Forskot, afrekssjóður íslenskra kylfinga, hélt sitt árlega golfmót við frábærar aðstæður á hinum glæsilega Nesvelli s.l. Miðvikudag. Þar mættu til leiks fulltrúar frá þeim fyrirtækjum sem standa að Forskoti. Áður en mótið hófst fór Úlfar Jónsson landsliðsþjálfari yfir helstu verkefni hjá afrekskylfingum sem fá styrk þetta árið og stöðuna hjá þeim á þessum tíma ársins. Einnig var farið yfir markmið sjóðsins sem var stofnaður með það að markmiði að styðja við þá kylfinga, atvinnumenn sem og áhugamenn, sem stefna á að komast í fremstu röð í golfíþróttinni.
Sjóðurinn var settur á laggirnar þann 12. júlí 2013 af Eimskip, Valitor, Golfsambandi Íslands, Íslandsbanka og Icelandair Group. Tryggingafélagið Vörður bættist í hópinn á þessu ári og eru fyrirtækin því fimm sem standa á bak við Forskot ásamt Golfsambandi Íslands.
Leikfyrirkomulagið var Texas Scramble þar sem afrekskylfingarnir Birgir Leifur Hafþórsson (GKG), Þórður Rafn Gissurarson (GR), Gísli Sveinbergsson (GK), Haraldur Franklín Magnús (GR), Berglind Björnsdóttir (GR) og Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) léku með liðunum í mótinu.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR), Valdís Þóra Jónssdóttir (GL), Birgir Leifur Hafþórsson (GKG), Þórður Rafn Gissurarson (GR) og Axel Bóasson (GK) eru þeir kylfingar sem Forskot, afrekssjóður styrkir á þessu ári.