Auglýsing

Ársþing EGA, Evrópska golfsambandsins, fór fram á Íslandi dagana 12.-13. nóvember og var þetta í fyrsta sinn sem EGA heldur ársþing sitt hér á landi.

Evrópska golfsambandið var stofnað árið 1937 og er samband 47 golfþjóða innan Evrópu, sem hefur meðal annars það hlutverk að sjá um framkvæmd Evrópumóta og annarra alþjóðlegra keppna, ásamt því að stuðla að framþróun íþróttarinnar í álfunni og halda utan um forgjafarkerfið í Evrópu.

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, er einnig forseti EGA en hann hefur gegnt því embætti frá árinu 2019 þegar hann tók við embættinu af Pierre Bechmann frá Frakklandi. Á ársþinginu tók Jan Hubrecht við sem forseti EGA. Haukur Örn mun gegna embætti „fyrrum forseta EGA“ næstu tvö árin.

Haukur Örn þekkir vel til Evrópska golfsambandsins en hann sat í mótanefnd EGA á árunum 2010-2014 og í framkvæmdastjórn þess frá árinu 2015. Haukur Örn varð þá fyrsti Íslendingurinn til þess að vera kjörinn í framkvæmdastjórn EGA.

Hörður Geirsson, varaforseti GSÍ, tók þátt á ársþingi EGA en hann er í mótanefnd.

Ársþing EGA fór fram í ráðstefnusölum Íslandshótela, Grand Hótel í Reykjavík.

Þar voru ýmis mál til umræðu og verður greint síðar frá helstu niðurstöðum ársþingsins.

Þinggestir komu frá eftirtöldum þjóðum:

Andorra, Austurríki, Hvíta-Rússland, Belgía, Króatía, Kýpur, Tékkland, Danmörk, England, Eistland, Finnland, Frakkland, Georgía, Þýskaland, Grikkland, Ungverjaland, Ísland, Írland, Ísrael, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Makedónía, Holland, Noregur, Pólland, Rúmenía, Rússland, Skotland, Serbía, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland, Úkraína og Wales.

Á næsta ári fer eitt af mótum EGA fram hér landi þar sem að Evrópumót stúlknalandsliða verður haldið á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi.

Frá vinstri: Pierre Bechmann, Haukur Örn Birgisson, Jan Hubrecht.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ