Auglýsing

– Hlynur Geir Hjartarson, PGA kennari hjá Golfklúbbi Selfoss með góð ráð fyrir þá sem vilja koma börnum af stað í golfinu

Golf er frábær fjölskylduíþrótt. Það er mikilvægt að börnum líði vel þegar þau kynnast golfinu og til eru ýmsar leiðir í því sambandi,“ segir Hlynur Geir Hjartarson, PGA-golfkennari og framkvæmdastjóri Golfklúbbs Selfoss.

„Mikilvægast af öllu er að halda krökkunum við efnið. Félagsskapurinn þarf að vera góður og vinaleg stemmning á æfingasvæðinu. Vinir eða félagar sem æfa saman eru líklegri til þess að halda áfram. Við sem eldri erum þurfum því að búa til slíka stemningu og koma þeim sem eru einir á ferð inni í hópinn með öllum tiltækum ráðum.

Það sama á við um stelpur. Þær verða að vera saman á æfingum, helst að hafa sér stelpuæfingar, og fá vinkonur til að koma saman á æfingar. Mín reynsla er sú að til lengri tíma litið sé best að halda stelpuhópnum ávallt saman á æfingum,“ segir Hlynur Geir Hjartarson.

Leikur, fjör og gaman
Leggðu áherslu á leiki á æfingum, það verður að vera fjör og gaman.

Áskoranir og keppnir
Börn hafa gaman af áskorunum, vipp- og púttkeppnir eru alltaf vinsælar. Drævkeppnir eru einnig stórkostlega skemmtilegar.

Spila golf
Kylfingar vilja leika golf úti á velli og krakkar eru engin undantekning. Það er því mikilvægt að nýta sem flest tækifæri til þess að fara út á völl að spila með börnunum.

Texas Scramble
Fjögurra manna Texas Scramble er góð leið. Það þarf ekki nema eitt gott pútt hjá nýliðanum til þess að hann eða hún brosi allan daginn.

Stuttar lotur og fjölbreytni
Fjölbreytni er lykilatriði á æfingum. Ekki hafa loturnar of langar. Það er of langur tími að slá í hálftíma með 9-járni.

Einfaldleikinn virkar
Golf er mjög tæknilega erfið íþrótt. Það þarf því að gera hana eins einfalda og hægt er.

Liðakeppni og búningar
Krakkar vilja vera í liði og finnst fátt skemmtilegra en að vera í liðsbúningi. Það er mikilvægt að búa til slíka stemmningu.

Stuttar brautir – gullteigar
Það er mikilvægt að börnin upplifi golfvöllinn sem viðráðanlegt verkefni. Þegar þau leika golf eiga þau að tía boltann upp í upphafshögginu á þeim stöðum þar sem þau eiga möguleika á að ná inn á flöt í tilætluðum höggafjölda. Byrja á 200 metra hælnum á par 5 holu, 150 metra hælnum á par 4 holu og 60-80 metra færi á par 3 holu. Á ýmsum völlum er gullteigar sem eru frábær valkostur fyrir börn, og einnig þá sem eldri eru.


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ