Auglýsing

Evrópumót stúlknalandsliða í golfi verður haldið á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ í byrjun júlí 2022. Á mótinu keppa fremstu áhugakylfingar Evrópu 18 ára og yngri. Evrópska golfsambandið, EGA, er framkvæmdaraðili mótsins. Evrópumót landsliða eru stærstu mót sem EGA stendur fyrir ár hvert.

Evrópska golfsambandið, Golfsamband Íslands og Golfklúbburinn Oddur hafa nú þegar hafist handa við undirbúning mótsins. Þetta verður í annað sinn sem þessir aðilar takast saman á við slíkt verkefni. GO og GSÍ komu einnig að framkvæmd á Evrópumóti á vegum EGA árið 2016. Það ár fór fram Evrópumót kvennalandsliða á Urriðavelli og var það einnig í fyrsta sinn sem það stórmót fór fram á Íslandi. EM kvenna árið 2016 er stærsta alþjóðlega mótið sem fram hefur farið á Íslandi.  Evrópumót stúlknalandsliða 2022 verður fyrsta alþjóðlega mótið sem fram fer á Íslandi frá því að EM kvenna fór fram árið 2016. 

Eins og áður segir keppa fremstu áhugakylfingar kvenna í Evrópu 18 ára og yngri á EM stúlknalandsliða. Búast má vel á annað hundrað keppendum, þjálfurum og fylgdarliði – frá 20 þjóðlöndum. 

Mótið fór fyrst fram árið 1991 og fór það fram á tveggja ára fresti. Frá árinu 1999 hefur mótið farið fram árlega – og verður mótið á Íslandi það 27. frá upphafi. Mótið telur einnig til stiga í Junior Solheim Cup. Þýskaland bar sigur úr býtum á mótinu í fyrra sem fram fór í Slóvakíu og var það jafnframt fyrsti sigur Þjóðverja á þessu móti. 

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands og forseti Evrópska golfsambandsins, segir að um mikla viðurkenningu sé að ræða fyrir Urriðavöll og félagsmenn í Golfklúbbnum Oddi.  

„Við erum afar stolt af því að Ísland  hafi verið valið sem áfangastaður fyrir Evrópumót í golfi. Evrópska golfsambandið var mjög ánægt með framkvæmdina árið 2016 og það sama má segja um keppendur í því móti. Evrópumót landsliða eru stærstu mót sem EGA stendur fyrir ár hvert og þessi mót eru ávallt haldin á bestu golfvöllum Evrópu. Í þessu vali felst því mikil viðurkenning fyrir Urriðavöll og félagsmenn í Golfklúbbnum Oddi. Með GSÍ-hattinn á mér hlakka ég mikið til áskorunarinnar sem felst í því að halda svona merkilegt golfmót og með EGA-hattinn á mér get ég ekki annað sagt en að ég hlakka til að veita stúlkunum færi á að heimsækja Ísland af þessu tilefni,“ segir Haukur Örn. 

Segir Þorvaldur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds, segir að þar á bæ ríki mikil tilhlökkun að takast á við skemmtilegt og krefjandi verkefni.   

„Þessi ákvörðun EGA að fara þess á leit við Golfklúbbinn Odd að halda mótið er mikil viðurkenning fyrir íslenskt golf og það öfluga starf sem unnið hefur verið á Íslandi.  Þessi tíðindi eru einnig mikil viðurkenning fyrir Urriðavöll og starfsfólkið sem hefur haldið gæðum vallarins á háu stigi í mörg ár. Það var almenn ánægja hjá mótsgestum með framkvæmdina og Urriðavöll á Evrópumóti kvenna 2016. Við búum því að góðri reynslu og þekkingu til að takast á við þetta skemmtilega og krefjandi verkefni, “ segir Þorvaldur og bætir því við að verkefnið sé stórt fyrir Golfklúbbinn Odd en hann sé sannfærður um að félagsmenn GO taki með stolti á móti bestu stúlkum Evrópu árið 2022. 

„Það kom vel í ljós sumarið 2016 hversu sterkur félagsandi er í GO þegar við óskuðum eftir aðstoð félagsmanna við framkvæmd EM kvenna og ég á ekki von á öðru en að félagsmenn muni aftur fylkja liði til að gera umgjörðina eins veglega og kostur er.”

Nánar um mótið hér:

EM stúlknalandsliða hefur farið fram á eftirfarandi stöðum. 


2020 – Green Resort Hrubá Borsa, Slóvakía 
2019 – Parador De El Saler, Spánn
2018 – Forsgårdens GK, svíþjóð
2017 – St Laurence, Finnland
2016 – Oslo GC, Noregur
2015 – Golf Resort Kaskada, Tékkland
2014 – Golf Resort Skalica, Slóvakía
2013 – Linköpings GC, Svíþjóð
2012 – GC St. Leon-Rot, Þýskaland
2011 – Is Molas, Ítalía
2010 – Aalborg GC, Danmörk
2009 – Kokkola GC, Finnland
2008 – Murcar GC, Skotland
2007 – Oslo GC, Noregur
2006 – Esbjerg GC, Danmörk
2005 – Lucerne GC, Sviss
2004 – Golf National, Frakkland
2003 – Esbjerg GC, Danmörk
2002 – Torino GC, Ítalía 
2001 – Oporto GC, Portúgal
2000 – Stockholm GC, Svíþjóð
1999 – Katinkulta GC, Finnlandi
1997 – Frankfurter GC, Þýskaland
1995 – GC Grand-Ducal, Lúxemborg
1993 – Malaga GC, Spánn
1991 – Hulta GC, Svíþjóð


Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ