Auglýsing

Golfklúbburinn Úthlíð hélt upp á 25 ára afmæli sitt í júní sl. með veglegu afmælismóti og glæsilegum hátíðarkvöldverði. Fjölmenni mætti á báða viðburðina þrátt fyrir mikla úrkomu.

Á stofnfundi Golfklúbbs Úthlíðar árið 1993 mættu 10 aðilar og þar af voru 5 kjörnir í stjórn. Mest hefur félagafjöldinn farið upp í 220 en í dag eru skráðir félagar um 140. Klúbburinn er því í 26. sæti yfir fjölmennustu klúbba landsins. Klúbburinn hefur stækkað jafnt og þétt sem er viðurkenning á umhirðu vallarins sem og því félagsstarfi sem á sér stað á svæðinu.

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, veitti fjórum félagsmönnum GÚ heiðursmerki fyrir framlag þeirra til golfíþróttarinnar. Hjörtur Fr. Vigfússon, Rúnar J. Árnason, Þorsteinn Sverrisson og Björn Sigurðsson fengu allir gullmerki GSÍ.

Hjörtur Vigfússon er einn af stofnendum GÚ og var í forsvari fyrir stofnun félagsins. Hjörtur var fyrsti formaður félagsins og var formaður frá árinu 1993-1998. Hjörtur hefur setið í stjórn GÚ frá upphafi og verið lykilmaður í starfi klúbbsins í gegnum árin, bæði sem starfsmaður vallarins og rekstraraðili, og setið í ýmsum nefndum og mótsstjórnum.

Hjörtur var einnig framkvæmdastjóri Golfklúbbsins Odds og Golfklúbbs Oddfellowa um þriggja ára skeið og hefur átt mikið samstarf með GSÍ í gegnum golfklúbba og önnur fyrirtæki um langt skeið. Hjörtur var einnig einn af stofnendum Golf in Iceland og sat í stjórn þar. Hjörtur er einnig einn af stofnendum Golfklúbbsins Tudda.

Rúnar Árnason er einn af stofnendum GÚ og hefur setið í stjórn GÚ frá upphafi. Rúnar hefur sinnt þar flestum störfum sem og mörgum verkefnum. Rúnar hefur aldrei látið sig vanta á fundi, vinnudaga eða hvaðeina sem hann er beðinn um á vegum klúbbsins og hefur með ótrúlegum drifkrafti komið að uppbyggingu félagsins.

Þorsteinn Sverrisson hefur verið formaður félagsins frá 1998 eða í um 20 ár. Hann hefur sinnt rekstri klúbbsins og vallarins af miklum myndarbrag og hefur með ótrúlegum drifkrafti komið að uppbyggingu félagsins.

Björn Sigurðsson var einn af stofnendum GÚ. Hann var vallareigandi Úthlíðarvallar á upphafsárum vallarins og klúbbsins og er enn einn af eigendum hans. Í gegnum árin hefur hann stjórnað framkvæmdum á vellinum og styrkt klúbbastarfið með alls kyns gjöfum og verðlaunum. Starf hans og fórnfýsi vegna uppbyggingar á klúbbnum og aðstöðunni á vellinum er ómetanlegt og verður seint fullþakkað.

Hafist handa árið 1992

Árið 1992 var hafist handa við að útbúa golfvöll í Úthlíð. Bræðurnir Gísli og Björn Sigurðssynir ræddu möguleikann á að byggja golfvöll – og varð úr að gera völlinn á því svæði sem hann er í dag. Gísli, sem starfaði lengi á Morgunblaðinu, teiknaði og hannað völlinn.

Völlurinn var grófteiknaður en landslagið réði að mestu ferðinni. Hafsteinn Þorgeirsson, golfvallakempa og vinur Gísla, kom mikið við sögu og fór fimlega á milli hugmynda hönnuðar og aðstæðna á vellinum. Trjásetning og staðsetning á glompum fór svolítið eftir stemningu hverju sinni.

Björn Sigurðsson.
Sláttuvélarnar sem notaðar voru á upphafsárum klúbbsins voru án efa ekki framleiddar með þau átök í huga sem þeirra biðu á Úthlíðarvelli. Túnin sem brautirnar voru lagðar eftir voru mjög gróf, ójöfn og snarrótin var mikil.

Gróðursetning við Úthlíðarvöll hófst strax samhliða uppbyggingu vallarins. Fjöldi plantna var fluttur frá Kirkjubæjarklaustri og fæstar þeirra lifðu það af. Nokkrar þeirra stóðu samt af sér ferðalagið og eru til mikillar prýði við 7. braut. Reglulega hefur verið gróðursett í gegnum árin og setur það mikinn svip á völlinn. Fyrstu sandglompur voru teknar á fyrsta vinnudegi sem haldinn var 1995 og sumum fannst nóg um.

Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands, veitti fjórum félagsmönnum GÚ heiðursmerki fyrir framlag þeirra til golfíþróttarinnar. Frá vinstri:  Rúnar J. Árnason, Þorsteinn Sverrisson, Björn Sigurðsson og Hjörtur Fr. Vigfússon og fengu þeir allir gullmerki GSÍ.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ