BMW á Íslandi og Golfsamband Íslands skrifuðu undir áframhaldandi samstarfssamning á dögunum, en BMW á Íslandi er einn af meðlimum GSÍ fjölskyldunnar. Fulltrúar BMW á Íslandi og GSÍ hittust í höfuðstöðvum BMW og BL við Sævarhöfða og undirrituðu samninginn.
„Það er okkur sannur heiður að framlengja samstarfið við Golfsamband Íslands. BMW á Íslandi hefur lengi lagt áherslu á að styðja við íslenskt íþróttalíf og deilir GSÍ okkar gildum um metnað, gæði og ástríðu. Við hlökkum til áframhaldandi góðs samstarfs og spennandi verkefna á golfvellinum í náinni framtíð.“ sagði Sigrún Buithy Jónsdóttir, markaðsstjóri BL og BMW á Íslandi.
BMW á Íslandi er í umboði BL. BL sér um sölu, þjónustu og viðhald BMW bifreiða og tryggir viðskiptavinum aðgengi að nýjustu tæknilausnum og gæðavörum BMW. Umboðið býður upp á fjölbreytt úrval BMW bíla, auk sérhæfðrar verkstæðisþjónustu með sérþjálfuðu starfsfólki. Þar er unnið að því sameiginlega markmiði að veita framúrskarandi þjónustu, sýna frumkvæði í starfi og fagleg vinnubrögð sem standast alla gæðastaðla þeirra merkja sem BL selur.
„Við hjá Golfsambandi Íslands erum virkilega ánægð með endurnýjun á samstarfssamningi okkar við BL og BMW á Íslandi það ríkir tilhlökkun hjá okkur um að vinna áfram með þessum öfluga samstarfsaðila að uppbyggingu golfíþróttarinnar,“ sagði Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ.