Veigar Heiðarsson, GA, hefur í dag leik á U.S. Junior Amateur Championship mótinu sem fer fram á Trinity Forest og Brook Hollow völlunum í Texas næstu dagana.
Hægt er að fylgjast með skori hér
Mótið er það sterkasta í heimi fyrir kylfinga 18 ára og yngri, en Veigar er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur sér inn þátttökurétt í mótinu. Veigar komst beint inn í mótið vegna sterkrar stöðu sinnar á heimslista áhugakylfinga, en hann er einn af 100 efstu kylfingum heims í aldursflokknum. Aðrir kylfingar, á við Charlie Woods, sem er sonur Tiger Woods, þurftu að vinna sig inn á mótið í gegnum úrtökumót.
264 kylfingar taka þátt í höggleiknum, en leiknar verða 36 holur á fyrstu tveimur keppnisdögunum, 18 á hvorum vellinum. Efstu 64 kylfingar höggleiksins halda áfram í holukeppni. Laugardaginn 26. júlí fer úrslitaleikur mótsins fram, en þar verða leiknar 36 holur.
Á meðal kylfinga sem hafa unnið mótið eru:
- Tiger Woods x3
- Scottie Scheffler
- Jordan Spieth x2
- Min Woo Lee
- David Duval
Sigurvegari mótsins fær undanþágu í U.S. Open mótið á næsta ári, svo til mikils er að vinna.
Veigar leikur sinn fyrsta hring á Brook Hollow vellinum í dag. Við óskum honum góðs gengis í mótinu.