Auglýsing

Garðabær er að hefja byggingu á fjölnota íþróttahúsi á æfingasvæði GKG. Vegna þeirra  framkvæmda verður ekki lengur hægt að slá full högg á æfingasvæðinu. Vandamálið sem það felur í sér er leyst með notkun tækninnar.

Settir hafa verið upp Trackman golfhermar við hvern bás sem nema höggið og sýna boltaflugið á skjá. Kylfingar slá  sín högg og netbúr grípur boltann. Trackman hermirinn reiknar út hvernig golfhöggið er og sýnir ekki bara boltaflugið myndrænt heldur jafnframt högglengd (boltaflug og rúll) og nákvæmar upplýsingar um feril golfkylfunnar og stöðu kylfuhauss við högg.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá GKG.

Emanuel Frauenlob framkvæmdastjóri hjá Tackman hefur unnið náið með GKG í þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað hjá klúbbnum.

„Fyrir fimm árum síðan kynntist ég áformum GKG um að byggja innanhúss aðstöðu sem átti sér engan líka á þeim tíma. Það kom mér þægilega á óvart að sjá þessar áætlanir verða að veruleika. Með því skrefi sem GKG stígur núna verður klúbburinn með stærstu og tæknivæddustu innanhússaðstöðu allra golfklúbba í Evrópu. Þetta er jafnframt mjög áhugavert verkefni út frá því að erlendis er víða þrýstingur  á golfklúbba að losa land og umhverfissjónarmiðin eru mikilvæg. Uppsetning æfingasvæða með þessum hætti leysir þau mál. Þetta á einkum og sér í lagi við vegna þess hversu náið samstarfið er á milli GKG og Garðabæjar. Við hjá TrackMan erum stolt af því að vera tæknilegur samstarfsaðili í þessu verkefni“.

Gunnar Einarsson, bæjastjóri Garðabæjar er ánægður með þá útsjónarsemi sem beitt var við úrlausn mála.

„Við hjá Garðabæ erum mjög ánægð með þessa snjöllu lausn sem er i anda snjallvæðingar og skynsemi. Ég er sannfærður um að með tilkomu fjölnota íþróttahússins og frábærri aðstöðu GKG  verður Vífilsstaðasvæðið allt mjög eftirsóknarvert fyrir íbúðarbyggð og atvinnustarfsemi um leið og bætt aðstaða mun efla enn frekar allt líkams- og heilsuræktarstarf i Garðabæ”.

Þessi tæknivædda og framsýna lausn fyrir golfæfingasvæðið er mjög spennandi segir Björg Fenger, formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar.

„Ég er sannfærð um að tæknin muni efla og styrkja enn frekar hið mikilvæga og öfluga barna- og unglingastarf sem fram fer hjá GKG og jafnvel tengja kynslóðirnar enn betur saman. Jafnframt mun hún leiða til þess að hægt verður að stunda golf hjá GKG allt árið um kring en með því er verið að vinna að mikilvægu forvarnastarfi sem og heilsueflingu bæjarbúa á öllum aldri. En það er einmitt markmið Garðabæjar ásamt því að vinna að innleiðingu á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna“. 

Að sögn Agnars Más Jónssonar framkvæmdastjóra GKG er þetta farsæl lending fyrir GKG.

„Það eru þrjú ár frá því að Garðabær nálgaðist okkur með það að byggja fjölnota íþróttahús á æfingasvæðinu okkar. Á þeim tíma vorum við að taka í notkun golfherma innandyra sem hafa komið gríðarlega vel út bæði fyrir golfkennslu og spil. Til að bjarga sumrinu setjum við upp þessa utanhúss aðstöðu en strax í haust munum við einhenda okkur í að stækka Íþróttamiðstöðina okkar og þá verða þessir hermar færðir inn. Kylfingar geta þar af leiðandi æft hjá okkur hvernig sem viðrar í 20 stiga hita og logni. Þetta gjörbreytir allri vinnuaðstöðu golfkennara og minnkar slysahættu hjá kylfingum þar sem ekki þarf lengur að slá í frosnar mottur yfir vetrarmánuðina. Við verðum samtals með 25 golfherma í notkun hjá okkur“.


Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ