Ólafía Þórunn Krisitnsdóttir. Mynd/Tristan Jones
Auglýsing

„Á þessum tímapunkti er ég þakklát fyrir að vera með margt gott fólk í kringum mig. Thomas Bojanowski kærastinn minn hefur staðið eins og klettur við hlið mér. Fjölskyldan mín er frábært stuðningsnet og þjálfarateymið mitt hefur einnig stutt vel við bakið á mér,“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við Golf á Íslandi.

Tímabilið á LPGA-mótaröðinni, sterkustu mótaröð heims, var lærdómsríkt hjá íþróttamanni ársins 2017. Ólafía Þórunn verður með takmarkaðan keppnisrétt á LPGA á næsta tímabili en hún er ákveðin í að halda áfram að klífa fjallið og ná á toppinn.

„Tímabilið var lærdómsríkt og það er undir mér komið að taka það með mér sem ég get lært af þessu. Ég mun örugglega gera hlutina öðruvísi og aðalatriðið fyrir mig er að ná betra jafnvægi á milli keppni og hvíldar.“

Ólafía náði ekki að vera í hópi þeirra 148 kylfinga sem fá fullan keppnisrétt á LPGA á næsta tímabili. Hún lék á alls 21 móti. Meðalskor hennar var aðeins 0,31 höggi hærra en á síðasta tímabili. Í harðri keppni á LPGA dugði það ekki til. Hún fór á lokaúrtökumótið á LPGA en niðurstaðan var að hún komst ekki í hóp þeirra sem héldu fullum keppnisrétti á mótaröðinni á næsta tímabili.

„Niðurstaðan eftir úrtökumótið á LPGA er í raun léttir fyrir mig. Það verður ekki eins mikið álag á næsta tímabili. Ég fæ tíma til að vinna mig úr þessari stöðu. Árið 2018 var árið þar sem ég missti af tækifæri að vera með fullan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni. Árið 2020 verður kannski árið þegar ég sigra á risamóti? Framtíðin er björt og ég trúi því að mér séu allir vegir færir þegar ég hef náð tökum á því sem ég þarf að gera. Ég sé þetta allavega svona fyrir mér, þetta er bara lítil hraðahindrun á löngum ferli þar sem eru endalausir möguleikar. Ég held áfram að klífa fjallið og slípa til þá hluti sem ég þarf að laga. Tölfræðin mín frá LPGA er til skoðunar hjá þjálfarateyminu. Ég veit hvað ég þarf að laga, púttin eru þar efst á forgangslistanum. Til þess að geta púttað vel þarf hausinn að vera í lagi. Ég ætla að byrja á því verkefni – og fá ferska byrjun á tímabilinu.“

Ólafía segir að undirbúningur hennar fyrir tímabilið hafi gengið vel og hún taldi sig vera klára í slaginn í janúar þegar keppnistörnin hófst.

„Undirbúningurinn fyrir tímabilið var góður að mínu mati. Ég fór til Flórída í Bandaríkjunum í janúar með þjálfarateyminu mínu. Þar æfði ég gríðarlega mikið og æfingarnar voru fjölbreyttar og skemmtilegar. Það var tilhlökkun að byrja tímabilið. Fyrsta mót ársins á Bahamaeyjum var í raun eins og tímabilið var í heild sinni. Ég spilaði vel á fyrsta hringnum en náði ekki að skora. Veðrið var brjálað og það var alltaf verið að fresta leik og byrja aftur. Ég var með bakið upp við vegg en náði fimm fuglum á síðustu sjö holurnar og komst áfram. Lokahringurinn var mjög góður og ég náði 26. sætinu – sem reyndist svo vera besti árangurinn á árinu.“  

Ólafía segir að hún hafi ekki gert miklar breytingar á golfsveiflunni á undirbúningstímabilinu.

„Ég var að vinna með sömu hlutina og áður. Í raun er ég alltaf að fínpússa það sem ég hef verið að vinna með í sveiflunni. Bæta sömu atriðin aftur og aftur og ég var ekki í einhverju breytingaferli með golfsveifluna á þessu tímabili. Ég æfði meira en áður og ég hef aldrei keppt svona mikið. Á fyrsta árinu mínu á LPGA tók ég þátt á öllum mótum sem ég hafði tök á. Á þessu ári ætlaði ég að velja betur og stjórna álaginu. Það tókst ekki nógu vel vegna þess að þótt ég sleppti móti og kæmi heim til Íslands fékk ég ekki hvíld. Þá fór ég á milljón að sinna öðrum hlutum og í rauninni eru vikurnar á Íslandi erfiðari en keppnisvika í Ameríku. Það er erfitt að taka ákvörðun um að sleppa móti, því þér líður eins og þú sért að missa af einhverju. En ég hef lært að það er í lagi að sleppa móti, því þegar sú vika sem þú sleppir kemur hugsar þú ekki um mótið sjálft og tekur keppnispásunni fagnandi. Það er gríðarlega mikilvægt að ná góðri hvíld og byggja sig frekar smátt og smátt upp fyrir næsta mót og allt sem fram undan er.

Það eru allir kylfingar að leita að hinu fullkomna jafnvægi í mótaskránni. Ég hef ekki hitt á það rétta en ég veit betur hvað ég ætla ekki að gera. Eitt af því sem ég þarf að prófa er að taka lengra frí þegar ég tek mér frí. Ein vika er ekki nóg. Ég sé að margir leikmenn sem þurfa að ferðast heim til Evrópu og leika á LPGA taka sér tvær vikur í frí þegar þær taka sér hvíld.“

„Var með storminn í fangið mest allt árið“

Ólafía dregur ekkert undan þegar hún segir frá því að tímabilið hafi reynst henni erfitt – og þá sérstaklega hvað andlega þáttinn varðar.

„Þetta ár var lærdómsríkt.  Ég var með storminn í fangið mest allt árið. Það er eitthvað sem ég ætla að læra af. Vinna úr þessu, taka góðu stundirnar með mér og vera jákvæð.“

Hún hefur hugsað mikið um hvað fór úrskeiðis og eitt af því sem hún dregur fram er að hún hafi ekki áttað sig á því hversu mikið álag var á henni undir lok síðasta árs.

„Lokamánuðirnir á árinu 2017 voru mjög erfiðir. Mikið af ferðalögum og flakk á milli heimsálfa. Ég fékk þann heiður að leika með úrvalsliði Evrópu á The Queens mótinu í Japan. Ég fékk að vita það rétt eftir langa keppnistörn á LPGA í Asíu. Ég fór því frá Asíu til Evrópu og aftur til baka á skömmum tíma. Mér fannst þetta ekkert mál á þeim tíma. Þegar ég fer að rýna betur í tímabilið þá sé ég að þessi mikla törn sat í mér. Ég var þreytt og ég ýtti þessu bara á undan mér. Beit á jaxlinn og gerði það sem ég þurfti að gera. Hvíldin verður aðalmálið fram á næsta ár. Ég mun æfa aðra hluti, njóta og komast í jafnvægi. Það voru margir litlir hlutir sem ég tók sjálf ekki eftir á tímabilinu sem ég er að átta mig á að voru hættumerki. Ragnar Már Garðarsson aðstoðarmaður minn tók t.d. eftir því að ég var farin að borða rosalega lítið. Ég var líka hætt að tala við meðspilarana og það er frekar ólíkt mér. Ég var alltaf þreytt, andlega og líkamlega. Á spilakvöldum með fjölskyldunni sofnaði ég bara upp úr þurru í miðju spili eitthvað sem ég geri aldrei. Þetta safnaðist því saman í einn stóran pakka sem ég þarf að vinna úr á næstu vikum og mánuðum.“

„Þarf að læra að vera mátulega kærulaus“

Ólafía Þórunn gerði margt á tímabilinu til þess að brjóta upp mynstrið og reyna að ná léttleikanum í golfið sitt á ný.

„Golfið má ekki vera eini þátturinn í lífinu ef það gerist þá spila ég ekki vel. Ef pressan er of mikil þá hættir maður að hafa gaman af þessu. Ég þarf að læra að vera mátulega kærulaus. Lífið þarf að vera eitthvað meira en golf. Ef maður nær góðu jafnvægi með þetta allt saman þá getur maður stækkað í íþróttinni og sem persóna. Það er verkefnið mitt á næstu mánuðum að koma mér á betri stað andlega og halda áfram að klífa fjallið og hafa gaman af þessu. Ég hef gert mjög margt skemmtilegt á tímabilinu. Og reynt að brjóta upp þessa hefðbundnu daga. Ragnar Már kenndi mér á píanó, ég fór í danstíma og badminton var einnig ofarlega á listanum hjá mér. Ég hefði örugglega verið enn þreyttari andlega ef ég hefði ekki gert allt þetta. Ég æfði badminton þegar ég var barn og ég ætla að gera meira af því í vetur áður en næsta tímabil hefst.“

 

Ólafía og Thomas Bojanowski Mynd Tristan Jones

„Þarf að vera meiri tækninörd“

Það er að mörgu að hyggja fyrir atvinnukylfinga og betri þekking á golfútbúnaði er eitt af því sem Ólafía Þórunn hefur sett á forgangslistann.

„Ég þarf að taka meiri ábyrgð á valinu á þeim útbúnaði sem ég fæ frá Callaway. Ég þarf að vita betur hvað ég vil og vera meiri „tækninörd“ á þessu sviði. Ég lærði mikið af reynslunni á þessu tímabili.

Ég þarf að taka meiri ábyrgð að „tékka“ betur á þeim kylfum sem ég fæ frá framleiðandanum. Ég treysti of mikið á aðra. Við erum mjög mörg á samning hjá Callaway og flækjustigið er töluvert þegar frábærir starfsmenn fyrirtækisins eru að sérsmíða kylfur fyrir okkur. Einn sér um þetta, annar sér um hitt, svo setur þriðji aðilinn kylfuna saman, fjórði aðilinn kemur kylfunum svo í hendurnar á 50 mismunandi leikmönnum.

Ég rakst tvisvar á vegg hvað þetta varðar á þessu tímabili. Ég fékk ekki alltaf nákvæmlega það sem ég taldi mig vera að fá í hendurnar. Sveifluþunginn var t.d. of mikil á fleygjárnunum sem ég fékk fyrir lokaúrtökumótið og tímasetningar í sveiflunni fóru úr skorðum. Ég skildi ekki af hverju ég var að pitcha og vippa svona illa. Þegar ég fékk loks útskýringuna þá skildi ég betur hvað var að angra mig. Ég var alltaf að grafa kylfuna í jörðina í þessum höggum sem hafa verið mín sterkasta hlið. Á lokaúrtökumótinu varð ég mjög vör við þetta á blautu undirlaginu og óöryggið gerði vart við sig í þessum höggum. Þetta ástand var eitthvað sem ég hafði ekki upplifað áður. Pútterinn sem ég var með í langan tíma hentaði mér ekki. Ég hafði beðið um styttri pútter og þar að auki breytt yfir í Rosemark-grip. Þar með fór allt jafnvægi kylfunnar úr skorðum. Hausinn var of léttur miðað við allt annað og ég fékk ekki tilfinningu fyrir því hvernig boltinn fór af stað. Ég fann ekki hvort pútterinn var lokaður eða opinn. Gaurarnir sem vinna fyrir Callaway vilja að sjálfsögðu gera allt fyrir okkur. Ég bið oftast um það sama og ég fékk síðast, það er hins vegar mín ábyrgð að ganga úr skugga um hvort ég hafi fengið allt það rétta. Ég verð að vita hvað ég vil, ekki gera ráð fyrir að kylfuframleiðendurnir setji allt inn í reikningsdæmið: Styttra skaft þýðir að við gefum henni þyngri púttershaus o.s.frv. Á þessu sviði ætla ég að gera betur og læra af þessum mistökum.“

„Í vandræðum með púttin allt tímabilið“

Eins og áður segir var meðalskor Ólafíu nánast það sama á þessu ári og því síðasta. Hvert einasta högg skiptir máli og púttin eru það sem Ólafía þarf að leggja mesta áherslu á.

„Ég veit ekki hversu mörg pútt ég tók á æfingasvæðinu en þau eru mörg þúsund. Ég æfði mest þann hluta leiksins en samt var ég í vandræðum með púttin allt tímabilið. Ég sá ekki línuna, var ekki með tilfinninguna fyrir því sem ég sá og púttaði því illa. Að vera góður í að pútta snýst að sjálfsögðu um æfingu en einnig andlegu hliðina. Mér leið ekki vel þegar ég stóð yfir boltanum. Andleg þreyta gæti verið hluti af skýringunni en ég þarf eins og áður segir að finna út úr þessu sjálf. Ragnar Már Garðarsson afrekskylfingur úr GKG kom á nokkur mót með mér sem aðstoðarmaður og kylfuberi. Það var mjög gott og gaman að vinna með Ragnari. Það var létt yfir þessu hjá okkur. Á Kingsmill-mótinu lék ég svo vel frá teig og inn á flöt, heimsklassa spilamennska sem hefði getað verið nógu góð til að sigra á mótinu. Ég lék á pari vallar á 36 holum og púttin voru vandamálið. Ég gerði líka mistök á 17. brautinni sem er mjög erfið hola. Ég gerði líka mistök árið áður á þessari braut. Ég man hvað mér leið undarlega eftir þetta mót, lék mjög vel en náði ekki að skora. Ég átti erfitt með að sætta mig við þessa niðurstöðu – að spila vel en ná ekki í gegnum niðurskurðinn. Á næsta móti á eftir, Volvik-mótinu, var það sama uppi á teningnum. Ég fór að verja stöðuna og var hrædd við lokaholurnar á öðrum keppnisdegi þar sem ég var við niðurskurðarlínuna. Ég gerði mistök á lokakaflanum, lék samt vel, en náði ekki í gegn. Ég reyndi að vera jákvæð og byggja mig upp fyrir næsta mót. Ég vann svo úr hræðslunni við lokaholurnar, sem betur fer. Spilamennskan toppaði þó aldrei þetta tímabil.“

Þakklát fyrir stuðninginn

Ólafía Þórunn fór á lokaúrtökumótið fyrir LPGA þar sem leiknir voru átta keppnishringir á alls 10 dögum. Hún var ánægð með undirbúninginn en það var á brattann að sækja.

„Foreldrar mínir búa á Pinehurst-vellinum þar sem mótið fór fram. Ég kom tveimur vikum fyrir mót og undirbúningurinn var í góðu lagi. Ég fann samt sem áður að ég var ekki á góðum stað með huglæga þáttinn. Það komu dagar þar sem ég var aðeins lengur í rúminu áður en ég fór út að æfa mig. Ég var samt dugleg, gerði allt sem ég gat, las bækur um ýmis málefni, borðaði vel og hvíldi mig. Gæðin voru til staðar en það vantaði samt gleðina. Sem dæmi nefni ég að fyrsta höggið á mótinu var á 10. teig sem er mjög erfitt upphafshögg. Ég var stressuð fyrir það högg – en það tókst samt mjög vel. Eftir þetta högg fann ég ekkert fyrir neinu stressi. Ég fékk sömu tilfinningu og allt tímabilið. Ég reyndi og reyndi en fékk ekkert til baka. Eftir fjórða hringinn af alls átta var gert tveggja daga hlé. Ég ræddi við íþróttasálfræðinginn minn eftir fjórða hringinn. Það var gott og ég fann smá baráttuanda og fann að mér leið betur og naut þess betur að spila. Það dugði ekki til. Þegar nær dregur lokamótunum á tímabilinu fer maður að hugsa meira um að koma sér í hóp 100 efstu til að tryggja sér fullan keppnisrétt. Ég var í þeirri stöðu síðustu mótin og það var í raun léttir þegar það stress var búið, þó svo að niðurstaðan þýddi lokaúrtökumótið. Þegar ég lít til baka í æfingadagbókina mína á lokakaflanum þá sé ég að ég var farin að telja niður dagana að þetta yrði bara búið. Ég taldi mig vera tilbúna fyrir lokaúrtökumótið en það reyndist ekki vera rétt. Ég var ekki á góðu stað með andlega hlutann,“ segir Ólafía Þórunn en hún er afar þakklát fyrir þann stuðning sem hún hefur fengið frá Íslendingum og ekki síst frá samstarfsaðilum sínum.

„Stuðnings- og samstarfsaðilar mínir hafa einnig gert mikið fyrir mig. KPMG á Íslandi hefur ákveðið að styðja áfram við bakið á mér þrátt fyrir að ég sé ekki með fulla aðild að LPGA á næsta ári. Það var mjög gott að koma til Íslands á góðgerðarmótið sem fram fór á Hvaleyrarvelli í sumar. Bláa lónið hefur einnig gert góða hluti fyrir mig. Svona get ég haldið áfram, afrekssjóðurinn Forskot hefur alltaf stutt mig og þeirra framlag er ómetanlegt fyrir íslenskt golf. Ecco, Rosemark-grip og Askja bílaumboð eru einnig á vagninum með mér. Íslendingar eru almennt jákvæðir í minn garð. Það sem mér þykir vænst um er að flestir taka mér eins og ég er, kunna að meta mig sem persónu en ekki bara að ég sé góð í golfi“ segir Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ