/

Deildu:

Golfkennsluefni 2016. PGA. Mynd/GR
Auglýsing

Grein frá PGA á Íslandi sem birtist í 5. tbl. Golf á Íslandi í desember 2016:

Hver kannast ekki við að vera búin(n) með 14 holur og spila bara nokkuð vel?

Þegar á 15. holu er komið þá er smá bið. Ráshópurinn á undan er að slá á teig þegar þið komið. Á meðan beðið er fara sumir að tala um að þú sért örugglega í lækkun í dag. Þú telur þetta saman og kemst að því að þú ert kominn með 36 punkta.

„Já, ef ég fæ bara fjóra punkta í viðbót er ég í svakalegri lækkun,“ hugsar þú með þér.

Hugurinn fer að reika og þú ferð að hugsa enn meira og jafnvel um símtal við vin þinn.

„Djöfull skal ég hringja í Stefán, hvað á ég að segja við hann? Kannski þetta: „Heldur þú að karlinn sé ekki orðinn lægri en þú í forgjöf? Skrambi verður hann Stefán fúll, þetta verður skemmtilegt símtal.“

Það er komið að ykkur og þú stendur á teignum og ert búin(n) að slá eins og engill allan hringinn. Þá gerist eftirfarandi: Þú skallar boltann, slærð annað höggið í sand, druslar boltanum inn á flötina og þrípúttar. Enginn punktur. Hjartað fer af stað. „Hvaða rugl er þetta,“ hugsar þú. Varkárni og efi læðist að þér. Þú endar hringinn á 36 punktum.   

Af hverju skiptir hugurinn svona miklu máli í golfi?  

Einfalda svarið er að hugurinn stýrir öllu sem við gerum. Um leið og hugsanir okkar byrja að snúast um að fyrirbyggja mistök eða stjórnast af ótta og efa þá hefur það áhrif á þau skilaboð sem vöðvar líkamans fá frá heilanum.  

Vöðvarnir fá misvísandi skilaboð um hvað þeir eiga að gera og úr verður hreyfing sem er ónákvæm og óákveðin. Mikið hefur verið talað um vöðvaminni (muscle memory) í gegnum tíðina og mikilvægi þess að þjálfa vöðvaminni. Í raun er vöðvaminni ekki til, vöðvar hafa enga minnisgetu, hins vegar er sífelld endurtekin hreyfing þjálfun á skilaboðum frá heila til vöðva um að framkvæma hluti alltaf eins. Þess vegna skipta markvissar æfingar og endurtekning í golfi miklu máli.  

Kylfingar þekkja það af reynslu hvernig hugarástand þeirra breytist á hringnum eins og dæmisagan hér á undan lýsir.  Sumum finnst jafnvel ágætt að byrja ekkert alltof vel því þá geta þeir hætt að hugsa um draumaskorið og einfaldlega spilað „sitt“ golf.  Erfiðast er það fyrir flesta þegar þeir átta sig á því að þeir eru að spila langt umfram væntingar.  

Hugarþjálfun í golfi gengur einfaldlega út á það að læra að hafa stjórn á hugsun sinni í þeim aðstæðum þegar hugurinn fer að reika. Við verðum að geta hamið okkur í að hugsa of mörg högg fram í tímann og ef hugurinn reikar þurfum við að geta komið hugsunum okkar aftur á rétta braut. Þetta er hins vegar hægara sagt en gert. Nauðsynlegt er að því að temja sér ákveðið hugarfar hvort sem við erum að keppa, spila með félögunum eða bara að æfa okkur á æfingasvæðinu.

Hugarþjálfun í golfi gengur einfaldlega út á það að læra að hafa stjórn á hugsun sinni í þeim aðstæðum þegar hugurinn fer að reika.

Í sögunni hér í upphafi fór leikmaðurinn langt fram úr sér. Í staðinn fyrir að einbeita sér að næsta höggi og koma boltanum á brautina leitaði hugurinn í að hugsa um skorið. Það að leggja saman skorið þýddi að einbeitingin fór af næsta höggi yfir á heildarniðurstöðuna. Það veldur því að erfitt er að framkvæma þau högg sem á eftir koma. Í þessari stöðu er mikilvægt að halda sér í „núinu“. Einbeita sér að næsta höggi. Fara í gegnum vanaferlið og velja skotmark. Gott er að temja sér að hafa skotmarkið eins lítið og hægt er.

Gott er að temja sér að hafa skotmarkið eins lítið og hægt er

Ekki miða bara á brautina heldur á eitthvað ákveðið, t.d. fjarlægðarhæl, tré eða glompu í fjarska. Treysta svo sveiflunni sem hefur virkað svo vel þann daginn í að framkvæma höggið. Í næsta höggi tekur við sama ferli og svo koll af kolli þangað til boltinn er kominn í holuna á 18. flötinni. Þá fyrst tökum við upp skorkortið og leggjum saman höggin og punktana.

Golfkennsluefni PGA 2016. Mynd/GR.
Golfkennsluefni PGA 2016. Mynd/GR.

En getum við æft andlega þáttinn á æfingasvæðinu?

Þegar við erum úti á velli þá hafa öll högg einhverjar afleiðingar. Ef við sláum lélegt upphafshögg þá þurfum við að glíma við afleiðingarnar í næsta höggi. Á æfingasvæðinu hafa lélegu höggin hins vegar litlar sem engar afleiðingar. Við teygjum okkur strax í annan bolta og sláum aftur. Þegar við æfum okkur er mikilvægt að reyna að líkja eftir þeim aðstæðum sem við erum í úti á velli. Við þurfum því að velja okkur skotmark fyrir hvert högg. Fara í gegnum vanaferlið og slá svo á skotmarkið. Nauðsynlegt er að skipta reglulega um skotmark, ekki slá heila körfu bara með 7-járninu. Skipta um kylfu og skotmark reglulega og hafa stanslaust áreiti á huganum eins og er þegar við erum úti á velli að spila golf.

Þegar við æfum teighögg er hægt að setja upp ímyndaða braut á æfingasvæðinu. Við höfum fimm högg og ætlum að hitta að lágmarki þrjú inn á brautina. Þetta heldur okkur einbeittum og höggin hafa einhverjar afleiðingar, ekki ósvipað og þegar við spilum golf.

Gagnrýndu þig aldrei fyrir slæmt högg, byggðu þig frekar upp fyrir það næsta. Hafðu það markmið að hafa alltaf gaman í golfi

Með svipuðum hætti er hægt að æfa stutta spilið. Það vita allir kylfingar að það er erfiðara að pútta fyrir fugli en tvöföldum skolla. Púttið er það sama en við erum upptekin af niðurstöðunni, hvort við náum fuglinum eða ekki. Við getum undirbúið okkur undir þessar aðstæður á púttflötinni. Setjum okkur markmið að hitta ákveðið mörgum púttum í holu í röð. Þegar við færumst nær markmiðinu verður erfiðara að pútta, ekki ósvipað og þegar við tökumst á við púttin fyrir fuglunum úti á velli.

Það er því um að gera að gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn á æfingasvæðinu. Að æfa með skýrt markmið gerir æfingarnar bæði markvissari og svo miklu skemmtilegri.

F Finndu núið

Ó Ófullkomin(n)

K Kýldu á það

U ndirbúðu æfingar

S tattu með þér

5 leiðir til að hemja hugann

Finndu núið: Hugsaðu um næsta högg, ekkert annað skiptir máli.  

Þegar hugsun um heildarskor læðist inn, beindu þá athyglinni aftur að því sem þú ert að gera. Ef þetta reynist erfitt er gott að veita umhverfinu athygli, t.d. fuglunum, veðrinu, fjöllunum og gróðrinum. Vertu í núinu.

Ófullkomin(n):  Leyfðu þér að vera ófullkomin(n), það er hluti af leiknum. „Golf er ekki keppni um hið fullkomna,“ eins og Bob Rotella kallaði sína frægustu bók um golf.

Kýldu á það: Vertu ákveðin(n) og einbeitt(ur) í því sem þú ætlar að framkvæma.

Veldu þér eins nákvæmt mið og hægt er í öllum höggum og settu alla einbeitingu á þann stað. Sláðu bara þegar þú ert tilbúin(n).

Undirbúðu æfingar: Þegar þú æfir þig á æfingasvæði, notaðu ímyndunaraflið eins þú sért að spila og settu þér markmið. Það margfaldar árangur af æfingunni og undirbýr þig fyrir sömu aðstæður úti á velli.

Stattu með þér: Vertu þinn besti stuðningsmaður.

Gagnrýndu þig aldrei fyrir slæmt högg, byggðu þig frekar upp fyrir það næsta. Hafðu það markmið að hafa alltaf gaman í golfi

Hulda Birna Baldursdóttir og
Helgi Anton Eiríksson PGA kennarar skrifuðu:

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ