Ungir og framtakssamir kylfingar Golfklúbbs Akureyrar stóðu á dögunum fyrir golfmaraþoni, þar sem markmiðið var að safna fyrir æfingaferð og golfmótum sumarsins.
Leikið var í heilan sólarhring í innanhúsaðstöðu klúbbsins og stefndi hópurinn á að leika þar 400 holur. Þau gerðu gott betur og léku 747 holur á 41 golfvelli víðsvegar um heiminn. Þá hélt hópurinn einnig utan um fjölda fugla, en þeir urðu áttatíu og fjórir í heildina, ásamt einum erni.

Meðlimum klúbbsins, sem og öðrum áhugasömum, var boðið að mæta á svæðið og slá þrjá bolta á hundrað metra holu fyrir 2.000kr. Veitt voru verðlaun fyrir þann sem endaði næst holu, ásamt því að verðlaun að verðmæti 300.000kr voru í boði fyrir að fara holu í höggi.
Margir komu og létu á þetta reyna, en enginn fór holu í höggi. Þó munaði einungis þrjátíu sentimetrum að Ottó Hólm hefði slegið draumahöggið. Skemmtilegt uppbrot hjá krökkunum í Golfklúbbi Akureyrar.



