Ný og glæsileg íþróttamiðstöð Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar var opnuð með formlegum hætti í dag. Mikið fjölmenni mætti til þess að skoða nýja mannvirkið sem er á tveimur hæðum og mátti heyra á gestum að ný viðmið hefðu nú verið sett í aðstöðu fyrir golfklúbba landsins.
Framkvæmdir við nýju íþróttamiðstöðina hófust fyrir rétt rúmlega ári síðan. Íþróttamiðstöðin, sem er 1400 fermetrar var reist á þeim stað þar sem gamla félagsaðstaða GKG var til staðar. Það húsnæði var fyrir löngu sprungið en þar var um að ræða gamlan söluskála sem var áður á Selfossi en var keyptur af GKG vorið 1990.
Um 1300 félagsmenn eru í GKG og fram kom í máli bæjarstjóra Kópavogs og Garðabæjar að öflugt barna – unglingastarf GKG væri hryggjarstykki í starfi félagsins.
Á efri hæðinni er glæsilegur veitingasalur, skrifstofur starfsmanna, verslun og móttaka. Á neðri hæðinni er fullkomin æfinga – og kennsluaðstaða og er þar að finna m.a. búningsaðstöðu, Trackman svæði þar sem fjögur slík tæki eru til staðar, stóra púttflöt og aðstöðu fyrir aðrar æfingar sem tengjast golfíþróttinni.
Það var byggingarverktakinn GG Verk sem sá um framkvæmdirnar og stóðust allar áætlanir sem settar voru upp, hvað varðar tíma og fjármagn. Kostnaðaráætlun við heildarverkið er 660 milljónir og greiðir Kópavogur, Garðabær og GKG sinn hvorn sinn þriðjunginn.
Fjölmargir tóku til máls í dag þegar íþróttamiðstöðin var tekin í notkun.
Guðmundur Oddsson fyrrum formaður GKG fór nokkuð ítarlega yfir söguna á bak við nýju íþróttamiðstöðina. Finnur Sveinbjörnsson, formaður klúbbsins, tók einnig til máls og fagnaði með eftirminnilegum hætti þessum tímamótum. Illugi Gunnarsson, Mennta – og menningarmálaráðherra, flutti ávarp og vígði með glæsibrag píanó sem félagsmenn söfnuðu fyrir og verður til staðar í íþróttamiðstöðinni. Verkið sem Illugi flutti var frumsamið og svo var að heyra að hann hefði ekki slegið feilnótu.
Ármann Kristinn Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, fluttu skemmtileg ávörp þar sem þeir rifjuðu upp golfsögur og reynslu sína af golfíþróttinni.
Hreimur Örn Heimisson, félagsmaður í GKG, og tónlistamaður, braut upp dagskrána með tónlistarflutningi og var vel tekið undir þegar hann söng Að ferðalokum og Lífið er yndislegt.
Lárus Blöndal, forseti Íþrótta – og ólympíusambands Íslands, færði GKG gjafir frá ÍSÍ. Hann afhenti einnig GKG viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ til næstu fjögurra ára en Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ var einnig viðstödd athöfnina.
Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands, færði GKG gjafir og flutti góðar kveðjur frá GSÍ.
Ungir kylfingar úr röðum GKG klipptu á borða með formlegum hætti undir lok athafnarinnar og fengu þar með tækifæri til þess að prófa nýju æfingaaðstöðuna fyrstir allra. Eins og áður segir var mikið fjölmenni viðstatt í dag þegar íþróttamiðstöðina var opnuð og eru spennandi tímar framundan hjá GKG sem stofnaður var árið 1994.
Golfsamband Íslands sendir félagsmönnum, starfsfólki GKG og íbúum Kópavogs og Garðabæjar bestu hamingjuóskir með nýja mannvirkið.