Frá Húsatóftavelli í Grindavík. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Golfklúbbur Grindavíkur sendi í gær frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna stöðunnar sem uppi er vegna náttúrhamfara í og við Grindavík. Tilkynningin er hér fyrir neðan í heild sinni.

Ágætu félagsmenn.

Eflaust hafa einhverjir velt því fyrir sér hvað verður um golfklúbbinn okkar eftir þessar hörmungar sem þið íbúar Grindavíkur hafið gengið í gegnum á undanförnum vikum. Það er ekkert því til fyrirstöðu eins og staðan er núna að halda vellinum í rekstri. Hann er lítið skemmdur í raun og veru og við stefnum á að taka á móti gestum í sumar eins og áður.

Rekstur klúbbsins hefur gengið ágætlega á undanförnum árum en til þess að svo geti verið áfram verðum við að hafa félagsmenn sem greiða félagsgjöld. Án ykkar er enginn Golfklúbbur Grindavíkur.

Nú er svo komið að enginn býr í Grindavík og því getur reynst erfitt að reka golfklúbb við þessar aðstæður. Stjórn GG fól framkvæmdastjóra að hefja viðræður við aðra golfklúbba um samstarf á komandi sumri og nú þegar hafa fjölmargir sýnt vilja til samstarfs við GG.

Enn á eftir að útfæra það samstarf endanlega en í grófum dráttum snýst það um að félagsmenn GG geti leikið á öðrum golfvöllum fyrir sanngjarnt verð sumarið 2024.

Frekari upplýsingar um það verða ljósar á aðalfundi sem áætlaður er í mars og þar verður einnig tekin ákvörðun um félagsgjöld GG fyrir golfsumarið sem framundan er.

Við verðum í sambandi síðar með aðalfundarboð en hlökkum til að sjá ykkur öll sem fyrst á Húsatóftavelli.

Áfram Grindavík, Áfram GG
Kveðja,Helgi Dan og Hávarður

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ