/

Deildu:

Helgi Örn Viggósson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

GR-ingurinn Helgi Örn Viggósson fékk í dag viðurkenningu á þingi Golfsambands Íslands sem sjálfboðaliði ársins 2019.

Þessi viðurkenning var veitt í fyrsta sinn árið 2014 og er Helgi Örn því sjötti einstaklingurinn sem fær sæmdarheitið sjálfboðaliði ársins í golfhreyfingunni.


Helgi hefur lengi verið félagi í Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann hefur verið félagið í GR frá árinu 1974, þá var hann á 14. ári.

Helgi Örn bjó í Árbænum og það þótti á þeim tíma ekkert tiltökumál að ganga úr Árbænum yfir í Grafarholtið.

Á þessum árum var það líka hluti af því að vera í klúbbnum að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi. Helgi tók þátt í því eins og aðrir, við gróðursetningu trjáa, grjóthreinsun og annað sem til féll.

Helgi er liðtækur kylfingur og varð m.a. klúbbmeistari í unglingaflokki á sínum tíma.

Helgi þekkir mikilvægi sjálfboðastarfs frá fornu fari og lítur á það sem hluta af klúbbamenningu. Hann er boðinn og búinn til þess að hjálpa og var fljótur að bjóða sig fram þegar auglýst var eftir sjálfboðaliðum í tengslum við Íslandsmótið í golfi í sumar. Í stóru móti eins og Íslandsmótinu í golfi koma margir að starfinu, vallarstarfsmenn og aðrir starfsmenn golfklúbbsins og einnig fjölmargir sjálfboðaliðar, sem unnu gott starf við framkvæmd mótsins. Helgi var sá sjálfboðaliði sem starfaði mest við Íslandsmótið og reyndist GR drjúgur liðsauki.

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ og Helgi Örn Viggósson, sjálfboðaliði ársins.

Helgi er tölvunarfræðingur og starfar í tölvugeiranum. Það nýttist GR vel þegar kom að Íslandsmótinu enda var verið að prufukeyra nýjan hugbúnað í mótinu, Golfboxið, sem kemur til með að taka við af núverandi kerfi. Helgi var fljótur að setja sig inn í kerfið. Helgi sinnti eftirliti með skorskráningu keppenda í gegnum Golfbox forritið, en það er nýjung að kylfingar eða kylfusveinar sinni skorskráningu sjálfir. Hluti af þessu eftirliti var að fara út á völl og minna leikmenn á skráningar þar sem þurfti, eða koma skilaboðum um það til annara sjálfboðaliða. Auk þess tók hann að sér framvarðarstörf þess á milli. Helgi var mikilvægur hlekkur í því góða starfi sem sjálfboðaliðar unnu í mótinu.

Sjálfboðaliðar ársins frá upphafi:

2014: Guðríður Ebba Pálsdóttir, GB
2015: Viktor Elvar Viktorsson, GL
2016: Guðmundur E. Lárusson. GA
2017: Már Sveinbjörnsson, GK
2018: Reynir Pétursson, GÍ
2019: Helgi Örn Viggósson, GR

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ