Auglýsing

Bestu kylfingar Íslands mæta til leiks í árlegt góðgerðarmót Nesklúbbsins, Einvígið á Nesinu, 2019. 

Einvígið á Nesinu fer fram mánudaginn 5. ágúst og verður þetta í 23. skipti sem mótið fer fram. Tíu kylfingum er boðið til leiks og er leikið í þágu Barnaspítala Hringsins.

Á Barnaspítalanum er veitt sérhæfð, fjölskyldumiðuð heilbrigðisþjónusta fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri þar sem í allri þjónustu er áhersla lögð á að greina þarfir og auka vellíðan skjólstæðinga

Einvígið verður með örlítið breyttu sniði í ár.  Höggleikskeppnin fellur niður og kylfingarnir mæta beint í Einvígið sjálft (shoot-out) sem hefst klukkan 13.00.  

Þar fellur eins og áður einn kylfingur út á hverri holu, þar til að tveir standa eftir og berjast að lokum um sigurinn á 9. braut. 

FRUMHERJI og KEA HÓTEL eru styrktaraðilar mótsins árið 2019.   

Keppendalistinn 2019 hefur sjaldan eða aldrei verið sterkari. Atvinnukylfingarnir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Axel Bóasson, Birgir Leifur Hafþórsson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús mæta meðal annars til leiks í þetta skemmtilega mót sem hefur dregið að sér mjög stóran áhorfendahóp í gegnum tíðina.

Keppendalistinn 2019:

AXEL BÓASSON, GK
*Ríkjandi Íslandsmeistari í golfi og atvinnukylfingur sem hefur leikið á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challenge Tour. Axel hefur þrívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum í golfi.

BIRGIR LEIFUR HAFÞÓRSSON, GKG
*Sigursælasti kylfingur Íslands í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi, sjöfaldur Íslandsmeistari. Leikreyndasti atvinnukylfingur Íslands frá upphafi og eini karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni, sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

BJÖRGVIN SIGURBERGSSON, GK
*Fjórfaldur Íslandsmeistari í golfi og einn leikreyndasti keppniskylfingur Íslands. Hefur einu sinni sigrað í Einvíginu á Nesinu.

GUÐMUNDUR ÁGÚST KRISTJÁNSSON, GR
*Atvinnukylfingur sem nýverið tryggði sér keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu, Challange Tour. Hefur sigrað á þremur atvinnumótum á Nordic Tour mótaröðinni á þessu tímabili.

GUÐRÚN BRÁ BJÖRGVINSDÓTTIR, GK
*Atvinnukylfingur úr GK og ríkjandi Íslandsmeistari í golfi. Guðrún Brá leikur á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í kvennaflokki, LET Access mótaröðinni. Hefur verið í fremstu röð á Íslandi undanfarin ár.

HARALDUR FRANKLÍN MAGNÚS, GR
*Atvinnukylfingur úr GR sem leikur á Nordic Tour mótaröðinni. Íslandsmeistari í golfi 2012. Er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur leikið á risamóti í keppni atvinnukylfinga, Opna breska meistaramótinu 2018.

NÖKKVI GUNNARSSON, NK
*Klúbbmeistari NK 2019 og þaulreyndur keppniskylfingur. PGA kennari og starfar sem íþróttastjóri NK.

ÓLAFÍA ÞÓRUNN KRISTINSDÓTTIR, GR
*Atvinnukylfingur úr GR og Íþróttamaður ársins 2017. Tryggði sér keppnisrétt á LPGA mótaröðinni, sterkustu atvinnumótaröð heims, fyrst allra íslenskra kylfinga. Er með keppnisrétt á Symetra Tour mótaröðinni í Bandaríkjunum og er með takmarkaðan keppnisrétt á LPGA. Þrefaldur Íslandsmeistari í golfi.

ÓLAFUR BJÖRN LOFTSSON, GKG
*Atvinnukylfingur sem hóf ferilinn á Nesvellinum sem félagsmaður í NK. Íslandsmeistari í golfi 2009 og eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur leikið á PGA mótaröð atvinnumanna í Bandaríkjunum.

RAGNHILDUR SIGURÐARDÓTTIR, GR
*Fjórfaldur Íslandsmeistari í golfi í kvennaflokki og ein þaulreyndasti keppniskylfingur Íslands. Ríkjandi meistari í Einvíginu á Nesinu og hefur því titil að verja.

Sigurvegarar frá upphafi:

1997      Björgvin Þorsteinsson

1998      Ólöf María Jónsdóttir

1999      Vilhjálmur Ingibergsson

2000      Kristinn Árnason

2001      Björgvin Sigurbergsson

2002      Ólafur Már Sigurðsson

2003      Ragnhildur Sigurðardóttir

2004      Magnús Lárusson

2005      Magnús Lárusson

2006      Magnús Lárusson

2007      Sigurpáll Geir Sveinsson

2008      Heiðar Davíð Bragason

2009      Björgvin Sigurbergsson

2010      Birgir Leifur Hafþórsson

2011      Nökkvi Gunnarsson

2012      Þórður Rafn Gissurarson

2013      Birgir Leifur Hafþórsson

2014      Kristján Þór Einarsson

2015      Aron Snær Júlíusson

2016      Oddur Óli Jónasson

2017      Kristján Þór Einarsson

2018      Ragnhildur Sigurðardóttir

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ