Auglýsing

Frá því að fyrst var keppt á Íslandsmótinu í golfi í kvennaflokki árið 1967 hafa alls 10 konur sigrað þrívegis eða oftar.

Tvær af þessum tíu eru á meðal keppenda á Íslandsmótinu 2022 sem hefst í Vestmannaeyjum fimmtudaginn 4. ágúst. 

Þær eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, sem sigraði 2011, 2014 og 2016 – og Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, sem landaði sínum fyrsta titli í Vestmannaeyjum árið 2018 og hún sigraði einnig á næstu tveimur Íslandsmótum, 2019 og 2020.. 

Guðrún Brá er í hópi fárra kylfinga sem hafa sigrað þrjú ár í röð á Íslandsmótinu í golfi. 

Alls eru 23 nöfn grafin á verðlaunagripinn í kvennaflokki, 14 kylfingar hafa sigraði oftar en einu sinni. Kylfingar úr GR hafa oftast sigrað eða 22 sinnum, GK er með 13 titla, og GS er með 11 titla. 

Alls eru fjórir keppendur á Íslandsmótinu í ár  í kvennaflokki sem eru fyrrum Íslandsmeistarar í golfi, Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, mætir í titilvörnina eftir fyrsta titil hennar í fyrra á Akureyri. Þórdís Geirsdóttir, GK, sem varð Íslandsmeistari árið 1987 er einnig á meðal keppenda. Þórdís fagnaði nýverið sínum áttunda Íslandsmeistaratitli í röð í flokki 50 ára og eldri. 

Karen Sævarsdóttir, GS, sigraði átta sinnum í röð, 1989-1996, og það met verður seint slegið. Jakobína Guðlaugsdóttir, GV, vann alls fjóra titla og þar af þrívegis í röð 1972-1974. Sólveig Þorsteinsdóttir, GR (1980-1982) og Jóhanna Ingólfsdóttir, GR, (1977-1979) sigruðu báðar þrívegis í röð á Íslandsmótinu í golfi. 

Alls eru þrír kylfingar sem hafa sigrað fjórum sinnum á Íslandsmótinu í kvennaflokki, Jakobína, Ragnhildur Sigurðardóttir (1985, 1998, 2003, 2005) og Ólöf María Jónsdóttir, GK (1997, 1999, 2002, 2004).

Jóhanna Ingólfsdóttir, GR, er ein af þessum 6 sem hafa sigrað þrívegis í röð á Íslandsmótinu. Hún sigraði í fyrsta sinn árið 1977 þegar mótið fór fram á Grafarholtsvelli. Þar kepptu flestir af bestu kvenkylfingum landsins. 

<strong>Jóhanna Ingólfsdóttir með verðlaunagripinn fyrir Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki á kynningarfundi GSÍ 2022 Myndsethgolfis<strong>

Íslandsmeistarar fyrri ára Kristin Pálsdóttir og Jakobína Guðlaugsdóttir deildu öðru sætinu,en í bráðabana þeirra á milli hafði Kristín betur og fékk silfurverðlaunin.

Árið 1978 var keppt í kvennaflokki á Nesvellinum á Íslandsmótinu í golfi en meistaraflokkur karla keppti á Hólmsvelli í Leiru. Alls voru þrír keppnisvellir notaðir á þessu Íslandsmóti. 

Jóhanna Ingólfsdóttir náði að verja titil sinn frá árinu áður þótt undirbúningur hennar fyrir mótið væri af skornum skammti. Hún stundaði nám í frönsku við Sorbonne Háskólann í París og hafði þar fá tækifæri til að æfa sig. En á Nesvellinum lék hún vel og þá sérstaklega á öðrum degi keppninnar þegar skor hennar var aðeins 73 högg en með því má segja að farið hafi að hylla undir titilinn. Jóhanna lék á 328 höggum en ung stúlka úr GK, Sólveig Þorsteinsdóttir, var þó ekki langt á eftir, lék á 331 höggi. Jakobína Guðlaugsdóttir sýndi rækilega að hún var ekki dauð úr öllum æðum. Hún veitti ungu stúlkunum verðuga keppni og hreppti þriðja sætið á 333 höggum.

Jóhanna fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð árið 1979 þegar mótið fór fram á Jaðarsvelli á Akureyri. Á því móti fór Íslandsmótið í kvennaflokki áður en keppni hófst í karlaflokki.  Hörkuslagur var um Íslandsmeistaratitil kvenna. Þrjár konur börðust jafnri baráttu en það sem réði úrslitum og tryggði Jóhönnu Ingólfsdóttur titilinn var að minni sveiflur voru í leik hennar en keppinautanna. Hún náði fljótlega forystu sem hún lét ekki af hendi þótt að henni væri sótt. Jóhann lék á 363 höggum en Sólveig Þorsteinsdóttir og Kristín Þorvaldsdóttir á 364 höggum og sigraði Kristín síðan Sólveigu í bráðabana um 2.sætið.

Íslandsmeistarar frá upphafi í kvennaflokki. 

8 Íslandsmeistaratitlar: 

Karen Sævarsdóttir, GS (1989-1996)

4 Íslandsmeistaratitlar:

Jakobína Guðlaugsdóttir, GV (1970, 1972-74).
Ragnhildur Sigurðardóttir, GR (1985, 1998, 2003, 2005).
Ólöf María Jónsdóttir, GK (1997, 1999, 2002, 2004).

3 Íslandsmeistaratitlar:

Guðfinna Sigurþórsdóttir, GS (1967-68, 1971).
Jóhanna Ingólfsdóttir, GR (1977-1979).
Sólveig Þorsteinsdóttir, GR (1980-1982).
Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (2009,2012, 2017)
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR (2011, 2014, 2016).
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (2018-20).

2 Íslandsmeistaratitlar

Kristín Pálsdóttir, GK (1975-76)
Ásgerður Sverrisdóttir, GR (1983-84)
Steinunn Sæmundsdóttir, GR (1986,1988)
Helena Árnadóttir, GR (2006,2008)

Íslandsmeistarar:

Elísabet Möller, GR (1969)
Þórdís Geirsdóttir, GK (1987)
Kristín Elsa Erlendsdóttir, GK (2000)
Herborg Arnarsdóttir, GR (2001)
Nína Björk Geirsdóttir, GKj./GM (2007)
Tinna Jóhannsdóttir, GK (2010)
Sunna Víðisdóttir, GR (2013)
Signý Arnórsdóttir, GK (2015)
Hulda Clara Gestsdóttir, GKG (2021)

Fjöldi titla hjá klúbbum:

GR:22
GK: 13
GS: 11
GV: 4
GL: 3
GKj./GM: 1
GKG: 1

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ