Auglýsing

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, tryggði sér sigur í 1. umferð holukeppninnar á Opna breska áhugamannamótinu í morgun með glæsilegu pútti á 20. holu í bráðabana gegn Anna Zanusso frá Ítalíu.

Þær áttust við í 64 manna úrslitum og var viðureign þeirra afar spennandi.

Ítalski kylfingurinn var með yfirhöndina allt þar til á lokakafla viðureignarinnar þegar Hulda Clara náði að jafna og tryggja sigurinn með púttinu hér fyrir neðan.

Hér er hægt að fylgjast með viðureignum Huldu Clöru í holukeppninni.

Hulda Clara endaði í 29. sæti í höggleikskeppninni á +3 eða 75 höggum. Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, féll naumlega úr leik en hann lék á +6 eða 77 höggum. Hann var einu höggi frá því að komast í 64 manna úrslit mótsins.

Fyrstu umferð af alls tveimur í höggleiknum í karla – og kvennaflokki var felld niður vegna veðurs. Keppni var frestað í tvígang í gær vegna veðurs og ákvað mótsstjórn að fella niður fyrstu umferðina. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, var á meðal efstu kylfinga í kvennaflokknum á +2 eftir 17 holur og Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, var um miðjan keppnishóp í karlaflokknum.

Keppendur fengu því aðeins einn keppnisdag í höggleikskeppninni þar sem keppt er um að komast í hóp 64 efstu sem fá tækifæri til þess að keppa í holukeppninni sem tekur við af höggleikskeppninni.

Mótin eru í hæsta styrkleikaflokki áhugakylfinga á heimsvísu og eiga sér bæði langa sögu.

Hulda Clara keppir á West Lancashire vellinum í nágrenni við Liverpool dagana 25.-29. ágúst en Dagbjartur keppir á Royal Birkdale vellinum dagana 25.-30. ágúst.

Opna breska meistaramótið í karlaflokki, The Open, hefur m.a. verið haldið 10 sinnum á Royal Birkdale vellinum.

Að forkeppninni lokinni komast 64 efstu inn í holukeppnina. Í þeirri keppni eru leiknar tvær umferðir á dag þar til að úrslitin ráðast í úrslitaleik um sigurinn.

Það er til mikils að vinna á þessum mótum. Sigurvegarinn á Opna breska áhugamannamótinu í karlaflokki fær m.a. boð um að taka þátt á atvinnumótum á borð við Opna breska meistaramótið og Masters mótinu.

Siguvegarinn hjá konunum á Opna breska áhugamannamótinu fær einnig boð um að taka þátt á risamótum á borð við AIG meistaramótið, Opna bandaríska meistaramótið, Evian meistaramótið og Augusta National áhugamannamótið.

Á Royal Birkdale vellinum var Dagbjartur á meðal 120 keppenda en á West Lancashire vellinum var Hulda Clara á meðal 100 keppenda sem taka þátt.

Staða, úrslit og rástímar hjá Dagbjarti – smelltu hér:

Staða, úrslit og rástímar hjá Huldu Clöru – smelltu hér:

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ