Eins og áður segir er Björgvin sexfaldur Íslandsmeistari en hann sigraði í fyrsta sinn árið 1971 og hann sigraði síðan fimm ár í röð á tímabilinu 1973-1977. Aðeins Birgir Leifur Hafþórsson hefur sigrað oftast í karlaflokki eða 7 sinnum en Birgir Leifur landaði sjöunda titlinum á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016. Úlfar Jónsson er einnig með sex Íslandsmeistaratitla líkt og Björgvin.

Björgvin, sem var fæddur árið 1953, lést þann 14. október 2021. Hann var á meðal keppenda á Íslandsmótinu 2021 eftir tveggja ára hlé. Hann tók þátt á 56 Íslandsmótum, þar af 55 sinnum í röð, sem er met sem verður seint slegið.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ