Golfsamband Íslands

Haraldur, Aron og Axel eru allir úr leik á úrtökumótinu

Íslensku kylfingarnir þrír sem reyndu fyrir sér á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina eru allir úr leik.

Axel Bóasson úr GK og Aron Snær Júlíusson úr GKG léku á El Saler vellinum rétt við Valencia. Haraldur Franklín Magnús úr GR keppti á Desert Springs vellinum í Almería.

Fjöldi keppenda sem komast áfram af hverjum velli fyrir sig:
El Saler – 21
Panoramica – 21
Las Colinas – 21
Desert Springs – 22

Haraldur Franklín lék á -6 samtals (70-71-70-71) en það dugði ekki til og var hann tveimur höggum frá því að komast áfram.  Axel Bóasson lék á +10 samtals og var töluvert frá því að komast áfram líkt og Aron Snær Júlíusson sem lék á +19 samtals.

Staðan á Desert Springs: 

Staðan á El Saler 

Axel og Haraldur Franklín fóru beint inn á 2. stigið vegna góðs árangurs þeirra á Nordic Tour atvinnumótaröðinni. Þetta er í annað sinn sem þeir Axel og Haraldur taka þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Þeir komust báðir inn á 2. stigi í fyrra en náðu ekki að komast inn á sjálft lokaúrtökumótið.

Aron Snær fór í gegnum 1. stig úrtökumótsins með frábærri spilamennsku á á Fleesense vellinum í Þýskalandi. Hann lék hringina fjóra á 282 höggum (69-70-73-70) sex höggum undir pari.

Alls eru 8 kylfingar frá Íslandi sem taka þátt á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina á þessu ári. Það er metjöfnun en alls voru 8 keppendur í fyrra frá Íslandi.

Metþátttaka var á 1. stigi úrtökumótsins 2017 fyrir Evrópumótaröðina en úrtökumótið fór fram í fyrsta sinn fyrir 41 ári.

Í fyrsta sinn voru fleiri en 800 keppendur á 1. stiginu en alls voru þeir 838 sem reyndu fyrir sér. Keppt var á átta keppnisvöllum og voru keppendurnir frá 45 þjóðum. Af þessum 838 komust 176 inn á 2. stig úrtökumótsins. Forráðamenn Evrópumótaraðarinnar gera sér vonir um að í fyrsta sinn í sögunni verði heildarkeppendafjöldinn á úrtökumótinu yfir 1000.

Árið 2015 var sett met þegar 778 keppendur reyndu fyrir sér á 1. stigi úrtökumótsins.

Exit mobile version