Frá vinstri. Viktor Elvar Viktorsson, formaður mótanefndar GSÍ, Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ, Sveinn Björnsson, formaður GS, Auðunn Sverrisson, framkvæmdastjóri GS, Gunnar Ellert Geirsson, stjórnarmaður GS og Örn Ævar Hjartarson, stjórnarmaður GS. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Íslandsmótið í golfi 2024 fer fram á Hólmsvelli í Leiru hjá Golfklúbbi Suðurnesja.

Samningur þess efnis var undirritaður í gær og fer mótið fram dagana 18.-21. júlí á næsta ári.

Hulda Bjarnadóttir forseti GSÍ og Sveinn Björnsson, formaður GS, undirrituðu samninginn á Grand hótel í Reykjavík þar sem að málþing um mótamál fór fram.

Golfklúbbur Suðurnesja á langa sögu sem gestgjafi Íslandsmótsins í golfi.

GS hefur haldið Íslandsmótið í golfi í karlaflokki alls 10 sinnum og 8 sinnum í kvennaflokki.

Þegar Íslandsmótið hefst á næsta ári verða rúm 13 ár liðinn frá því að Íslandsmótið í golfi fór síðast fram á Hólmsvelli í Leiru.

Árið 1967 fór Íslandsmótið í golfi í fyrsta sinn fram á Hólmsvelli í Leiru en þá var fyrri hluti mótsins í karlaflokki leikinn hjá GS en síðari hlutinn á Grafarholtsvelli í Reykjavík.

Keppni í kvennaflokki fór frma á Hvaleyrarvelli árið 1967 og var það fyrsta Íslandsmótið í golfi sem fram fór kvennaflokki – og þar sigraði Guðfinna Sigurþórsdóttir, úr GS, fyrst allra.

Heimamaðurinn Þorbjörn Kærbo fagnaði Íslandsmeistaratitlinum árið 1970 á Hólmsvelli í Leiru en þá fór seinni hluti mótsins fram hjá GS en fyrri hlutinn hjá Keili í Hafnarfirði. Jakobína Guðlaugsdóttir, GV, varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn á ferlinum það sama ár sama velli.

Hannes Eyvindsson varð Íslandsmeistari á Hólmsvelli árið 1978 þegar mótið fór fram í þriðja sinn í karlaflokki á vellinum.

Árið 1981 var keppt í karla og kvennaflokki á Hólmsvelli í Leiru á Íslandsmótinu í golfi – og var það í fjórða sinn í karlaflokki og annað sinn í kvennaflokki sem keppt var um Íslandsmeistaratitilinn.

Ragnar Ólafsson, GR, fagnaði sigri í karlaflokki og Sólveig Þorsteinsdóttir, GR, varði sinn titil frá árinu áður.

Árið 1986 fagnaði Úlfar Jónsson, GK, sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli af alls sex, á Hólmsvelli í Leiru og Steinunn Sæmundsdóttir, GR, sigraði í fyrsta sinn í kvennaflokki.

Úlfar sigraði í þriðja sinn á ferlinum á Hólmsvelli árið 1989 og Karen Sævarsdóttir, GS, fagnaði sínum fyrsta titli af alls átta árið 1989.

Árið 1993 sigraði Karen í fimmta sinn í röð á Íslandsmótinu þegar mótið fór fram á heimavelli hennar, og Eyjamaðurinn Þorsteinn Hallgrímsson, GV, sigraði í fyrsta sinn í karlaflokki.

Árið 1998 sigruðu Ragnhildur Sigurðardóttir, GR og Sigurpáll Geir Sveinsson, GA á Íslandsmótinu á Hólmsvelli í Leiru. Það var annar titill Ragnhildar og Sigurpáls á þeirra ferli.

Ragnhildur kann vel við sig á Hólmsvelli í Leiru því hún sigraði á Íslandsmótinu sem þar fór fram árið 2005 og var það fjórði Íslandsmeistaratitill hennar. Heiðar Davíð Bragason, sem þá keppti fyrir Golfklúbbinn Kjöl í Mosfellsbæ, sigraði í karlaflokki og er það eini Íslandsmeistaratitill hans.

Árið 2011 fór Íslandsmótið fram á Hólmsvelli í Leiru og var það í 10. sinn í karlaflokki og 8 sinn í kvennaflokki. Þar sigraði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, og var það hennar fyrsti titill. Axel Bóasson, GK, sigraði í karlaflokki og var það einnig fyrsti titill hans á Íslandsmótinu í golfi.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ