Auglýsing

Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari er ánægður með æfingar afrekshópa í vetur og vor en vill að kylfingar athugi vel þjálfunarmál þegar þeir fara í háskólanám í Bandaríkjunum. Úlfar segir í viðtali sem er að finna í nýjasta tölublaði Golf á Íslandi að hann hefði viljað sjá meiri framfarir hjá ýmsum kylfingum eftir háskólagolf.

„Æfingar hafa gengið vel hjá flestum í afrekshópi GSÍ í vetur og kylfingarnir eru spenntir fyrir keppnistímabilinu sem er að hefjast. Við vorum með æfingabúðir á Akranesi núna í byrjun maí, og það var mjög ánægjulegt að komast út og sjá hópinn spila. Það voru fínar aðstæður seinni daginn, gott veður og Garðavöllur mjög góður. Fyrri daginn var leiðindaveður og kalt, en það er ákveðinn lærdómur í því sem krakkarnir þurfa að taka frá slíkum degi. Það verða eflaust nokkrir mótsdagar í sumar þar sem mun rigna og blása, og þá skiptir hugarfarið og þrautseigjan miklu máli.

Kylfingar í afrekshópi GSÍ hér heima hafa mætt í æfingabúðir okkar mánaðarlega, æft með sínum klúbbum í vetur og farið í 1-2 æfingaferðir erlendis. Æfingaferðirnar skipta mjög miklu máli fyrir kylfingana og það er mjög jákvætt að nokkrir klúbbar eru farnir að bæta þar í og fara jafnvel í tvær ferðir á veturna,“ sagði Úlfar Jónsson, landsliðsþjálfari þegar hann var spurður út í gang mál í upphafi sumars.

Vantar meiri framfarir

„Háskólakylfingarnir í Bandaríkjunum búa við betri aðstæður til æfinga og eru í keppnum frá september fram í maí. Haraldur Franklín hefur leikið mjög vel á vorönninni, hann sigraði í einu móti og var þrisvar sinnum að auki meðal tíu efstu. Feykilega góður árangur hjá honum og hann er lang efstur Íslendinga á heimslista áhugamanna. Guðrún Brá hefur einnig leikið mjög vel á sinni fyrstu önn í háskólagolfinu og sigraði á sterku móti fyrir stuttu. Þetta er frábær árangur hjá þeim og er mikil hvatning fyrir þau sjálf sem og aðra unga kylfinga. Við þurfum á kyndilberum og góðum fyrirmyndum að halda og þau hafa svo sannarlega sýnt gott fordæmi með frábærum árangri.“

„Heilt yfir þá hefði maður viljað sjá meiri framfarir undanfarin ár hjá ýmsum kylfingum sem hafa lagt stund á háskólagolf í Bandaríkjunum. Oftast nær þá hafa kylfingarnir góða æfingaaðstöðu og geta spilað allt árið, sem er nýtt fyrir kylfinga sem hafa alist upp á Íslandi. Þjálfun er stundum ábótavant í skólunum og sumir kylfingar þróast ekki nægilega vel tæknilega.

Leikálagið er mikið, hvort sem um er að ræða mót eða keppnir til að komast í liðið, þannig að leikmenn fá ekki mikinn tíma til að þróa og bæta sína tækni. Það er mín skoðun að íslenskir kylfingar sem stefna á háskóla eiga að hafa það í forgangi að fara í skóla þar sem boðið er upp á góða umgjörð með hæfum PGA þjálfurum.

Einnig er vert að skoða skóla sem eru í miðvesturríkjunum, þar sem tímabilið er ekki eins langt, en á móti kemur þá tími og friður til að vinna betur í tæknilega hlutanum, sem og líkamlega og sálræna þættinum. Ég hef það á tilfinningunni að þessum hlutum sé betur sinnt í fremstu skólunum á þessu svæði, og gæti hentað okkur Íslendingum betur. Ég hef skoðað nokkra skóla t.a.m. í Illinois, Ohio, Minnesota, og þar er æfingaaðstaðan, bæði innanhúss og utan fyrsta flokks, og umgjörðin er afar góð.“

Stór verkefni erlendis

Hver eru helstu verkefni landsliðanna í ár? „Í fyrra unnum við okkur inn þátttökurétt á Evrópumót karla sem leikið verður í Finnlandi og pilta í Noregi. Kvennalandsliðið mun keppa á EM í Slóveníu. Auk þess munum við senda lið á HM kvenna í Japan í haust. Þetta eru stór verkefni og klára nánast fjárhag afrekssviðsins. Einnig munum við senda 2-3 kylfinga á EM einstaklinga, European Young Masters og Junior Open, sem er fyrir 16 ára og yngri, sem og Duke of York fyrir Íslandsmeistara 17-18 ára pilta og stúlkna. Þess utan styrkjum við kylfinga á mót eins og breska áhugmannameistaramót karla og kvenna, þar sem Haraldur Franklín stóð sig vel í fyrra. Við veitum styrki á ýmiss mót sem uppfylla ákveðin skilyrði, t.a.m. munu 17 unglingar 16 ára og yngri taka þátt í Finnish Junior mótinu í lok júní. Það er líka gaman að segja frá því að Gísli Sveinbergsson og Fannar Ingi Steingrímsson munu taka þátt í German Boys mótinu, sem er gríðarlega sterkt, en við höfum ekki getað sent á þetta mót undanfarin ár þar sem kylfingar hafa ekki náð forgjafarlágmörkum, þannig að okkar fremstu kylfingar hafa sýnt framfarir og ég er mjög bjartsýnn á gott gengi í sumar.“

Mikill áhugi hjá kylfingum

Hvað með atvinnumennina okkar? „Ólafur Björn hefur reynt við úrtökumót fyrir kanadísku og rómönsku mótaraðirnar en komst ekki í gegn. Hann er mjög metnaðarfullur og stefnir alla leið. Þetta er brött brekka og mikil samkeppni, en þetta er hans ástríða og ekkert annað sem kemst að hjá honum.

Það þarf mikla einurð og þrautseigju til að komast alla leið í atvinnumennsku, sem og fjárhagsstuðning, enda er þetta mjög dýr útgerð. Það var mikil lyftistöng fyrir íslenskt golf þegar Forskot var stofnað, en sjóðurinn styrkir okkar allra fremstu kylfinga í baráttunni í atvinnumennskunni.“

„Birgir Leifur stefnir að þátttöku um mánaðamótin í Áskorendamótaröð Evrópu, sem og Nordea Norðurlandamótaröðinni í sumar, áður en hann reynir við úrtökumótin fyrir evrópsku mótaröðina í haust. Hann er okkar fremsti kylfingur og það vantar mjög lítið upp á að hann fari alla leið. Hann er í mjög góðu formi líkamlega og sveiflan lítur mjög vel út. Hann þarf einfaldlega að nýta tækifærin sem hann fær á þessu ári.“
„Loks er Valdís Þóra að hefja sinn atvinnumannaferil núna þessa dagana, en hún er með keppnisrétt á LET Access mótaröðinni, sem er næsta deild fyrir neðan evrópsku LPGA mótaröðina. Hún hefur æft vel í vetur og það verður spennandi að fylgjast með henni á keppnistímabilinu.“

Eitthvað að lokum? „Ég vil óska kylfingum landsins gleðilegs golfsumars. Maður finnur fyrir miklum áhuga hjá kylfingum sem hafa beðið óþreyjufullir eftir að komast á vellina. Ég er mjög bjartsýnn á að þetta verði virkilega gott og skemmtilegt golfár.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ