/

Deildu:

Auglýsing

Kári Árnason, knattspyrnumaður. 

„Það er margt sem er heillandi við golfið. Þetta er mikil hugaríþrótt, það er hægt að missa sig í pælingum um allskonar smáatriði. En oftast ræðst árangurinn af dagsforminu og sjálfstraustinu sem ríkir þann daginn. Það er einnig mjög gaman að keppa við vinhópinn og fjölskylduna,“ segir knattspyrnumaðurinn Kári Árnason. 

Á undanförnum árum hefur Kári verið hryggjarstykkið í vörn karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu en hann leikur í dag með uppeldisfélaginu Víkingi úr Reykjavík í efstu deild.  

Golfíþróttinni kynntist Kári þegar hann var rétt rúmlega 10 ára á golfnámskeiðum hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. 

„Ég hafði nú reyndar ekkert sérstaklega gaman af þessu þegar ég var krakki. Ég og vinur minn vorum sendir á golfnámskeið hjá GKG þegar við vorum 11 ára gamlir. Það var nánast bara barnapössun. Okkur var skutlað á námskeiðið og sóttir fjórum tímum síðar. Áhuginn vaknaði á gofinu á ný þegar ég fluttist til Englands og Skotlands,“ segir Kári en hann hefur leikið víða sem atvinnumaður i knattspyrnu frá árinu 2004, Svíþjóð, Danmörku, Englandi, Skotlandi, Grikklandi og Tyrklandi.

Kári hefur náð þokkalega góðum tökum á golfinu þrátt fyrir að hafa ekki gefið sér tíma til að æfa mikið. Knattspyrnan er enn í forgangi en hann hefur sett sér markmið fyrir framtíðina hvað golfið varðar. 

„Helsta markmiðið hjá mér er að ná meiri stöðugleika og komast í eins stafa tölu í forgjöf til lengri tíma. Þetta er metnaðarfullt markmið en ég held að það sé alveg hægt að ná því.“

Grafarholtsvöllur er í uppáhaldi hjá Kára en hann er félagsmaður Í GR.

„Hola nr. 4 í Grafarholtinu er einnig á topplistanum hjá mér, ég næ yfirleitt góðu skori á 4. Frekar einföld hola og hægt að lagfæra slæma byrjun á hringnum á þessari holu. Leirdalsvöllur er einnig alltaf skemmtilegur – þar byrjaði ég að spila golf og á því góðar minningar frá þeim velli.“

Æskufélagar Kára spila allir golf og það er alltaf hörð keppni þeirra á milli þegar þeir hittast á golfvellinum. 

„Þar látum við allt fljúga og keppnisskapið kemur mjög oft mikið við sögu í þessum rimmum okkar. Það er nú oftast þannig að menn byrja með miklum látum í „kjaftinum“ en á 12. holu eru þeir hættir að rífa kjaft. Það er einnig svipað uppi á teningnum þegar ég spila með strákunum úr landsliðinu í fótbolta, það eru alltaf skemmtilegar stundir að hittast á golfvellinum.

Ég spila einnig mikið með foreldrum mínum og eldri bróður. Ég fæ reyndar samviskubit í dag þegar ég vinn bróður minn í golfi í dag. Skýringin er sú að ég var orðinn of vanur að tapa fyrir honum í öllu í gamla daga. Þannig að ég leyfi honum að vinna mig af og til í golfinu í dag til að laga samviskubitið hjá mér,“ segir Kári í léttum tón.

Kári var inntur eftir helstu styrkleikum sínum í golfinu og einnig veikleikum.  

„Styrkleiki minn í golfinu eru púttin og ég get alveg slegið ágætlega með járnunum. Þessi tvö atriði eru þau sem ég treysti mest á. Upphafshöggin með drævernum eru annað mál. Ég er stundum mjög villtur með drævernum, en af og til detta upphafshöggin inn – en það mætti vera oftar. Á góðum degi, þurrum velli, niður brekku og í miklum meðvind, þá gæti ég kannski rúllað drævinu allt að 300 metrum,“ segir Kári þegar hann spurður um högglengd í upphafshöggum.  

Golfgræjur eru eitthvað sem Kári veltir mikið fyrir sér en hann ætlar aldrei að skipta út lífsförunautnum sem hefur verið í golfpokanum s.l. 18 ár. 

Ég hef gaman af því að pæla í golfgræjum. Ég skoða því mikið hvað er nýtt. Pútterinn minn er að verða að lífsförunaut. Hann er af gerðinni Taylor Made Monza og ég hef verið með hann í pokanum í 18 ár. Ég mun aldrei skipta honum út. Kylfurnar mínar eru Nike Vapor og ég er með Cleveland 52 gráðu fleygjárn. Þegar ég byrjaði að spila golf um 11 ára aldurinn var ég með hálft járnasett frá Wilson sem bróðir minn var vaxinn upp úr. Járnin voru á oddatölum, 3-5-7-9. Þegar ég fékk mér fullt sett þá átti ég í erfiðleikum með að slá með járnunum sem voru á sléttum tölum.“

Kári hefur slegið draumahöggið og er félagi í Einherjaklúbbnum.  

„Ég kláraði inngönguna í Einherjaklúbbinn tveimur árum eftir að ég byrjaði að spila golf. Það var á ættarmóti sem fram fór á Selsvelli á Flúðum. Níunda holan á vellinum var á þeim tíma stutt par 3 þar sem að upphafshöggið var „blint“. Frændi minn fór inn á flötina og sagði mér að miða á höfuðið á sér, ég gerði eins og mér var sagt, og boltinn rúllaði ofaní holuna. Hola í höggi,“ sagði Kári Árnason, kylfingur og knattspyrnumaður.  

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ