Valdís Þóra Jónsdóttir er úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í golfi. Mótið fer fram á Trump National Golf Club, Bedminster, N.J. og stendur það yfir í fjóra daga. Valdís lék á 75 höggum í dag eða +3 og var samtals á +9 (78-75).
Valdís mætti eldnsnemma í morgun til þess að ljúka við fyrsta hringinn en hún átti eftir þrjár holur frá því í gær þegar keppni var frestað vegna myrkurs. Valdís lék fyrsta hringinn á 78 höggum eða +6. Valdís lék síðan á 75 höggum í dag eða +3 þar sem hún sótti mjög grimmt að fá fugla til þess að freista þess að komast í gegnum niðurskurðinn.
Viðtal við Valdísi er hér fyrir neðan:
Viðtal við Hlyn Geir Hjartarson þjálfara Valdísar sem var aðstoðarmaður hennar á mótinu.
Mikið þrumuveður setti keppnishaldið úr skorðum eftir hádegi á fyrsta keppnisdeginum þegar Valdís hafði leikið 7 holur þá var keppni frestað um tíma. Valdís var á þeim tíma á 6 höggum yfir pari eftir að hafa lent í ýmsum erfiðleikum á fyrstu sjö holunum. Hún nýtti tímann vel þegar hlé var gert á keppninni og þegar hún hóf leik á ný fékk hún átta pör í röð.
Tweets by @Golfsamband
„Eftir frábært teighögg á 1. holu þá gekk hreinlega allt á afturfótunum, nokkur slæm teighögg til hægri sem enduðu í mjög þungu röffi gerði okkur lífið leitt. En síðan datt Valdís Þóra Jónsdóttir í gírinn á 8.holu frábært teighögg og þá vorum við flautuð inn vegna þrumuveðurs. Við náðum að ræða málin vel og fórum síðan út og Valdís spilaði mjög gott golf. Valdís púttaði mjög vel en því miður duttu þau ekki í dag. Á morgun fáum við að spila 21 holu svo það er nóg eftir,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson þjálfari og aðstoðarmaður Valdísar eftir fyrsta keppnisdaginn.
Valdís er í 137. sæti eins og staðan er núna en hún á eftir að leika þrjár holur eldsnemma á föstudaginn til þess að ljúka við fyrsta hringinn. Valdís er á +6 samtals og miðað við stöðuna þá þarf hún að vera í kringum 3-5 yfir pari eftir 36 holur til þess að eiga möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn.
Það má segja að fyrsta holan hafi gefið tóninn fyrir byrjunina hjá Valdísi á fyrsta hringnum. Fyrsta höggið var gott en hún sló síðan í brautarglompu í öðru högginu og átti um 70 metra eftir inn á flötina á par 5 holunni.
Valdís skildi boltann eftir í um 30 metra fjarlægð eftir þriðja höggið. Hún vippaði glæsilega inn að holunni og boltinn small í stönginni og skaust 7-8 metra til baka. Þar missti hún naumlega púttið fyrir parinu og fékk skolla. Hún fékk par á 2. holu en tapaði höggum á 3., 5., og 7. Á 6. brautinni sló Valdís í vatnstorfæru úr brautarglompu og tapaði þar tveimur höggum.
Valdís sagði í gær að hún hefði haft gott af hléinu sem gert var á mótinu vegna þrumuveðursins. Hún hafi ekki slegið boltann af nógu miklu öryggi fyrstu 7 holurnar – og öryggið var ekki til staðar í upphafshöggunum.
Mótið er eitt af fimm risamótum hvers árs á LPGA mótaröðinni og komst Valdís inn í mótið með góðum árangri á úrtökumóti sem fram fór á Englandi í júní.
Valdís Þóra er í ráshóp með Yan Liu frá Kína og áhugakylfingnum Dylan Kim í ráshóp fyrstu tvo dagana. Þær hefja leik kl. 14:20 að staðartíma eða 18:20 að íslenskum tíma. Á föstudaginn hefja þær leik kl. 8:35 að staðartíma eða 12:35 að íslenskum tíma.
Golfsambandið mun fylgjast með gangi mála hjá Valdísi í dag og miðla upplýsingum á Twittersíðu GSÍ hér fyrir neðan.
Hlynur Geir Hjartarson, þjálfari Valdísar Þóru, verður kylfuberi hennar í mótinu en hann er jafnframt einn af þjálfurum hennar. Tómas Freyr Aðalsteinsson, íþróttasálfræðingur, er einnig í þjálfarateymi Valdísar og er hann mættur á keppnissvæðið til aðstoðar.
„Við förum inn í mótið með það að markmiði að slá eitt högg í einu og njóta þess að vera á einu stærsta golfmóti heims. Völlurinn ætti að henta Valdísi vel, hann er að sjálfsögðu mjög erfiður með háum karga og hraðinn á flötunum er gríðarlegur. Bara alveg eins og við mátti búast á US Open velli,“ segir Hlynur Geir en mótið fer fram á einum af mörgum golfvöllum sem eru í eigu Donald Trump Bandaríkjaforseta. Búist er við því að hann mæti á svæðið og er öryggisgæslan á vellinum gríðarleg að sögn Hlyns.
„Umgjörðin um þetta mót er engu lík og ekkert sem við Valdís höfum upplifað áður. Þetta er allt mjög stórt. Við höfum náð góðum æfingum hérna og leikið æfingahringi – þar sem Valdís sló fullt af góðum höggum,“ sagði Hlynur Geir Hjartarson þjálfari og aðstoðarmaður Valdísar Þóru Jónsdóttur við golf.is í gær.