Golfsamband Íslands

Valdís Þóra náði sínum besta árangri – hársbreidd frá sigri á Spáni

Valdís Þóra Jónsdóttir.

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni á Akranesi var hársbreidd frá sigri á LET Access mótaröðinni en mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu. Mótið fór fram á Spáni og endaði Valdís Þóra í 2. sæti. Þetta er besti árangur Íslandsmeistarans 2017 á LET Access mótaröðinni.

Valdís og Emma Nilsson frá Svíþjóð voru jafnar fyrir lokahringinn á -5 samtals. Valdís byrjaði ekki vel á lokahringnum og var um tíma fimm höggum á eftir Nilsson. Frábær lokasprettur hjá Valdísi Þóru dugði ekki til og Nilsson fagnaði naumum sigri. Valdís lék hringina þrjá á -5 samtals (66-73-72) en Nilson var á -6 samtals.

„Ég byrjaði illa og Nilsson setti niður nokkur fuglapútt á meðan ég var í ruglinu Ég náði því svo til baka en á lokakaflanum komu engir fuglar hjá mér sem er svekkjandi. Mótið í heildina var í lagi. Fyrsti hringurinn var mjög góður, 2. hringurinn lélegur, og ég náði að halda skorinu í skefjum sem er jákvætt. Það sem skiptir mestu máli eru næstu þrjár vikur á LET Evrópumótaröðinni,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir við golf.is rétt í þessu.

Næstu mót hjá Valdísi fara fram í Abu Dhabi, Indlandi og Kína. Það er því mikil törn framundan hjá Skagakonunni sem er í harðri baráttu um að halda keppnisrétti sínum á LET Evrópumótaröðinni.

Eins og sjá má á skorkortunum hér fyrir neðan var ævintýraleg spenna á lokahringnum hjá Valdísi og Nilsson. Þær voru jafnar á -5 fyrir lokahringinn. Eftir 1. holuna var Valdís með eitt högg í forskot, en það snérist Nilsson í vil og eftir 6 holur var Valdís á -2 samtals og Nilsson á -7. Sá munur var til staðar eftir 8 holur. Á næstu fjórum holum náði Valdís Þóra að jafna við Nilsson og þær voru á -5 eftir 11 holur. Valdís fékk síðan sjö pör í röð en Nilsson tryggði sér sigurinn með því að fá fugl á 15.

Staðan:

Mótið fór fram við Valencia á Spáni, Santander Golf Tour, og verða leiknar 54 holur á þremur kepnisdögum 25.-27. okt.

Nánar hér um mótið á Spáni: 

Valdís fer síðan beint til Abu Dhabi á þar sem að mót á LET Evrópumótaröðinni fer fram 1.-4. nóvember.

Nánar hér um mótið í Abu Dhabi: 

 

 

Exit mobile version