/

Deildu:

Arnar Már Ólafsson. Mynd/AMÓ
Auglýsing

Arnar Már Ólafsson, fékk æðstu viðurkenningu CPG samtakanna, á ráðstefnu sem fram fór um liðna helgi. Um var að ræða fimm stjörnu viðurkenningu CPG (Confederation of Professional Golfers) sem eru regnhlífarsamtök sem 40 PGA samtök víðsvegar úr Evrópu og víðar standa á bak við. 

Arnar Már er afreksþjálfari hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Hann hefur verið í fremstu röð í afreksþjálfun atvinnukylfinga til margra ára. Fimm stjörnu viðurkenningin er veitt þeim PGA þjálfurum sem hafa helgað sig þjálfun kylfinga um áratuga skeið. Arnar Már hefur fjórum sinnum verið kjörinn PGA kennari ársins á Íslandi og hann hefur einnig hlotið gullmerki GSÍ fyrir störf sín í golfhreyfingunni. 

Fimm stjörnu viðurkenningin var fyrst veitt árið 1992. Frá þeim tíma hafa alls 87 PGA kennarar – og þjálfarar fengið þessa nafnbót. Á fyrstu árunum fengu allt að fimm kennarar viðurkenninguna árlega en á undanförnum árum hefur aðeins einn PGA þjálfari – eða kennari fengið viðurkenninguna á hverju ári. Nánar hér.

Arnar Már hefur nú skipað sér í hóp þekktra nafna úr golfsamfélaginu sem hafa fengið þessa viðurkenningu. Þar má nefna John Jakobs, Pete Cowan, Bob Torrance, Bernhard Langer, Seve Ballesteros, Costantino Rocca, Paul Lawrie, Pia Nilsson, 

Eins og áður segir er Arnar Már afreksþjálfari hjá GKG þar sem hann kemur að tækniþjálfun fjölmargra afrekskylfinga. Má þar nefna Guðmund Ágúst Kristjánsson, sem keppir í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu, DP World Tour. Hann þjálfar einnig atvinnukylfingina Aron Snæ Júlíusson og Bjarka Pétursson. 

Arnar Már var einn af stofnendum Golfkennaraskóla PGA á Íslandi – en skólinn hefur fengið fulla viðurkenningu frá CPG samtökunum. Rúmlega 60 PGA kennarar hafa lokið námi frá PGA golfkennaraskólanum á Íslandi og rúmlega 50 nemendur stunda þar nám um þessar mundir, sem er metfjöldi. 

Í viðtali sem birt er á heimasíðu GKG segir Arnar Már að hann sé mjög stoltur og þakklátur fyrir þessa viðurkenningu. 

„Það verður að hafa í huga er að allt þetta sem ég hef gert er ekki hægt nema eiga fjölskyldu sem nennir svona kalli. Golfkennaraskólinn stendur upp úr hjá mér. Það er erfiðasta og besta verkefnið sem ég hef tekið að mér og af öllu sem ég hef lært, þá hef ég lært mest af því. Framtíðin í golfkennslunni er spennandi en hún virðist svolítið vera að færast inn í box, þar sem allt er mælt. Það er góð þróun fyrir okkur, en það gleymist að kenna leikinni útá vellinum sjálfum. Það væri gott að hafa betra aðgengi að æfingavöllum svo PGA þjálfarar gætu sinnt því hlutverki betur,“ segir Arnar Már Ólafsson.  

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ