/

Deildu:

Golfklúbbur Akureyrar / Auðunn Níelsson
Auglýsing

Á að breyta tímareikningi á Íslandi? Til skoðunar er hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins. Fjallað er um málið í greinargerð sem forsætisráðuneytið birtir til umsagnar.

Greinargerðin var unnin í forsætisráðuneytinu og í henni er skoðað hvort færa eigi staðartíma nær sólartíma miðað við hnattræna legu landsins.

Golfsamband Íslands hefur sent inn eftirfarandi umsögn um málið í gegnum Samráðsgáttina.



Umsögn Golfsambands Íslands um tillögur 
að breyttum staðartíma á Íslandi

Golfsamband Íslands er í forsvari fyrir golfhreyfinguna á Íslandi. Golfhreyfingin samanstendur af 65 golflúbbum víðsvegar um landið og eru skráðir félagar í hreyfingunni rúmlega 17.000 talsins. Það gerir Golfsamband Íslands að næst stærsta sérsambandi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Golfsambandið leggst, að hluta til, gegn þeim breytingum sem lagðar eru til í fyrirliggjandi tillögum og vill golfsambandið koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við ráðuneytið af þessu tilefni.

Komi til þess að klukkunni verði seinkað um eina klukkustund mun það hafa gríðarleg áhrif á nýtingu íþróttamannvirkja yfir sumarmánuðina og skerða möguleika fólks til að leika golf eða stunda aðrar íþróttir úti við, sem og aðra útiveru. Þegar líða tekur á sumarið mun dagurinn styttast um eina klukkustund í kjölfar þess að sólin sest fyrr. Óhjákvæmilega mun þetta fela í sér mikið tekjutap fyrir golfklúbba vegna samdráttar í sölu vallargjalda. Í raun mætti tala um verulega skertan rekstrargrundvöll þeirra.

Á Íslandi er sumarið stutt og sérstaða þess er langur sólargangur. Kylfingar á Íslandi hafa nýtt sér þessa sérstöðu með þeim hætti að á þeim golfvöllum sem eru hvað vinsælastir, er heildarfjöldi spilaðra hringja yfir sumartímann sá sami og á ársgrundvelli á golfvöllum sunnar í Evrópu, sem opnir eru allan ársins hring. Hér á landi eru golfvelli aftur á móti opnir að hámarki fimm til sex mánuði á ári. Það má því segja að áhugafólk um golf nýti sumartímann mjög vel, með því að leika golf langt fram eftir kvöldi. Þessi sérstaða er örugglega ein af þeim ástæðum sem skýra miklar vinsældir golfíþróttarinnar á Íslandi og er fjöldi kylfinga miðað við höfðatölu sá mesti sem þekkist í heiminum.

Gríðarleg fjölgun hefur átt sér stað innan golfhreyfingarinnar undanfarinn áratug og af þeim sökum hefur golfvöllum fjölgað jafnt og þétt um land allt. Óhætt er að fullyrða að þessir golfvellir eru nýttir frá morgni til kvölds, alla daga vikunnar. Algengt er að golfvellir séu jafnvel fullnýttir eftir miðnætti yfir hásumarið.

Ef seinkun klukkunnar yrði að veruleika með þeim hætti sem lagt er til, skerðast verulega möguleikar kylfinga og annars íþróttafólks til að stunda íþróttir síðdegis og fram á kvöld, þ.e. eftir vinnu, og mun nýting íþróttamannvikja því dragast saman. Sá tími sem tapast á kvöldin mun ekki vinnast upp á morgnana, þar sem ólíklegt verður að telja að íþróttaástundun hefjist klukkustund fyrr á morgnana. Þá er veðurfar með þeim hætti hér á landi að síðdegis lægir og því oft bestu skilyrðin til að njóta útveru síðdegis og fram eftir kvöldi. Þá er ljóst að íþróttakappleikir, sem fara fram á kvöldin, yrðu að styðjast við flóðlýsingu með tilheyrandi kostnaði.

Mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir Ísland þarf ekki að tíunda, en fjöldi erlendra kylfinga heimsækir nú Ísland á hverju sumri og fyrirséð að þeim eigi einungis eftir að fjölga. Fyrir þessa kylfinga er sérstaða Íslands, kvöldbirtan og miðnætursólin, mikilvægur þáttur í upplifun þeirra hér á landi. Þessi sérstaða tapast að verulegu leyti ef klukkunni verður seinkað. Íslenskir golfklúbbar og ýmsir ferðaþjónustuaðilar hafa undanfarinn áratug ráðist í töluverðar fjárfestingar í tengslum við kvöld- og miðnæturgolf á Íslandi. Hugmyndin að baki „miðnæturgolfi“ hefur því verið auglýst rækilega víðs vegar um heim. Ljóst er að möguleikar á miðnæturgolfi skerðast verulega með fyrirhugaðri breytingu þar sem ekki verður hægt að njóta kvöldsólarinnar jafnlengi þegar líða tekur á sumarið.

Víða um heim er greint á milli sumar- og vetrartíma og getur Golfsamband Íslands tekið undir þau rök að huga megi að seinkun klukkunnar yfir vetrartímann líkt og gert er í mörgum löndum. Slík breyting hefði ekki jafnmikil áhrif á íþróttaiðkun og útiveru. Það er hins vegar mikið hagsmunamál fyrir golfhreyfinguna að engin breyting verði gerð á klukkunni yfir sumartímann og leggst sambandið því alfarið gegn slíkri breytingu. Þá verður ekki séð að þær röksemdir fyrir breytingunni, sem raktar eru í greinargerð ráðuneytisins, eigi að jafn miklu leyti við um sumartímann eins og vetrartímann. Má jafnvel segja að engin almenn þörf sé á því að gera breytingu á klukkunni yfir sumartímann.

Sé frekari upplýsinga óskað mun Golfsamband Ísland verða við slíkum óskum við fyrsta tækifæri.

Reykjavík, 6. mars 2019

Virðingarfyllst,
Haukur Örn Birgisson
Forseti Golfsambands Íslands

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ