GSÍ fjölskyldan
Auglýsing

Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, og Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, stóðu uppi sem sigurvegarar í VitHit Vormóti GÞ. Þetta var annað mótið á GSÍ mótaröðinni í sumar og voru leiknar 36 holur yfir helgina.

Fyrirkomulag mótsins var breytt punktakeppni, og stigagjöfin eftirfarandi:

  • Albatross: 8 punktar
  • Örn: 5 punktar
  • Fugl: 2 punktar
  • Par: 0 punktar
  • Skolli: -1 punktur
  • Tvöfaldur skolli eða verra: -3 punktar

Fyrri keppnisdagur

Veðrið lék við kylfinga á fyrri keppnisdegi VitHit Vormóts GÞ. Þvert á veðurspá fyrr í vikunni var logn og blíða á Þorlákshöfn í dag. Völlurinn er einnig í flottu standi svo það voru svo gott sem fullkomnar aðstæður til að spila golf.

Fyrirkomulagið í dag var ProAm mót þar sem tveir almennir kylfingar léku með tveimur kylfingum úr GSÍ mótinu. Í Vormótum er fyrirkomulagið breytt punktakeppni, en stigagjöfina má sjá hér að ofan.

Mikil gleði var á vellinum í dag og skorið eftir því.

Í karlaflokki var það Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, sem lék best, en hann fékk 15 punkta á hringnum. Einn örn, sex fuglar og tveir skollar skiluðu honum efsta sætinu. Sigurður var einn af fimm kylfingum í karlaflokki sem fengu örn á hring dagsins, en ernir geta skipt sköpum í breyttu punktakeppninni.

Á eftir Sigurði er Arnór Tjörvi Þórisson, GR, sem lék á 14 punktum. Arnór fékk flesta fugla allra kylfinga í dag, eða níu talsins.

Jafnir í þriðja sæti eru Tómas Hjaltested, GR, og Kristófer Karl, GM. Tómas varð annar í Vormóti GM um síðustu helgi og hefur því sumarið af krafti. Kristófer fékk örn á níundu holu eftir frábært teighögg á par 4 holunni.

Í kvennaflokki er Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, efst eftir fyrri keppnisdag. Hún er tólf punktum á undan öðru sætinu, en Heiðrún lék gott golf í dag og lauk leik með 8 punkta.

Heiðrún fékk bæðir flest pör og flesta fugla í kvennaflokki.

Skor Heiðrúnar

Á eftir Heiðrúnu koma Katrín Hörn, GKG, og Hafdís Alda, GK, á -4 og -5 punktum. Það verður hart barist um verðlaunasætin á morgun.

Guðrún Birna Snæþórsdóttir var eini kylfingurinn í kvennaflokki sem fékk örn. Það gerði hún á 9. holunni, sem spilaðist ein af erfiðari holum dagsins.

Seinni keppnisdagur

Veðrið var íslenskt á seinni keppnisdegi mótsins. Sól, rigning, logn, vindur, heitt og kalt til skiptis. Meirihluta dags var veðrið þó flott, og skorið eftir því.

Í karlaflokki var spenna fram á síðustu holu. Erfiðara reyndist að skora völlinn í dag, en meðalskor dagsins var um tveimur höggum hærra en í gær.

Í kvennaflokki var skorið enn betra í dag og hörð samkeppni um verðlaunasæti.

Úrslit karla

Í karlaflokki stóð Sigurður Bjarki Blumenstein, GR, uppi sem sigurvegari með 26 punkta. Hann var efstur eftir fyrri keppnisdaginn og lék aftur best á seinni deginum. Hann skilaði í dag hring upp á ellefu punkta, fjóra á fyrri níu og sjö á seinni. Sigurður var jafn með næstbesta meðalskorið á bæði par 3 og par 4 holunum um helgina, og var jafn með besta meðalskorið á par 5 holum. Stöðugt og gott golf hjá Sigurði.

Þremur punktum á eftir Sigurði var Tómas Eiríksson Hjaltested, GR. Tómas var jafn með flesta fugla allra í mótinu, fjórtán talsins, en hann var einnig með flesta fugla í Vormóti GM. Tómas og Sigurður Bjarki skiptust á að halda forystunni í gegnum seinni hringinn, og var spennandi að fylgjast með. Tómas endaði einnig í öðru sæti á Vormóti GM um síðastliðna helgi.

Arnór Tjörvi Þórsson, GR, varð þriðji með 19 punkta. Hann fékk, líkt og Tómas, fjórtán fugla í mótinu. Góður árangur í 36 holu móti.

Tómas Sigurður og Arnór
SætiKylfingurKlúbburPunktar
1Sigurður Bjarki BlumensteinGR26
2Tómas Eiríksson HjaltestedGR23
3Arnór Tjörvi ÞórssonGR19
4Hjalti Hlíðberg JónassonGKG18
T5Viktor Ingi EinarssonGR16
T5Kristófer Orri ÞórðarsonGKG16
7Ólafur Marel ÁrnasonNK14

Úrslit kvenna

Í kvennaflokki sigraði Heiðrún Anna Hlynsdóttir, GOS, með yfirburðum. Hún endaði mótið með 16 punkta og spilaði báða hringi mótsins á 8 punktum. Heiðrún fékk 11 fugla í mótinu og spilaði báða hringina undir pari vallar.

Á eftir Heiðrúnu var Hafdís Alda Jóhannsdóttir, GK. Hafdís var í þriðja sæti fyrir seinni keppnisdaginn, en stöðug spilamennska skilaði henni silfrinu. Hún lék báða sína hringi á -5 punktum, og fékk flest pör allra í kvennaflokki, eða 22 talsins. Góður Árangur hjá Hafdísi Öldu.

Una Karen Guðmundsdóttir, GKG, hafnaði í þriðja sæti. Hún lék sína hringi á -10 og -5 punktum, en þrír fuglar í dag skiluðu henni mikilvægum punktum í baráttunni um þriðja sætið.

Hafdís Heiðrún og Una
SætiKylfingurKlúbburPunktar
1Heiðrún Anna HlynsdóttirGOS16
2Hafdís Alda JóhannsdóttirGK-10
3Una Karen GuðmundsdóttirGKG-15
4Erla Marý SigurpálsdóttirGM-17
5Guðrún Birna SnæþórsdóttirGK-20
6Katrín Hörn DaníelsdóttirGKG-21
7Erla Rún KaaberGOS-22
8Gunnhildur Hekla GunnarsdóttirGKG-36

Tölfræði

Keppendur voru alls 42, sem var hámarksfjöldi í mótið. Koma þeir frá 9 klúbbum víðs vegar af landinu.

Í karlaflokki voru 34 keppendur. Meðalforgjöf í karlaflokki var +2, sú lægsta +5.3 og sú hæsta 0.7. Fimmtán kylfingar voru með +2 eða lægra í forgjöf. Sigurvegari Vormóts GM, Andri Már Óskarsson var á meðal keppenda. Einnig mættu Tómas Eiríksson Hjaltested og Aron Emil Gunnarsson, sem voru í verðlaunasæti á síðasta móti.

Í kvennaflokki voru 8 keppendur. Meðalforgjöf keppenda var 2.9, sú lægsta +1.1 og sú hæsta 7. Engin af efstu fjórum keppendunum úr Vormóti GM tók þátt þessa helgina.

GR átti flesta keppendur á mótinu eða 14 talsins, GK var með 8 keppendur og GKG með 7.

KlúbburKonurKarlarSamtals
GA011
GBO011
GK268
GKG347
GM134
GOS235
GR01414
GS011
NK011

Meðalskor mótsins voru 74.25 högg, 37.17 á fyrri 9 og 37.08 á seinni 9.

Sautjánda holan spilaðist léttust allra í mótinu, en meðalskorið á stuttu par 4 holunni var 3.72. Þar fengu kylfingar 1 örn, 28 fugla, 47 pör og einungis 7 skolla.

Erfiðasta holan var sú sjötta, en teighöggið reyndist kylfingum strembið. Einungis 5 fuglar fengust á þeirri holu. Þá voru 38 skor fengin upp á skolla eða verra á holunni.

Fyrstu stigin á stigalista GSÍ

Vormót GÞ var annað mót ársins á GSÍ mótaröðinni. Hér má sjá stöðu á stigalistum karla og kvenna.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ