07/02/2018. Ladies European Tour 2018: ActewAGL Canberra Classic, Royal Canberra Golf Club, Canberra, ACT, Australia. February 9-11 2018. Valdis Jonsdottir of Iceland during the Wednesday practice round. Credit: Tristan Jones
Auglýsing

Valdís Þóra varð þriðja á LET Evrópumótaröðinni í Ástralíu – Ólafía Þórunn í 14. sæti

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni jafnaði besta árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á sterkustu mótaröð Evrópu með því að enda í þriðja sæti á Ladies Classic Bonville mótinu sem fram fór í Ástralíu. Valdís Þóra lék hringina fjóra á -7 samtals eða 281 höggi (69-70-72-70).

Celine Boutier frá Frakklandi sigraði á þessu móti á -10 og Katie Burnett frá Bandaríkjunum varð önnur á -8. Þetta er í annað sinn sem Boutier fagnar sigri á LET Evrópumótaröðinni.

Mikil úrkoma setti svip sinn á lokaumferðina. Fresta þurfti keppni í tæplega 4 tíma vegna þrumuveðurs. Valdís Þóra var á þeim tíma á 14. holu. Völlurinn þornaði mjög fljótt þegar sólin fór að skína á ný rétt fyrir kl. 17 að staðartíma

Valdís Þóra átti sjálf besta árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á sterkustu mótaröð Evrópu en Valdís varð í þriðja sæti á LET Evrópumótaröðinni í Kína á síðasta ári.

Fyrir árangurinn á þessu mót fær Valdís Þóra rúmlega eina milljón kr. í verðlaunafé. Valdís er í 6. sæti peningalistans á LET Evrópumótaröðinni að þremur mótum loknum. 

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR endaði í 14. sæti á þessu móti en hún vann sig jafnt og þétt upp skortöfluna eftir erfiða byrjun. Ólafía lék hringina fjóra á 288 höggum eða á pari vallar (80-70-67-71). Ólafía var á +8 eftir fyrsta hringinn en lék næstu þrjá hringi á -9 samtals þar af -5 á þriðja hringnum sem var besti hringur dagsins. Ólafía Þórunn fékk um 320.000 kr. fyrir árangur sinn á þessu móti. Ólafía er í 43. sæti peningalistans eftir þetta eina mót hennar á LET Evrópumótaröðinni. Íþróttamaður ársins 2017 er sem kunnugt er með keppnisrétt á LPGA mótaröðinni og leikur hún aðeins á nokkrum mótum á LET Evrópumótaröðinni á þessu ári.

Þetta er í fyrsta sinn sem tveir keppendur frá Íslandi eru á meðal 15 efstu á móti á sterkustu mótaröð Evrópu. 

Ólafía Þórunn slær af teig á mótinu í Ástralíu Mynd Tristan Jones

Nánar um mótið hér: 

Og einnig hér. 

Þannig var staðan á vellinum á lokahringnum þegar þrumuveðrið stóð yfir Tristan Jones

Mótið er eins og áður segir hluti af LET Evrópumótaröðinni sem er næsta sterkasta atvinnumótaröð í heimi. Valdís og Ólafía kepptu í síðustu viku á LPGA móti í Ástralíu. Það var í fyrsta sinn sem tveir keppendur frá Íslandi kepptu á sterkstu mótaröði í heimi. Valdís Þóra vann sér inn keppnisrétt á því móti með því að komast í gegnum úrtökumót á mánudeginum fyrir mótið. Ólafía Þórunn er með keppnisrétt á LPGA mótaröðinni.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ