/

Deildu:

Auglýsing

Haukur Örn Birgisson, forseti GSÍ, skrifar pistil sem birtist í 5. tbl. tímaritsins Golf.is sem kom út í þessari viku.


Stefnumótun til framtíðar er mikilvægur þáttur í starfsemi íþróttahreyfinga, ekki síst vegna þeirra samskipta sem þurfa að eiga sér stað í tengslum við slíka vinnu. Þegar golfhreyfingin setti sér stefnu árið 2013 voru fjölmargir aðilar sem lögðu hönd á plóg, ræddu framtíðina og komu sér saman um helstu áherslur. Undanfarin ár höfum við reynt að fylgja þeirri stefnumótun eftir í störfum golfsambandsins. Sumt hefur gengið vel og annað síður. Nú er tímabil þeirrar stefnu liðið og hefur áttavitinn verið stilltur á nýjan leik. Á nýafstöðnu golfþingi var ný stefna sett til næstu átta ára.

Upphafsstef stefnumótunarinnar fólst í þessari spurningu:

„Ef við ætluðum að stofna Golfsamband Íslands á morgun – hvert yrði hlutverk þess?“

Við þóttumst vita að hlutverk sambandsins yrði frábrugðið því sem það hefur verið undanfarna áratugi. Þótt golfíþróttin á Íslandi hafi átt afar góðu gengi að fagna á undanförnum árum er mikilvægt að stunda sjálfsskoðun. Það er alltaf hægt að bæta um betur. Markmið og rauði þráðurinn í nýrri stefnu GSÍ felst í forgangsröðun verkefna, betri nýtingu fjármuna og skarpari skilum á milli hlutverka sambandsins annars vegar og golfklúbbanna hins vegar.

Að loknum skoðanakönnunum um markmið hreyfingarinnar og áherslur golfsambandsins lagði stjórn GSÍ sig fram við að kynna afrakstur vinnu sinnar fyrir golfklúbbum landsins. Viðbrögðin voru mikil og einkenndust þau bæði af lofi og skarpri gagnrýni. Tók stefnan því töluverðum breytingum í takt við þær ábendingar sem bárust. 

Í verkferlinu voru lagðar fram nokkuð róttækar hugmyndir á sumum sviðum starfseminnar. Lögð var til skýrari aðgreining á því sem mætti telja til kjarnastarfsemi sambandsins annars vegar og annarrar starfsemi hins vegar. Kjarnastarfsemi er starfsemi sem golfklúbbar landsins geta ekki sjálfir sinnt og verkefni sem ekki verður hjá því komist að golfsambandið sinni, svo sem samkvæmt lögum GSÍ og ÍSÍ á hverjum tíma. Annarri starfsemi en kjarnastarfsemi er einnig mikilvægt að sinna en það eru fleiri aðilar en golfsambandið sem geta sinnt slíkri starfsemi, t.d. golfklúbbar, PGA á Íslandi eða aðrir aðilar. 

Óhætt er að segja að hin nýja stefna hafi meiri áhrif á suma málaflokka en aðra enda hafa sumir málaflokkar sambandsins staðið óbreyttir áratugum saman. Stöðnun er ekki góð og það getur verið nauðsynlegt að stíga frá teikniborðinu af og til og horfa á heildarmyndina úr smá fjarlægð. Það gerðum við og það verður spennandi að fylgjast með golfsambandinu og golfklúbbum landsins takast á við ný verkefni á næstu árum.

Golfsambandið samanstendur af 63 golfklúbbum um allt land og það er eðlilegt að skoðanir séu skiptar og áherslur ólíkar. Það er skýrt markmið nýrrar stefnu að bæta starfsemi golfsambandsins til framtíðar og enginn vafi leikur á því að jákvæð og uppbyggileg samtöl við forsvarsfólk golfklúbbanna á síðastliðnum misserum leiddu til betri niðurstöðu og sterkari samstöðu, sem verður ómetanlegt veganesti til næstu ára. Ég er stoltur af allri vinnunni sem liggur að baki og þakklátur fyrir þá góðu afgreiðslu sem stefnan fékk á nýafstöðnu golfþingi. Við getum öll horft bjartsýn fram á veginn. 

Um leið og ég færi öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem kom að starfi hreyfingarinnar á árinu sem er að líða hjartans þakkir fyrir framlag þeirra, óska ég öllum lesendum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári. 

Með kærri jólakveðju, Haukur Örn Birgisson 
forseti Golfsambands Íslands.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ