Auglýsing

Íslandsmótið í golfi 2021 fer fram á Jaðarsvelli á Akureyri dagana 5. -8. ágúst 2021.

Opið er fyrir skráningu í mótið og nú þegar hafa um 130 kylfingar skráð sig til leiks.

Skráningarfrestur er til kl. 23:59 þriðjudagsins 27. júlí – sem er í kvöld.

Athugið að skráningarfrestur verður ekki framlengdur.

Smelltu hér til að skrá þig:

Þátttökuréttur og niðurskurður

Höggleikur í flokki karla og kvenna án forgjafar, leiknar verða 72 holur á fjórum dögum. Hámarksfjöldi þátttakenda er 150. Í karlaflokki er hámarksforgjöf 5,5 og í kvennaflokki 8,5.

Þátttökurétt í hvorum flokki hafa, í þessari röð:

1. Fyrrum Íslandsmeistarar í golfi.

2. Leikmenn með stig á heimslista atvinnukylfinga (www.owgr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.

3. Leikmenn í sætum 1 – 2000 á heimslista áhugakylfinga (www.wagr.com) kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.

4. Leikmenn í sætum 1 – 50 á stigalista GSÍ á yfirstandandi ári. Ef tveir eða fleiri leikmenn eru jafnir í 50. sæti skulu þeir báðir/allir fá þátttökurétt.

5. Aðrir leikmenn sem fjærst eru forgjafarmörkum í sínum flokki kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur. Standi val á milli keppenda með forgjöf jafnlangt frá forgjafarmörkum skal hlutkesti ráða (sjá þó upplýsingar um undankeppni, varðandi tvö síðustu sætin í hvorum flokki).

Þó skulu að lágmarki 36 kylfingar fá þátttökurétt í hvorum flokki. Keppendum skal þó fjölgað þannig að fullir ráshópar verði í hvorum flokki.

Eftir 36 holu leik skal leikmönnum fækkað þannig að þau 60% leikmanna sem eru með besta skor í hvorum flokki halda áfram keppni. Ef leikmenn eru á sama skori og sá sem er með lakastan árangur þeirra sem halda áfram skulu þeir báðir/allir halda áfram. Einnig skulu leikmenn ætíð fá að halda áfram keppni séu þeir 10 höggum eða minna á eftir þeim leikmanni sem er í 1. sæti.

Skráning

Skráning í Íslandsmótið í golfi 2021 fer fram í GolfBox og er skylda að greiða við skráningu. Allir kylfingar geta skráð sig en tryggð þátttaka skýrist þó ekki fyrr en eftir að skráningarfresti lýkur og endanlegur keppendalisti hefur verið gefinn út. Þeir kylfingar sem skrá sig í mótið en fá ekki þátttökurétt munu fá mótsgjald endurgreitt að móti loknu.

Skráningarfrestur er til kl. 23:59 þriðjudaginn 27. júlí.

Mótsgjald og æfingahringir

Mótsgjald er 19.900 kr. Innifalið eru tveir æfingahringir á æfingadögum, æfingaboltar á meðan á móti stendur og miði í lokahóf. Mótsgjald fæst einungis endurgreitt séu forföll boðuð eigi síðar en kl. 18:00, þremur dögum fyrir fyrsta keppnisdag.

Formlegir æfingadagar eru mánudagur 2. ágúst, þriðjudagur 3. ágúst og miðvikudagur 4. ágúst. Vinsamlegast athugið að teigar og uppsetning vallar verða ekki endanlega ákveðin fyrr en á mánudagsmorgni. 

Vinsamlegast athugið að kylfingar þurfa að hafa skráð sig í mótið og greitt mótsgjald til að geta leikið æfingahring.

Kylfingar þurfa að hafa samband við golfklúbbinn til að bóka rástíma á jonheidar@gagolf.is eða í síma 462-2974.

Til að fá tryggða rástíma í æfingahringi þarf að bóka fyrir lok föstudagsins 30. júlí.

Rástímar fyrir æfingahringi eru eftirfarandi:

Mánudagur 2. ágúst – 6:30-8:30 og 13:30-15:30

Þriðjudagur 3. ágúst – 6:30-8:30 og kl. 18:00-19:00

Miðvikudagur 4. ágúst – 6:30-8:30 og 13:30-15:30

Lokahóf

Miði á lokahóf er innifalinn í mótsgjaldi. Boðið verður upp á hlaðborð með kjöti, grænmeti, fiski og meðlæti en aukamiði kostar 5.000 kr. Hægt er að kaupa aukamiða við skráningu í mótið.

Verðlaun

Veitt verða verðlaun (gjafakort)  fyrir 1. – 3. sæti í flokki karla og kvenna.

  1. sæti 90.000 kr.   (150.000 kr. fyrir atvinnumenn) 
  2. sæti 60.000 kr.   
  3. sæti 35.000 kr.

Undankeppni

Verði umframskráning í mótið sem nemur a.m.k. fimm keppendum í öðrum hvorum eða báðum flokkum mun undankeppni fara fram. Keppt verður um tvö síðustu sætin í viðkomandi flokki. Þátttaka er bundin við þá leikmenn sem standast forgjafarmörk og hafa skráð sig til keppni í Íslandsmótinu innan tilskilins skráningarfrests. 

Undankeppnin er 18 holu höggleikur án forgjafar og fer fram fimmtudaginn 29. júlí á Jaðarsvelli. Ræst verður út af 1. teig frá kl. 11:30. Verði leikmenn jafnir skal leika bráðabana um efstu tvö sætin. Mótsgjald er 5.000 kr. sem dregst frá endurgreiðslu ef leikmaður kemst ekki inn í Íslandsmótið.

Biðlisti

Skráðir kylfingar sem ekki fá þátttökurétt vegna hámarksfjölda fara á biðlista. Röð keppenda á biðlista ræðst af röð þeirra í undankeppni og að því frátöldu af forgjöf kl. 8:00 morguninn eftir að skráningarfresti lýkur.

Ef tveir eða fleiri kylfingar eru með sama skor í undankeppni (í sætum 3 og aftar) eða jafnháa forgjöf hafi þeir ekki tekið í þátt í undankeppni, ræður hlutkesti. Verði forföll fyrir fyrsta keppnisdag verður haft samband við kylfinga á biðlista og þeim boðin þátttaka. Kylfingar á biðlista geta mætt á keppnisstað að morgni fyrsta keppnisdags og verið til taks ef forföll verða. Viðkomandi þurfa að gefa sig fram við afgreiðslu.

Annað

Með þátttöku í mótinu heimila keppendur myndatöku og myndbirtingar á miðlum GSÍ og hjá RÚV.

Keppnisskilmálar eru háðir breytingum sem meðal annars geta orðið vegna tilmæla sóttvarnaryfirvalda vegna Covid-19.

Kylfingar skulu staðfesta mætingu í afgreiðslu á æfingadögum.

Mótsstjórn: Brynjar Geirsson, Haukur Örn Birgisson, Hörður Geirsson, Jón Heiðar Sigurðsson, Jón Steindór Árnason, Jón Thorarensen,  Kristín María Þorsteinsdóttir, Steindór Ragnarsson, Viktor Elvar Viktorsson.

Dómarar: Jón Thorarensen, Tryggvi Jóhannsson.

Birt með fyrirvara um breytingar.

Íslandsmótið á Jaðarsvelli

Íslandsmótið fór fram síðast á Jaðarsvelli árið 2016. Á Íslandsmótinu í golfi 2021 verður keppt um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki í 80. sinn og í 55. sinn í kvennaflokki. Fyrst var keppt í karlaflokki árið 1942 og árið 1967 í kvennaflokki.

Frá því að keppt var fyrst á Íslandsmótinu í golfi hefur Íslandsmótið farið fram alls 17 sinnum á Akureyri. Íslandsmótið 2021 verður það átjánda frá upphafi sem fram fer á Akureyri. Í kvennaflokki hefur mótið farið fram alls 9 sinnum á Akureyri frá því að fyrst var keppt í kvennaflokki á Akureyri árið 1971.

Íslandsmótið 2016 sem fram fór á Jaðarsvelli var sögulegt. Þar setti Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, nýtt mótsmet í kvennaflokki þegar hún lék samtals 11 höggum undir pari vallar – eftir gríðarlega harða baráttu gegn Valdísi Þóru Jónsdóttur, GL, sem lék á -9 samtals. Ólafía Þórunn fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli árið 2016.

Í karlaflokki setti Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, met en hann fagnaði þar sínum sjöunda Íslandsmeistaratitli með eftirminnilegum lokahring. Birgir Leifur lék á 66 höggum eða 5 þegar mest á reyndi og -8 samtals. Bjarki Pétursson, GKB, og Axel Bóasson voru einu höggi á eftir og léku umspil um annað sætið þar sem að Axel hafði betur.

Íslandsmeistarar í karlaflokki þegar mótið hefur farið fram á Akureyri:

1946: Sigtryggur Júlíusson, GA
1949: Jón Egilsson, GA
1952: Birgir Sigurðsson, GA
1955: Hermann Ingimarsson, GA
1958: Magnús Guðmundsson, GA
1961: Gunnar Sólnes, GA
1963: Magnús Guðmundsson, GA
1966: Magnús Guðmundsson, GA
1971: Guðfinna Sigurþórsdóttir, GS / Björgvin Þorsteinsson, GA
1975: Kristín Pálsdóttir, GK / Björgvin Þorsteinsson, GA
1979: Jóhanna Ingólfsdóttir, GR / Hannes Eyvindsson, GR
1985: Ragnhildur Sigurðardóttir, GR / Sigurður Pétursson, GR
1987: Þórdís Geirsdóttir, GK / Úlfar Jónsson, GK
1990: Karen Sævarsdóttir, GS / Úlfar Jónsson, GK
1994: Karen Sævarsdóttir, GS / Sigurpáll G. Sveinsson, GA
2000: Kristín Elsa Erlendsdóttir, GK / Björgvin Sigurbergsson, GK
2016: Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR / Birgir Leifur Hafþórsson, GKG

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ