/

Deildu:

Auglýsing

Eitt best geymda leyndarmál Evrópu?

„Hver er þekktasti kylfingur Grikklands? Þessari spurningu velti ég fyrir mér í haust á leið minni til Costa Navarino. Í fljótu bragði mundi ég ekki eftir neinum og það er kannski ekki skrítið. Golfíþróttin hefur ekki náð mikilli útbreiðslu í þessu sögufræga landi. Aðeins fimm golfvellir eru til staðar í Grikklandi, landi sem telur 11 milljón íbúa. Tveir af þessum völlum eru á vesturströnd Grikklands við Costa Navarino.

Greinin birtist í 5. tbl. Golf á Íslandi 2018. 

Í stuttu máli sagt get ég fullyrt að Costa Navarino golfsvæðið er eitt best geymda leyndarmál Evrópu. Ferðaskrifstofan Icegolf á Íslandi býður upp á skipulagðar ferðir til Grikklands á Costa Navarino.

Á Costa Navarino eru tveir golfvellir og á næstu árum verða tveir vellir til viðbótar í boði fyrir gesti. Golfvellirnir eru í hæsta gæðaflokki og umhirða vallanna er eins og best verður á kosið. Stór nöfn í golfveröldinni komu að uppbyggingu vallanna, þeir Bernhard Langer og Robert Trent Jones II.

Dunes-völlurinn

Dunes-völlurinn er fyrsti golfvöllurinn í Grikklandi sem er hannaður af þekktum golfvallahönnuði. Það var enginn annar en Þjóðverjinn Bernhard Langer sem var fenginn í verkefnið. Tvöfaldur sigurvegari á Masters-mótinu og fyrrum fyrirliði Ryder-liðs Evrópu. Einn sigursælasti kylfingur síðari ára og Langer er enn að láta til sín taka í keppnisgolfinu.

Dunes er alvöru keppnisvöllur. Það leynir sér ekki. Samt sem áður er hann hannaður þannig að kylfingar á öllum getustigum geta skemmt sér vel á þessum frábæra velli.

Dunes-völlurinn er í göngufjarlægð frá fimm stjörnu hótelunum The Romanos og The Westin sem eru skrautfjaðrir Costa Navarino svæðisins.

Fjölbreyttar áskoranir eru á Dunes og á mörgu brautum fær kylfingurinn þá upplifun að hann sé að leika á strandvelli á Bretlandseyjum. Landslagið er mjög fjölbreytt á Dunes og Langer nýtir það til hins ítrasta. Oft með eftirminnilegum hætti.

Gestir á Dunes-vellinum upplifa nokkuð mikið frelsi þegar þeir standa yfir teighöggunum á par 4 og par 5 holunum. Brautirnar eru breiðar og flatirnar eru stórar. Það er hægt að taka áhættu en hætturnar leynast víða ef boltinn lendir ekki á réttum stað.

Margar brautir á Dunes-vellinum standa upp úr í minningunni þegar golfhringnum er lokið. Teighöggið á 2. braut er einn af hápunktunum þar sem slegið er í átt að Navarino-flóanum. Á flötinni rífa nánast allir upp símann eða myndavélina til að taka mynd af stórkostlegu útsýni og bakgrunni sem er einstakur.

Á 6. teig gerist það sama og á 2. flöt. Flestir festa það augnablik með myndatöku. Frábær golfhola þar sem hægt er að slá inn á flötina í upphafshögginu af rúmlega 230 metra færi. Mikill hæðarmunur er á teignum og flötinni á 6. braut og gott upphafshögg gefur góðan möguleika á fugli og jafnvel erni.

Það er ekki auðvelt að velja uppáhaldsholur á Dunes-vellinum. Þær eru einfaldlega of margar til þess. Langer bjó einfaldlega til golfvöll sem fær hæstu einkunn. Lokaholurnar þrjár eru vel heppnaðar. Allt holur sem verðlauna fyrir góð högg.

Bay-völlurinn

Bay-völlurinn var opnaður í október árið 2011 og einn þekktasti golfvallahönnuður veraldar, Robert Trent Jones II, sá um verkefnið. Nýtt klúbbhús er í byggingu á þessu svæði og þegar því verður lokið verður vandfundinn sá staður í veröldinni sem býður upp á betra útsýni.

Bay-völlurinn er í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá hótelinu. Ferðalagið er þægilegt og gestum er skutlað fram og til baka með reglulegu millibili.

Mín upplifun af Bay-vellinum er að þessi völlur er skemmtileg áskorun. Helsta einkenni vallarins er að þar er að finna alls sjö par 3 holur. Fjölbreyttar holur og krefjandi völlur fyrir kylfinga á öllum getustigum. Þar sem fjöldi par 3 hola er yfir meðaltali er par vallarins 70.

Útsýnið á Bay-vellinum er gríðarlega fallegt og auðvelt er að gleyma sér á golfhringnum við það eitt að horfa á fegurðina sem blasir við.

Tvær holur vallarins eru nánast í í fjöruborðinu við hinn sögufræga Navarino-flóa og strandbærinn Pylos blasir t.d. við fyrir aftan fjórðu flötina

Robert Trent Jones II lagði áherslu á að leggja golfbrautirnar inn í það landslag sem er til staðar. Útkoman er stórskemmtileg, áhugaverðar golfbrautir út um allt og margar þeirra mjög eftirminnilegar.

Bay-völlurinn er einnig með nokkrar brautir sem liggja upp og niður stórkostleg gil sem eru í landslaginu. Lokakaflinn á fyrri 9 holunum er skemmtilegur að mínu mati með tvær par 5 holur í röð. Sú 9. býður upp í dans þar sem slegið er niður nokkuð bratta brekku. Þessi braut verðlaunar fyrir góð högg og byggir upp sjálfstraustið fyrir það sem koma skal. Ekki veitir af því 12. brautin getur reynst erfið viðureignar. Þar er slegið upp frekar mjótt gil þar sem hættur eru beggja vegna brautarinnar.

Lokakafli Bay-vallarins er vel hannaður. Á 15. teig gefst oft tími til að virða fyrir sér útsýnið yfir Navarino-flóann. Á þessum stað er besta útsýnið af vellinum. Holur 17 og 18 eru báðar mjög skemmtilegar og gera góðan golfvöll enn eftirminnilegri.

Frábær æfingasvæði

Það eru margir valkostir á Costa Navarino þegar kemur að því að bæta golfleikinn á æfingasvæðinu. Á báðum völlunum eru fyrsta flokks æfingasvæði – en það sem er á Dunes vellinum er meira notað enda nær hótelsvæðinu. Á Dunes-vellinum er einnig vel hannað og stórt svæði þar sem hægt er að æfa stutta spilið. Þar eru margar æfingaflatir og hægt að slá högg frá 150 metrum og niður.

Ekki bara golf

Eins og áður segir eru tvö fimm stjörnu hótel á Costa Navarino, The Romanos og The Westin. Öll aðstaða og aðbúnaður er í hæsta gæðaflokki. Frábært morgunverðarhlaðborð er í boði alla daga. Þjónustustig starfsfólks á hóteli og á golfvöllunum er framúrskarandi. Á hótelsvæðinu eru fjölmargir spennandi veitingastaðir og úrvalið er fjölbreytt. Stemningin er líkt og gestir séu staddir í litlum og huggulegum grískum smábæ. Þarna er allt til alls. Kaffihús, apótek og ýmsar verslanir ásamt fjölda frábærra veitingastaða.

Lúxusgisting

Gestir á Costa Navarino geta gengið að gæðunum vísum hvað varðar gistingu og aðbúnað. Herbergin eru björt, vel hönnuð og vel fer um gesti í rúmgóðum vistarverum. Mikið er lagt í smáatriðin og allt er fyrsta flokks. Hótelið er byggt upp þannig að gestir ganga utan dyra á leið sinni á milli staða. Það gerir upplifunina enn áhugaverðari.

Gríðarlega margt er í boði fyrir gesti fyrir utan golfið. Falleg strandlengja liggur meðfram hótelunum. Það svæði er aðeins fyrir gesti og mikið rými fyrir hvern og einn.

Sundlaugagarðar eru víðsvegar um svæðið og allir ættu að geta fundið eitthvað sem hentar til að slaka á.

Líkamsræktarsalirnir eru með því betra sem sá sem þetta skrifar hefur upplifað á hóteli. Þar fyrir utan geta gestir brugðið sér í íþróttahús sem er á svæðinu og leikið sér þar að vild. Skemmtilegur rennibrautagarður er við íþróttahúsið þar sem yngri kynslóðin getur fundið sér margt að gera. Hjólaleiga er á hótelinu og það er góður kostur að fara í hjólreiðatúra og skoða sig um.

Bílaleiga er á hótelinu. Margt er hægt að skoða í næsta nágrenni fyrir þá sem hafa áhuga á því. Má þar nefna að hin sögufræga borg Olympia er í um 1,5 klst akstursfjarlægð frá Costa Navarino. Um 800.000 gestir fara árlega inn í borgina til að skoða fornminjar frá því þegar Ólympíuleikarnir fóru fram til forna á þessum stað. Einnig er hægt að aka skemmtilega leið meðfram strandlengjunni í suður og austur frá Costa Navarino.

Hvernig er veðrið?

Veðursældin er mikil á Costa Navarino – líkt og á mörgum öðrum stöðum við Miðjarðarhafið. Meðalhitinn í mars–apríl er um 20 gráður og yfir sumartímann fer hitinn nálægt 30 gráðunum. Á haustin fer hitastigið hægt niður á við og er í kringum 23–25 gráður – sem er hið fullkomna veður fyrir kylfinga á þessu svæði. Rigningartímabilið er í desember en aðrir mánuðir ársins eru þekktir fyrir að vera þurrir, hlýir og mildir.

Hvernig kemstu til Costa Navarino?

Það er ekki beint flug frá Íslandi til Kalamata flugvallarins á Grikklandi. Ýmsir möguleikar eru á flugi frá meginlandi Evrópu eða Norðurlöndunum til Kalamata. Í skipulögðum ferðum frá Íslandi hjá Icegolf er því millilent áður en komið er á áfangastað. Stutt stopp er í Stokkhólmi en allur farangurinn er innritaður alla leið sem gerir þetta mjög þægilegt. Þó þetta séu tvö flug þá fennir fljótt yfir þá minningu þegar komið er á áfangastaðinn.

Eins og áður segir er lent á Kalamata „Vassilis“ flugvellinum, sem er nefndur eftir skipstjóranum Vassilis Constantakopoulos. Hann er aðalmaðurinn á bak við uppbygginguna á Costa Navarino golfvallasvæðinu. Til að setja hlutina í samhengi þá hefur orðið gríðarleg aukning á heimsóknum ferðamanna á þetta svæði eftir að Costa Navarino opnaði. Frá árinu 2009 hefur flugumferð um Kalamata flugvöllinn aukist um rúmlega 410%.

Hver var „Vassilis kapteinn “?

Sá sem kom Costa Navarino verkefninu á laggirnar heitir Vassilis Constantakopoulos. Hann fæddist árið 1935 í bænum Diavolitsi í Messinia. Vassilis kapteinn, eins og hann var ávallt kallaður, fór ungur á sjó. Hann stofnaði síðar skipaflutningafyrirtækið Costamare Shippings. Það fyrirtæki varð síðar eitt það stærsta í veröldinni og Vassilis kapteinn varð einn auðugasti maður Grikklands. Viðskiptaveldi Vassilis kapteins var gríðarstórt þegar hann féll frá árið 2011. Hann hafði á þeim tíma keypt ýmis fyrirtæki í námuiðnaði svo eitthvað sé nefnt. Synir hans stjórna viðskiptaveldinu í dag. Costa Navarino svæðið er hjartað í ferðamannaiðnaði fjölskyldunnar. Vassilis kapteinn vildi byggja upp ferðamannaparadís í Messinia – eitthvað sem gæti lyft atvinnustiginu á hærra stig á heimaslóðum. Óhætt er að segja að verkefnið hafi tekist vel. Ferðamannastraumurinn er mikill á þetta einstaka svæði.

Umhverfisvænt langtímaverkefni

Það tók um 10 ár fyrir Vassilis kaptein að sannfæra bændur og landeigendur um að Costa Navarino verkefnið yrði vítamínsprauta fyrir samfélagið. Alls keypti hann 1.200 jarðir við strandlengjuna á þessu 10 árum. Og sagan segir að Vassilis hafi rætt persónulega við hvern og einn. Umhverfismál voru Vassilis ávallt hugleikin. Flestir landeigendur ræktuðu ólífur á jörðum sínum. Vassilis sannfærði þá um að trén yrðu ekki felld, hann setti í gang risavaxið verkefni að færa ólífutrén frá golfvallasvæðunum og planta þeim niður á öðrum stöðum.

Alls voru 6.500 ólífutré flutt. Það verkefni er eitt það stærsta í sögu Evrópu og á enn eftir að stækka. Fyrirhugað er að byggja 2 golfvelli til viðbótar á þessu svæði og alls verður búið að flytja 16.000 ólífutré þegar því verkefni lýkur.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar:
seth@golf.is

 

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ