/

Deildu:

Auglýsing

Uppskeruhátíð Golfklúbbs Borgarness var haldin í bækistöðvum klúbbsins í gamla sláturhúsinu í Brákarey í gær. Þar hefur Golfklúbbur Borgarness komið upp mjög góðri félags- og æfingaaðstöðu, trúlega einni þeirri bestu á landsbyggðinni. Á uppskeruhátíðinni undirrituðu meðal annars tveir efnilegir kylfingar afrekssamninga við Golfklúbb Borgarness, þeir Anton Elí Einarsson og Stefán Fannar Haraldsson. Við undirskrift samninganna sagði Guðmundur Daníelsson formaður unglinganefndar klúbbsins að vonandi liði ekki á löngu þar til fleiri samningar yrðu undirritaðir við efnilega kylfinga. Með þeim væri ætlunin að hvetja þá og hjálpa til að gera golf að sinni afreksíþrótt. Haraldur Már Stefánsson framkvæmdastjóri Golfklúbbs Borgarness og unglingaþjálfari segir að með afrekssamningum sé golfklúbburinn að marka stefnu að verða fyrirmyndaríþróttafélag sem styður sitt afreksfólk og hvetur. Haraldur sagði í samtali við Skessuhorn að um tuttugu börn og unglingar iðkuðu golf í Borgarnesi. Um helmingur þess hóps æfði mjög vel með það að markmiði að ná langt í íþróttinni.

Á uppskeruhátíðina var m.a. mættur Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari og margfaldur Íslandsmeistari í golfi. Úlfar og Bjarki Pétursson Borgnesingur og einn besti kylfingur á landinu í dag fluttu fræðsluerindi þar sem þeir sögðu frá sínum ferli og því mikilvægasta sem ungir kylfingar þurfa að huga að. Bæði erindin voru mjög fræðandi og án efa kærkomin fyrir áhugasama unga kylfinga í Golfklúbbi Borgarness. Grunntónninn hjá báðum fyrirlesurunum var að æfingin skapar meistarann og stuðningur frá foreldrum og klúbbnum skiptir gríðarlega miklu máli. Markmið, trú og vilji var meðal þess sem Úlfar Jónsson lagði áherslu á í sínu erindi. Í lok uppskeruhátíðarinnar var stutt æfing og pizzuveisla.

heimild: www.skessuhorn.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ