Auglýsing

Tómas F. Aðalsteinsson er aðstoðarprófessor við Williams College í Massachusetts í Bandaríkjunum og er yfirþjálfari kvennagolfliðs skólans. Hann er með meistaragráðu í íþróttasálfræði frá John F. Kennedy University í Kaliforníu og veitir ráðgjöf og fræðslu um hugarþjálfun í golfi og öðrum íþróttum. Tómas skrifar eftirfarandi pistil sem birtur var fyrst í tímaritinu Golf á Íslandi.

Öll höggin fóru nákvæmlega þangað sem þeim var ætlað að fara. Sveiflan mjúk, líðanin góð og sjálfstraustið í botni. Svo lá leiðin á fyrsta teig. Strax í fyrsta höggi var eins og einhver annar kylfingur hefði ákveðið að spila sjálfan hringinn. Einhver annar en sá sem var búinn að fullkomna boltaflugið fyrir þennan dag. Boltinn fór engan veginn rétta leið og það var eins og góða tilfinningin fyrir golfleiknum hefði dottið úr pokanum á leiðinni frá æfingasvæðinu á fyrsta teig.

Þetta er eitthvað sem margir kylfingar upplifa og hafa oft fá svör við. Í flestöllum íþróttagreinum fara æfingar og keppni fram á sama svæðinu eða í mjög svipuðu stöðluðu umhverfi. Sundfólk æfir og keppir í sundlaug, knattspyrnufólk á knattspyrnuvelli, skautafólk á skautasvelli – en kylfingar, að öllu jöfnu, æfa sig á æfingasvæðinu og keppa svo á golfvellinum. Ef ekki er vandað til æfinga og skipulags, þá getur þetta auðveldlega leitt til þess að kylfingur verður einstaklega góður í að slá boltann á æfingasvæðinu, en skilur svo lítið í því hvers vegna það skilar sér ekki á vellinum.

Sterkur vani sem dugir vel undir pressu verður til með öflugu vanaferli. Skipulagt vanaferli við æfingar hjálpar til við að færa leikinn frá æfingasvæðinu og út á golfvöll.

Ástæðan er sú að allt of oft er vanaferlið við æfingar gerólíkt því hvernig kylfingurinn spilar leikinn á golfvellinum. Hlutverk æfinga er að byggja upp vana til þess að geta spilað frjálst og áhyggjulaust þegar út á völl er komið, hvort sem það er fyrir fyrsta teighögg í móti eða síðasta púttið fyrir sigri. Þessi vani verður ekki til sjálfkrafa. Sterkur vani sem dugir vel undir pressu verður til með öflugu vanaferli. Skipulagt vanaferli við æfingar hjálpar til við að færa leikinn frá æfingasvæðinu og út á golfvöll. Sér til þess að við týnum ekki sveiflunni á milli æfingasvæðis og fyrsta teigs.

Öflugt vanaferli mikilvægt

Í lok síðasta árs voru birtar niðurstöður rannsóknar á vegum evrópsku mótaraðarinnar og háskólans í Birmingham á Englandi sem leiddu í ljós mikilvægi öflugs vanaferlis fyrir árangur í golfi. Niðurstöður sýndu að vel æft og öflugt vanaferli með styttri tíma yfir boltanum og færri upplit í átt að flaggstöng geti stuðlað að því að kylfingur endi oftar fyrir ofan niðurskurðarlínuna og geti unnið sér inn töluvert hærri tekjur. Með öðrum orðum, þeir kylfingar sem gátu sýnt fram á betur æft og skipulagt vanaferli á golfvellinum spiluðu á lægra skori.

Með öðrum orðum, þeir kylfingar sem gátu sýnt fram á betur æft og skipulagt vanaferli á golfvellinum spiluðu á lægra skori.

Til þess að byggja upp öflugt vanaferli er mikilvægt að skipuleggja æfingar vel og æfa kerfisbundið. Fyrrum þjálfari Anniku Sörenstam, Pia Nilsson, og Lynn Marriott reka saman golfskólann Vision54 í Arizona í Bandaríkjunum og þjálfa marga af bestu karl- og kvenkylfingum heims. Þær hafa meðal annars skrifað bækurnar Every Shot Must Have a Purpose og Be a Player sem kom út í fyrra. Í þessum bókum fara þær yfir kerfi til þess að æfa vanaferlið og þar með stuðla að því að kylfingar geti betur fært leikinn frá æfingasvæðinu og á golfvöllinn.

Ferlið hefst þegar þú ert að búa þig undir að slá. Fyrir aftan boltann ertu í hugsanasvæðinu (e. Think Box). Á þessum stað í ferlinu er tækifæri til að fara yfir þá þætti sem þarf að hafa í huga áður en boltinn er sleginn. Kylfingur kannar fjarlægð frá holu, hvaða kylfu skal velja, hvert á að miða, hvernig boltaflugið á að líta út, sér það fyrir sér, o.s.frv. Í raun á öll meðvituð hugsun að fara fram á þessum tímapunkti. Þegar ákvörðun um höggið hefur verið tekin er gott að ímynda sér línu sem stigið er yfir á leið að boltanum. Við æfingar er gott að notast við aukakylfu úr pokanum eða æfingastöng (e. Alignment Stick). Þessi lína kallast ákvörðunarlínan (e. Decision Line) því að um leið og stigið er yfir línuna er búið að ákveða hvernig höggið skal slegið og því engin þörf á að hugsað frekar um það. Þetta er mjög mikilvægt skref í ferlinu því hugsanir yfir boltanum trufla einbeitinguna og koma í veg fyrir að vel æfða sveiflan fái að njóta sín. Ef þú verður óviss eða verður fyrir truflun, þá er alltaf hægt að stíga aftur til baka yfir í hugsanasvæðið og taka nýja ákvörðun (eða staðfesta fyrri ákvörðun) um hvernig boltinn skal sleginn.

Fjórar til sjö sekúndur

Þegar kylfingur er kominn yfir ákvörðunarlínuna er hann kominn inn í leiksvæðið (e. Play Box). Tíminn í leiksvæðinu skal vera stuttur og notaður að mestu til að slá boltann. Hæfilegur tími yfir boltanum þangað til hann er sleginn er fjórar til sjö sekúndur. Það er sá tími sem kylfingur getur best haldið fullri einbeitingu og margir af bestu kylfingum heims eru mjög stöðugir þegar kemur að þessum þætti vanaferlisins. Taktu ákvörðun um hversu oft þú ætlar að líta upp í átt að holunni og ef þú þarft eitthvað til að hugsa um, haltu þig við hugsanir um jafnvægi og takt í sveiflunni frekar en tæknilegar hugsanir. Æfðu þig í að stíga inn í leiksvæðið og slá boltann án þess að hugsa frekar um það. Í hugsanasvæðinu varstu að undirbúa hugann, þú tókst ákvörðun byggða á reynslu og þekkingu og þá er ekkert eftir nema að slá boltann. Þetta ferli þarf að æfa.

Tíminn í leiksvæðinu skal vera stuttur og notaður að mestu til að slá boltann. Hæfilegur tími yfir boltanum þangað til hann er sleginn er fjórar til sjö sekúndur

Eftir að boltinn hefur verið sleginn þá er kylfingur kominn í minningasvæðið (e. Memory Box). Hér er markmiðið að læra af hverju höggi af hverju boltinn fór þangað sem hann fór og leggja á minnið þau högg sem þú vilt helst muna eftir. Það er ekki mikið gagn í að svara hvort höggið var „gott“ eða „lélegt“. Í stað þess að fara í huglægt mat á hvað þér finnist vera ásættanlegt högg, svaraðu fljótlega þessari spurningu: „Hvert fór boltinn og af hverju fór hann þangað?“ Eftir að svarið við spurningunni er kannski þrisvar sinnum það sama: „Boltinn fór vinstra megin við holuna af því að ég miðaði of mikið vinstra megin“, þá er komin ástæða til að huga að miðinu. Með því að venja þig á þetta ferli ferðu að auka líkurnar á því að boltinn fari þangað sem þú ætlar honum að fara.

Með því að æfa þetta ferli frá hugsanasvæðinu yfir ákvörðunarlínuna í leiksvæðið og svo minningasvæðið byggir þú upp sterkan vana sem hjálpar við að fækka höggunum út á velli. Við viljum ekki heyra um fleiri sem týndu sveiflunni á milli æfingasvæðis og fyrsta teigs.

Tómas Freyr Aðalsteinsson. 

cccc

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ