Auglýsing

Andrea Bergsdóttir sigraði á dögunum á sínu fyrsta háskólamóti í Bandaríkjunum. Mótið sem hún sigraði á var mjög sterkt og þar af leiðandi fékk hún mjög mikið af stigum á heimslista áhugakylfinga.

Heimslistinn var uppfærður í þessari viku og fór íslenska landsliðskonan upp um 279 sæti á milli vikna. Hún var í sæti nr. 634 í síðustu viku en hún er í dag í sæti nr. 355 á listanum.

Nánar hér á heimslistanum: www.wagr.com

Aldrei áður hefur íslensk kona fengið jafnmörg stig eftir sigur á móti fyrir áhugakylfinga.

Andrea fékk 18,6 stig fyrir sigurinn á Collegiate Invitational háskólamótinu sem fram fór dagana 2.-3. febrúar í Mexíkó. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, fékk 10,9 stig þegar hún sigraði á Evrópumeistaramóti 16 ára og yngri árið 2022.

Andrea tók jafnframt stórt stökk á lista yfir bestu háskólakylfingana í efstu deild NCAA á þessu tímabili. Hún fór úr 230. sæti í 53. sæti eftir sigurinn.

Þess má geta að Íslandsmeistarinn frá árinu 2021 Hulda Clara Gestsdóttir hefur einnig leikið vel á tímabilinu og er í 189. sæti). 

Andrea leikur með Colorado State háskólaliðinu og var þetta fyrsti sigur hennar á háskólamóti. Andrea lék hringina þrjá á 212 höggum eða 4 höggum undir pari vallar (71-70-71).

Mótið var mjög eftirminnilegt fyrir Andreu þar sem hún fór einnig holu í höggi – á 15. braut vallarins á 2. keppnishring. Hún fékk fjóra fugla á síðustu sjö holunum á lokahringnum sem tryggði henni sigurinn.

Andrea hefur leikið með íslenska A-landsliðinu á undanförnum misserum. Hún ólst upp í Svíþjóð þar sem að fjölskylda hennar búsett. Andrea keppir fyrir Hills golfklúbbinn í Svíþjóð – en hér á landi hefur hún leikið undir merkjum GKG.

Andrea Bergsdóttir. Mynd/seth@golf.is

Lýstu aðeins lokasprettinum þar sem þú varst 4 undir á síðustu 7 holunum. Var eitthvað sérstakt sem skilaði því eða bara þolinmæði og góð spilamennska? Varstu meðvituð um stöðuna á lokaholunum?

„Þetta háskólamót var svolítið óhefðbundið að því leyti að 27 holur voru leiknar á tveimur dögum. Seinni dagurinn var því lengri en vanalega og það reyndi því aðeins meira á þolinmæðina. Ég byrjaði daginn vel og lék á tveimur höggum undir pari á fyrstu 9 holunum, síðan fann ég fyrir smá þreytu og lék næstu 9 holur á þremur höggum yfir pari. Á þeim tímapunkti spurði ég aðstoðarþjálfarann minn hvað ég væri mörgum höggum frá efsta sætinu. Hann lét mig vita að ég væri þremur höggum frá því ég hugsaði þá að ég þyrfti að stíga á bensíngjöfina. Á 11. holu stóð ég frammi fyrir afar erfiðu höggi af 160 metra færi, þurfti að slá lágt högg undir tré en á sama tíma fljúga 140 metra yfir vatn. Höggið heppnaðist fullkomlega, endaði um 5 metra frá holu og var hársbreidd frá því að fá fugl. Þetta var minn vendipunktur og sjálfstraustið jókst. Ég tók djarfari ákvarðanir og kom mér í betri fuglafæri. Ég setti púttin ofan í holu og allt í einu var ég búin að fá 4 fugla og komin á teiginn á lokaholunni. Ég hafði ekkert frétt um stöðuna þangað til að aðstoðarþjálfarinn minn upplýsti mig um að ég væri með tveggja högga forystu. Hann hafði gengið með mér síðustu fimm holurnar sem hjálpaði mér að halda mér rólegri og mér tókst að halda sama dampi á lokaholunni og sigra.“

Þú hefur verið nokkrum sinnum í baráttunni um sigurinn í háskólamótunum. Hvernig var tilfininginn að brjóta ísinn og landa fyrsta háskólatitlinum?

„Ég er búin að vera svo nálægt því lengi en aldrei náð að klára dæmið á lokadeginum. Þetta var mjög góð tilfinning og ég var sérstaklega ánægð hvernig ég náði að stýra huganum, peppa mig áfram og halda einbeitingu á lokaholunum. Það er frábært að vera búin að brjóta ísinn og finna að ég get unnið hvaða mót sem ég tek þátt í. Þetta gefur mér aukið sjálfstraust inn í tímabilið og ég stefni að sjálfsögðu á fleiri sigra.“

Lýstu því þegar þú fórst  holu í höggi. Hvað var höggið langt, með hvaða kylfu og hvernig fór boltinn ofan í holuna?

„Þetta var mögnuð tilfinning. Aðstoðarþjálfarinn minn var að hjálpa mér við kylfuval á teignum. Höggið var 136 metra langt og spilaðist 5 metra niður í móti. Kylfuvalið var svolítið erfitt en við ákváðum að nota 9 járnið. Ég sló mjög gott högg, boltinn lenti 6 metra fyrir framan holuna og rúllaði niður brekku og beint ofan í holuna. Ég vissi ekki alveg hvort að hann fór ofan í holuna eða ekki og með spilararnir byrjuði að ganga af stað. Þá öskraði þjálfarinn minn að boltinn hafi farið ofan í holuna og ég spurði til baka hvort hann væri viss. Ég náði varla utan um þetta en þegar ég kom á flötina voru gefnar „fimmur“ og ég var í léttu áfalli. Þetta var virkilega skemmtilegt og ég fékk svolítið tilfinninguna þarna að þetta væri dagurinn minn þar sem ég var einnig að spila mjög vel.“ 

Hver eru plönin þín eftir að háskólaferlinum lýkur á þessu ári? Er stefnan tekin á atvinnumennsku? Úrtökumót næsta vetur fyrir LET/LPGA?

„Ég útskrifast í maí og mun spila mitt síðasta sumar sem áhugamaður. Ég stefni á þátttöku í öllum stóru mótunum þ.e.a.s. Opna breska, EM liða, EM einstaklinga og Íslandsmótinu. Síðan fer ég aftur til Bandaríkjanna í ágúst til að taka þátt í úrtökumóti fyrir LPGA mótaröðina. Á fyrsta stigi úrtökumótsins er keppt á sama velli og ég keppi í deildakeppninni í háskólagolfinu í apríl sem mun klárlega auðvelda undirbúninginn minn. Ég hlakka mikið til og hef trú á að ég nái markmiðum mínum að spila á meðal bestu kylfinga heims,“ segir Andrea Bergsdóttir. 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ