Frá Siglo Golf. Mynd/Edwin
Auglýsing

Golfklúbbur Akureyrar og Siglo Golf á Siglufirði hafa gert með sér samkomulag þess efnis að GA sjái um rekstur golfvallarins á Siglufirði. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Með samkomulaginu við Golfklúbb Akureyrar verður hinn glæsilegi golfvöllur á Siglufirði einn af völlum GA. Samið hefur verið við Barðsmenn ehf um daglega umhirðu vallarins svo sem slátt og þess háttar. Barðsmenn munu einnig sjá um rekstur golfskálans og taka þar vel á móti gestum vallarins.

Róbert Guðfinnsson eigandi Siglo Golf segir að með þessu sé verið að tryggja gæði vallarins til frambúðar og auk þess með samningi GA og GKS verði aðgengi GKS tryggt eins og samið var um milli Siglo Golf og Leyningsás.

Samhliða hefur verið gert samkomulag á milli Golfklúbbs Akureyrar og Golfklúbbs Siglufjarðar um aðgengi félaga GKS að vellinum.

Golfvöllurinn í Hólsdal var opnaður árið 2018 og með tilkomu vallarins gjörbreyttist golfaðstaðan á Siglufirði. Völlurinn er hannaður af Edwin Roald golfvallahönnuði. Athafnamaðurinn Róbert Guðfinnsson var aðalhvatamaðurinn á bak við framkvæmdina en sjálfseignarfélagið Leyningsás hefur frá upphafi verið rekstraraðili vallarins.

Golfvöllurinn er í næsta nágrenni við skíðasvæðið. Reið- og gönguleiðir eru skipulagðar á svæðinu ásamt tengingu við skógræktina í Skarðsdal. Á sínum tíma var ákveðið að fara í þessa framkvæmd til að auka fjölbreytni í þjónustu við íbúa Fjallabyggðar og alla þá fjölmörgu ferðamenn sem til Fjallabyggðar koma.

„GKS horfir fram á við þar sem nýir tímar og nýjar áskoranir munu koma og bjóðum við GA velkomið og lykillinn að þessu er gott samstarf. Þetta verður frábær viðbót að fá þekkingu GA varðandi umhirðu og uppbyggingu vallarins þar sem þeir þekkja svæðið vel og við vonumst til farsæls samstarfs,“ segir Jóhann Már Sigurbjörnsson formaður GKS.

Steindór Kristinn Ragnarsson framkvæmdastjóri GA segist mjög ánægður með þennan samning og hlakkar mjög til samstarfsins við félaga GKS sem og Barðsmenn. Horft sé til þess að styrkja golfið enn frekar á Norðurlandi og efla það sem golfsvæði. GA hafi í gegnum árin verið í góðum samskiptum við klúbbana á svæðinu og horfir til enn frekari samstarfs.

Golfsumarið líti vel út og því mikil tilhlökkun fyrir því. Það sé von okkar að félagar þessara klúbba muni nýta sér aðstöðuna hjá hvorum öðrum í frekari mæli. Golfvöllurinn komi ágætlega undan vetri, þó séu nokkrar flatir sem þarf að hjálpa en gert sé ráð fyrir opnun vallarins í júní byrjun líkt og fyrri ár.

GA hefur einnig samið við Barðsmenn ehf um umhirðu vallarins og munu Barðsmenn ehf einnig sjá um rekstur golfskálans og horfum við björtum augum á það samstarf því þar séu miklir möguleikar á að auka þá þjónustu við gesti vallarins.

Hér fyrir neðan eru myndir sem teknar voru sumarið 2021 á Siglo Golf. Myndir/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ