GSÍ fjölskyldan
Auglýsing

„Hér í Mosfellsbæ fékk ég góð hvatningu á sínum tíma til að halda áfram í golfi. Ég hlakka því til að spila á Íslandsmótinu á þessum velli þar sem að golfferill minn byrjaði á sínum tíma,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur. 

Ólafía Þórunn er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð alla leið inn á bandarísku LPGA mótaröðina og hún er til alls likleg á sínum gamla heimavelli á Íslandsmótinu í golfi 2020. 

„Ég byrjaði í golfi hér hjá Golfklúbbnum Kili í Mosfellsbæ. Hér fékk ég góða hvatningu þegar ég var ekkert sérstaklega ánægð með árangurinn hjá mér. Keppnisskapið var til staðar á þeim tíma og það var ekkert gaman að vera ekki góð og ná árangri. Þriðjudagsmótaröð barna – og unglinga hafði góð áhrif á mig. Hér fékk ég mín fyrstu verðlaun í golfi og þau sem héldu utan um barna – og unglingastarfið gerðu allavega það rétta í stöðunnni hvað mig varðar. Ég hélt áfram eftir að hafa fengið verðlaun á þessum mótum,“ segir Ólafía Þórunn en hún hefur þrívegis sigrað á Íslandsmótinu í golfi, 2011, 2014 og 2016. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

„Það er alltaf smá fiðringur í maganum fyrir Íslandsmótið í golfi en á sama tíma er þetta skemmtilegasta mótið sem maður tekur þátt í. Það er í raun bara geggjað að fá tækifæri að keppa í golfi á þessum tímum sem við erum að upplifa núna,“ segir Ólafía en hún hefur ekki keppt á Íslandsmótinu í golfi frá árinu 2016 þegar hún fagnaði sínum öðrum titli og setti jafnframt mótsmet á -11 samtals. 

„Hlíðavöllur er mikið breyttur núna miðað við í vor þegar við vorum að keppa á ÍSAM- mótinu. Karginn er erfiður, boltinn rúllar á flötunum, og það er búið að „krydda“ völlinn upp með því að breyta rauðum hindrunum í hvítar og allskonar. Það er enn mikilvægara en áður að hitta brautir eftir upphafshöggin, það einfaldar innáhöggið, og gefur tækifæri á betra skori.“ 

Þrátt fyrir að Ólafía Þórunn sé fædd árið 1992 er hún í þeirri stöðu að vera næst elsti keppandinn á Íslandsmótinu 2020 ásamt Berglindi Björnsdóttur, GR, og Stefaníu Kristínu Valgeirsdóttur, GA

„Það er bara gaman að vera í eldri kantinum á þessu móti. Það eru margir efnilegir keppendur í kvennaflokknum og framtíðin er bara björt.“

Ólafía Þórunn segir að lokum að það verði skemmtilegt verkefni að glíma við Hlíðavöll án þess að vera með aðstoðarmann líkt og hefur tíðkast í keppnisgolfinu. 

„Vegna Covid-19 eru engir aðstoðarmenn leyfðir. Ég kvíði því ekki, þar sem ég hef alltaf tekið mínar ákvarðanir sjálf úti á velli, og ég er í það góðu líkamlegu ástandi að það verður ekkert mál að ýta kerrunni á undan sér. Vonandi verður veðrið bara skaplegt þannig að við getum notið þess að leika golf við þessar aðstæður,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ