/

Deildu:

Karl Þór Þórisson við slátt á Litlueyrarvelli á Bíldudal. Mynd/Þorgrímur Þráinsson
Auglýsing

Menn dóu ekki ráðalausir á Bíldudal í „den tid“, notuðu sláttuvél sem golfbíl og rækjunet sem golfpoka. Karl Þór Þórisson, einn af stofnendum klúbbsins, segir frá í spjalli við Þorgrím Þráinsson í Vestfjarðaheimsókn hans til Bíldudals fyrir Golf á Íslandi sumarið 2013.

Þú kaupir Bíldudalsgrænar baunir
Landa, vodka og engifer.
Lítur inn hjá Erlu og Óla
og ert varla með sjálfri þér.

Svona hljómaði lagið Bíldudalsgrænar baunir eftir Valgeir Guðjónsson sem hann söng inn á plötu sem Jolli og Kóla árið 1983, ef ég man rétt. Arnfirðingar voru snöggir að gera sér mat úr laginu og hefur fjölskylduhátíðin Bíldudals Grænar verið haldin á Bíldudal annað hvert ár um all-langt skeið. Þá koma brottfluttir til baka í heimabyggðina og er boðið upp á fjölbreytta dagskrá í tæpa fjóra daga. Hver garður er sneisafullur af tjöldum, bærinn málaður grænn og varla þverfótað fyrir glaðværu fólki.

Bíldudals Grænar var einmitt í fullum gangi þegar ég átti leið um fjörðinn í besta sumarveðrinu það sem af var ári, 30. júní 2013. Hátíðin hófst með golfmóti sem kallast Hamagangur á hóli og tóku 60 manns þátt.

Karl Þór Þórisson, einn af stofnendum golfklúbbs Bíldudals og formaður forgjafanefndar, fékk það hlutverk að svala fróðleiksfýsn undirritaðs. Karl Þór er Reykvíkingur, kvæntur til Bíldudals en áhuginn á golfi kviknaði þegar hann bjó í Hlíðunum.

Karl Þór ásamt góðum gestum og „fyrrum“ heimamönnum.
Karl Þór ásamt góðum gestum og „fyrrum“ heimamönnum.

„Í gamla daga var Golfklúbbur Reykjavíkur með völl þar sem Kringlan er núna og þar vorum við guttarnir að leika okkur. Við fundum iðulega golfbolta og fylgdumst með snillingunum slá. Áhugi okkar kviknaði og við fengum rafvirkja til að beygja járnrör fyrir okkur og fletja það út að neðanverðu. Þannig urðu til frumstæðar golfkylfur. Þegar enginn var á golfvellinum á kvöldin stálumst við til að slá boltana sem við höfðum fundið.

Þegar ég flutti til Bíldudals spiluðu tveir menn golf á svæðinu, Óskar heitinn Magnússon og tengdasonur hans. Við tókum höndum saman og slógum bolta frá balanum þar sem 9. holan er núna og inn eftir. Skömmu síðar var farið að slá bolta frá kirkjugarðinum í áttina að bænum og var kirkjugarðurinn fyrsta „klúbbhúsið“ okkar, ef svo má að orði komast. Þannig spiluðum við þrjár holur fram og til baka upp við vatnið.“

Karl segir að Pétur Bjarnason, fræðslustjóri á Ísafirði og fyrrum skólastjóri á Bíldudal hafi stungið upp á því að ofangreindir félagar stofnuðu golfklúbb. Þeir tóku hann á orðinu og stofndagurinn var 9. ágúst 1992.

„Ári síðar keyptum við grínvél en höfðum ekki hugmynd um hvernig hún virkaði,“ segir Karl. „Við slógum heilt grín án þess að taka hjólin undan vélinni og héldum hreinlega að við hefðum keypt vitlausa vél. Einhver vitringurinn stakk þá upp á því að taka hjólin undan og þá virkaði vélin sem skyldi. Þessi grínvél er enn í notkun.“

Karl Þór og Ágúst Sörlason heitinn, einn af stofnendum klúbbsins, lögðu til við sveitastjórann á sínum tíma að kaupa gamalt hús á besta stað og byggja golfvöllinn í kringum það, jafnvel þótt húsið væri í niðurníðslu.

„Einn bjó sér til kylfupoka úr þéttriðnu rækjuneti og notaði harðan hring sem botn. Sjálfur keypti ég 4 tommu skolprör í réttri lengd og notaði sem poka. Kerrurnar komu hingað löngu síðar og enginn á svæðinu á enn rafmagnskerru.“

„Sveitastjórnin seldi okkur húsið og töluvert meira. Eftir tvo, þrjá mánuði fékk ég bréf frá sýslumanninum á Ísafirði sem spurði hvort ég ætlaði ekki að fara að gera skil á þessu skuldabréfi sem við höfðum ekki greitt af. Ég kannaðist ekki við að skulda neinum neitt. Þá kom í ljós að sveitastjórinn, sýslumaðurinn og bankastjórinn höfðu gert þau mistök að selja okkur líka vatnsveituna og allt sem henni fylgdi. Og á henni hvíldu litlar 2-3 milljónir. Þessir öðlingar fóru góðfúslega fram á það að við skiluðum vatnsveitunni. Við gerðum það nánast möglunarlaust þótt hún hefði líklega getað gert okkur að fjársterkasta golfklúbbi landsins.“

Völlurinn á Bíldudal er rúmir tveir kílómetrar og fyrir neðan hann er hinn frægi Völuvöllur þar sem Vala Flosadóttir stangastökkvari lagði grunninn að bronsverðlaunum sínum á Ólympíuleikunum árið 2000.

„Við tókum snemma þá ákvörðun að hafa völlinn stuttan í stað þess að láta okkur dreyma um 18 holu völl. Það er dýrt að reka golfvöll og við viljum frekar hafa hann frábæran en langan. Við erum ekki með starfsmann en ungur strákur, sem slær fyrir Vesturbyggð, slær grínin okkar þrisvar í viku og svo kemur annar og slær brautirnar eftir vinnu. Röffin tek ég í mínum frítíma.“

Karl Þór segir að á síðustu vikum hafi um 10-15 manns gengið í golfklúbbinn en fyrir voru um 30 meðlimir. „Við erum með kvöldmót tvisvar í viku og það freistar fólks. Sumir vilja getað sameinað góðan göngutúr og slegið nokkra bolta í leiðinni.“

Árrisulir gestir á Bíldudals Grænum pútta á 9. flöt í blíðu sumarið 2013.
Árrisulir gestir á Bíldudals Grænum pútta á 9. flöt í blíðu sumarið 2013. Mynd/Þorgrímur Þráinsson

Hafa ekki einhverjir gamlir refir sett svip sinn á völlinn?
„Flestir skrautlegustu og skemmtilegustu karakterarnir eru fallnir frá. Hér skammt frá bjó gamall bóndi sem vildi að rollurnar hans fengju að ráfa óáreittar um landið. Við settum þá upp girðingar en bóndinn mótmælti annað slagið með því að leggja bílnum yfir eitt grínið hjá okkur.

Einn af stofnendum klúbbsins, Ágúst Sörlason, var lungnaveikur eftir að hafa unnið lengi í asbesti og glerull. Hann vildi alls ekki hætta að spila þótt hann gæti vart gengið. Þegar við vorum búnir að slá með Murrey-vélinni tókum við sláttubúnaðinn undan henni, festum golfsett Ágústs aftan á vélina og hann notaði hana sem golfbíl í nokkur sumur. Ágúst hafði yndi af þessu og við kipptum okkur ekki upp við það þótt það færi klukkutími á dag í þessar tilfærslur. Ágúst átti skilið að spila golf.“

Þótt Karl Þór sé einn af stofnendum golfklúbbsins segist hann oftar hafa slegið gras en bolta. Hann segir að unglingastarfið sé upp og ofan og telur að tölvur, sjónvarp og símar freisti krakkanna meira en golfíþróttin. „Það er ákveðið sinnuleysi sem vofir yfir ungu kynslóðinni í dag og þarf töluvert átak til að kveikja áhuga hjá krökkunum.“

Þótt golfvöllurinn á Bíldudal sé rúmlega tvítugur rötuðu golfpokar og fleira fínerí síður en svo á staðinn á upphafsárunum. ,,Hér dó fólk samt ekki ráðalaust. Einn bjó sér til kylfupoka úr þéttriðnu rækjuneti og notaði harðan hring sem botn. Sjálfur keypti ég 4 tommu skolprör í réttri lengd og notaði sem poka. Kerrurnar komu hingað löngu síðar og enginn á svæðinu á enn rafmagnskerru.“

Níunda flötin og klúbbhúsið en félagar hafa áhuga á að stækka það meira en hafa þó nýverið byggt við það. Mynd/Þorgrímur Þráinsson
Níunda flötin og klúbbhúsið en félagar hafa áhuga á að stækka það meira en hafa þó nýverið byggt við það. Mynd/Þorgrímur Þráinsson
Fyrsti teigur, Bíldudalur í baksýn 4. braut að neðan. Mynd/Þorgrímur Þráinsson
Fyrsti teigur, Bíldudalur í baksýn 4. braut að neðan. Mynd/Þorgrímur Þráinsson

bildudalur21062014_08

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ