Site icon Golfsamband Íslands

Íslandsmótið 2019: Ólafía Þórunn, merkisberi KPMG, tekur þátt

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, hefur ákveðið að taka þátt á Íslandsmótinu í golfi – 2019 á Mótaröð þeirra bestu.

Ólafía Þórunn hefur verið í fremstu röð íslenskra atvinnukylfinga undanfarin ár. Hún hefur náð hæst allra íslenskra kylfinga á heimslista atvinnukylfinga, leikið á flestum risamótum og er eini kylfingurinn sem hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á LPGA mótaröðinni í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ólafíu og KPMG á Íslandi.

Tilkynningin er hér fyrir neðan:

„Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, hefur ákveðið taka þátt í Íslandsmótinu í höggleik sem fram fer á Grafarholtsvelli 8.-11. ágúst.

Það verður nóg að gera hjá Ólafíu Þórunni næstu vikurnar en á mánudag tekur hún þátt í Einvíginu á Nesinu og helgina eftir Íslandsmótið er mót á Symetra mótaröðinni og á mánudeginum í kjölfarið tekur hún þátt í úrtökumóti fyrir LPGA mót sem fer fram helgina þar á eftir.

„Það er mjög óvænt að ég taki þátt í Íslandsmótinu. Ég var að spila Grafarholtið um daginn og fannst það svo rosalega gaman. Mig kitlaði í fingurna að vera með í mótinu, þannig að ég hugsaði þetta í nokkra daga og í framhaldinu ákvað ég að breyta plönunum mínum aðeins og láta vaða. Það verður gaman að spila aftur á Íslandi, sérstaklega í Grafarholtinu þar sem ég ólst upp.“

Íslandsmótið í Grafarholti á 85 ára afmæli klúbbsins verður án efa glæsilegt í alla staði og óskum við Ólafíu Þórunni sem og öðrum kylfingum og sem að mótinu standa góðs gengis.

KPMG ehf. er styrktaraðili Ólafíu Þórunnar, Golfsambands Íslands og Golfklúbbs Reykjavíkur.

Exit mobile version