Haraldur Franklín Magnús á teig í Suður-Afríku. Mynd/IGTTour
Auglýsing

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, náði frábærum árangri á atvinnumóti í Suður-Afríku sem lauk í dag í Jóhannesarborg.

Haraldur Franklín lék hringina þrjá á 203 höggum eða 13 höggum undir pari (67-67-69) og var hann aðeins höggi á eftir sigurvegaranum Ricky Hendler frá Suður-Afríku.

Mótið fór fram á Modderfontein vellinum og er hluti af IGT mótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Suður-Afríku – á eftir hinni þekktu Sunshine-mótaröð sem hefur alið af sér fjölmarga atvinnukylfinga sem hafa náð langt á heimsvísu.

Lokastaða mótsins er hér:

„Ég ákvað að taka þátt á þessu móti og sjá hvar ég er staddur eftir „vetrardvala“ Íslandi fyrir fyrstu mótin á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour sem fara fram hér í Suður-Afríku. Mér leið eins og belju að vori á þessu móti en það var svekkjandi að ná ekki að landa sigrinum – en svona er þetta. Þessi golfvöllur er frábær en það tók smá tíma að átta sig á aðstæðum þar sem að Jóhannesarborg er í 2000 metra hæð yfir sjávarmáli og boltinn fer því mun lengra en maður á að venjast,“ segir Haraldur Franklín en félagi hans úr háskólagolfinu í Bandaríkjunum tók þátt á þessu móti ásamt sameiginlegum vini þeirra frá Frakklandi.

„Það er gott að hafa einhvern félagsskap hér úti en þeir ætla að keppa á fleiri mótum á þessari mótaröð en ég fer í æfingatörn á keppnisvöllunum sem verða notaðir á fyrstu mótin á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour. Það eru tvær vikur í fyrsta mótið og ég ætla að nýta tímann vel til að spila æfingahringi á keppnisvöllunum og hita upp fyrir þau mót.

Fyrsta mótið á keppnistímabilinu á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, fer fram dagana 10.-13. febrúar á Fancourt vellinum, í vikunni þar á eftir 17.-20. febrúar verður keppt á Royal Cape vellinum í Höfðaborg og þriðja mótið fer fram á Durban Country Club í samnefndri borg dagana 24.-27. febrúar.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ