Auglýsing

Aðalfundur Golfklúbbs Suðurnesja fór fram í síðustu viku. Þar kom m.a. fram að stór hluti félagsmanna vill kanna sameiningu GS og Golfklúbbs Sandgerðis. Rekstur GS gekk vel en félagafjöldinn hefur verið nánast sá sami undanfarin ár eða um 470. Alls voru leiknir 18.083 hringir á Hólmsvelli á árinu, sem er 5,6% aukning frá árinu á undan (17.124 hringir).

Jóhann Páll Kristbjörnsson formaður GS sagði eftirfarandi á aðalfundinum í ræðu sem birt er á heimasíðu GS.

Góða kvöldið ágætu félagar.

Þá er komið því að ljúka þessu golfári formlega og halda aðalfund Golfklúbbs Suðurnesja. Aðalfundur markar endalok hvers golftímabils en á sama tíma upphaf þess næsta – eitthvað sem við öll getum látið okkur hlakka til.

Stjórn

Starfsárið 2015 var stjórn GS skipuð eftirfarandi félögum:

Jóhann Páll Kristbjörnsson, formaður

Hafdís Ævarsdóttir, varaformaður

Karitas Sigurvinsdóttir, gjaldkeri

Davíð Viðarsson, ritari

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, meðstjórnandi

Hilmar Björgvinsson, meðstjórnandi

Jón Ingi Ægisson, meðstjórnandi

Georg Arnar Þorsteinsson, varamaður

Ísak Ernir Kristinsson, varamaður

Sigurrós Hrólfsdóttir, varamaður

Vegna flutninga þurfti Davíð Viðarsson að láta af stjórnarstörfum á miðju tímabili og tók Sigurrós Hrólfsdóttir sæti hans í aðalstjórn og gegndi hún starfi ritara út tímabilið.

Ég vil þakka þeim Hafdísi, Jóni Inga og Davíð fyrir störf sín í stjórn GS en þau ljúka nú sinni stjórnarsetu … í bili að minnsta kosti.

Alls urðu fundir þessarar stjórnar 14 á tímabilinu, þ.e. bókaðir stjórnarfundir. En þessi stjórn hafði fastan fundartíma í fyrstu viku hvers mánaðar. Auk þeirra voru ófáir óformlegir fundir haldnir, ýmist þar sem öll stjórnin fundaði eða hluti hennar. Stjórnarfundi sátu aðalmenn, varamenn og framkvæmdastjóri, og voru þeir ávallt haldnir hér í golfskálanum í Leiru.

Samstarf stjórnar gekk vel á tímabilinu og var hún samstíga í ákvörðunum þeim sem voru teknar. Skiptst var á skoðunum eins og gengur og gerist í svona félagsskap, en ávallt komst stjórn að sameiginlegri niðurstöðu sem hún gat unað við.

Fyrstu verkefni þessarar stjórnar fólust í endurskipulagningu daglegs reksturs félagsins. Breyttar áherslur í starfsmannaskipan og rekstri hafa skilað þeim árangri sem til var ætlast að mati þess sem hér stendur og finnst mér nú vera komið ágætt jafnvægi á starfsemina.

Starfsmannamál

Í upphafi árs lét Gylfi Kristinsson af störfum hjá GS – en hann hefur, eins og flestir vita, starfað vel og lengi fyrir klúbbinn. Gylfi á miklar þakkir skildar fyrir farsælt og óeigingjarn starf í þágu Golfklúbbs Suðurnesja, sem vallarstarfsmaður, framkvæmdastjóri og nú síðast sem vallarstjóri. Ég vil þakka honum sérstaklega fyrir sitt framlag í gegnum tíðina – hans handbragð kemur til með að vera sýnilegt á Hólmsvelli um ókomin ár.

Stöður framkvæmdastjóra og vallarstjóra voru sameinaðar í eina og gegnir Gunnar Þór Jóhannsson nú stöðu framkvæmda- og vallarstjóra Golfklúbbs Suðurnesja. Ný staða umsjónarmanns golfvallar varð til við þessar breytingar og réð stjórnin Birki Þór Karlsson í það starf. Saman bera þeir tveir hitann og þungann af daglegum störfum GS allt árið um kring.

Með fyrstu verkum þessarar stjórnar var að ráða nýjan íþróttastjóra er Ingi Rúnar Gíslason sagði starfi sínu lausu í lok árs 2014. Úr hópi umsækjanda þótti Karen Sævarsdóttir hæfust í starfið og hefur hún skilað afar góðu verki á árinu – enda hefur Karen stórt og mikið GS-hjarta og gefur sig alla í störf sín fyrir klúbbinn. Karen hefur lagt sérstaka áherslu á okkar yngstu kylfinga og ég held að henni megi þakka að miklu leyti þá aukningu sem hefur orðið í barna- og unglingahópum félagsins – fjölgun sem sér ekki fyrir endann á. Karen gegnir einnig starfi golfkennara GS og hafa félagar verið duglegir að leita til hennar í ár.

Ofangreindir starfsmenn eru fastráðnir allt árið um kring, en auk þeirra vann fjöldi annara við hin ýmsu störf; vallarstarfsmenn voru níu og starfsfólk í golfskála og veitingasölu voru fimm, að auki komu tveir úr vinnuskólanum.

Fyrir hönd stjórnar og annara félaga í Golfklúbbi Suðurnesja vil ég þakka öllu þessu starfsfólki kærlega fyrir þeirra framlag á árinu.

Félagafjöldi

Fjöldi félaga í ár var 471 og hefur félagafjöldi nánast staðið í stað undanfarin ár. Fjöldi félaga skiptist í 348 karla og 123 konur. Aldursskipting var á þennan veg; 19 ára og yngri 47, 20 til 66 ára 334 og 67 ára og eldri 90.

Hólmsvöllur

Alls voru leiknir 18.083 hringir á Hólmsvelli á árinu, sem er 5,6% aukning frá árinu á undan (17.124 hringir).

Leiran var í mjög góðu standi í ár – og höfðu félagar og aðrir sem léku völlinn margoft orð á því við stjórnendur og starfsfólk. Vinnu við göngustíga var haldið áfram og er þeirri vinnu nú að mestu lokið. Almennt séð var Leiran mjög snyrtileg og vel við haldið í ár.

Mótamál

Mótshald fór heldur rólega af stað í ár, en í raun má segja að veðurfar í vor og byrjun sumars hafi heldur dregið úr mótagleði kylfinga. Fyrsta opna mót ársins var haldið þann 18. apríl og voru aðeins haldin tvo opin mót í vor (til sbr. voru haldin sex opin vormót í fyrra).

Fyrsta mót Eimskipsmótaraðarinnar fór fram á Hólmsvelli þann 23. maí, að auki var sveitakeppni 1. deildar kvenna leikin í Leirunni. Þá var eitt LEK-mót haldið í Leirunni í júní.

Í tengslum við bæjarhátíðir voru tvö mót haldin. Opna Sólseturhátíðarmótið haldið þann 24. júní, sveitarfélagið Garður styrkti það mót. Opna Ljósanæturmótið var haldið 6. september, það var Hótel Keflavík sem var bakhjarl þess. Bæði mótin voru vel sótt og tókust vel.

Þ-mótin urðu 12 á árinu, það fyrsta 12. maí og lokamótið 27. september.

Stigameistarar í Þ-mótaröð GS 2015 eru:

Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, stigameistari í höggleik án forgjafar

Björgvin Sigmundsson, stigameistari karla í punktakeppni með forgjöf

Gerða Kristín Hammer, stigameistari kvenna í punktakeppni með forgjöf

MasterCard-bikarinn var leikinn í ár. 32 efstu í einu Þ-mótanna komust áfram í 32 manna holukeppni sem var leikin út sumar og fram á haust. Að lokum stóð Elías Kristjánsson uppi sem sigurvegari, en hann hafði betur gegn Jóhannesi Ellertssyni í úrslitaviðureign.

Meistaramót GS fór fram í byrjun júlí. Sú breyting var gerð á fyrirkomulagi mótsins að í stað þess að dreifa mótinu á sex keppnisdaga var leikið í fjóra daga, hófst mótið á miðvikudegi og var leik lokið á laugardegi samkvæmt venju. Það er mat okkar að þetta fyrirkomulag henti mikið betur og sé sanngjarnara gagnvart keppendum.

Í Meistaramóti GS 2015 tóku 110 kylfingar þátt og tókst mótið afar vel að flestu leyti. Eina sem skyggði á var holustaðsetning á 10. flöt á fyrsta degi, en talsvert var kvartað undan henni við mótshaldara. Samkvæmt venju var haldið veglegt lokahóf í golfskálanum þar sem vinningshafar voru heiðraðir og félagar skemmtu sér saman.

Klúbbmeistarar Golfklúbbs Suðurnesja árið 2015 eru þau Guðmundur Rúnar Hallgrímsson og Heiður Björk Friðbjörnsdóttir.

Alls voru skráð 65 mót og útleigur á Hólmsvelli í sumar.

Heilidarþátttaka í mótum GS á árinu var 3347 manns (3358 árið 2014)

Sveitakeppnir

Það má segja að árið 2015 hafi ekki verið ár GS í sveitakeppnum. Við tefldum fram sveitum í efstu deildum karla, kvenna, öldunga karla og öldunga kvenna, auk tveggja unglingasveita.

Sveit GS í fyrstu deild karla var skipuð eftirtöldum: Birkir Orri Viðarsson, Björgvin Sigmundsson, Davíð Viðarsson, Geirmundur Ingi Eiríksson, Guðmundur Rúnar Hallgrímsson, Guðni Vignir Sveinsson, Sigurður Jónsson og Örn Ævar Hjartarson sem var jafnframt liðsstjóri.

Fyrsta deild karla var leikin í Borgarnesi og það varð niðurstaða að GS féll niður um deild.

Kvennasveit GS skipuðu þær: Karen Guðnadóttir, Heiður Björk Friðbjörnsdóttir, Zuzanna Korpak, Laufey Jóna Jónsdóttir, Kinga Korpak, Rut Þorsteinsdóttir, Elísabet Sara Cavara og Rakel Guðnadóttir, liðsstjóri var Karen Sævarsdóttir.

Kvennasveit GS lék á heimavelli og eftir tvísýna keppni við Golfklúbbinn Odd höfðu GS-stelpur betur og héldu þannig sæti sínu í efstu deild.

Sveitakeppni eldri kylfinga. Konurnar kepptu á Hellishólum og skipuðu eftirtaldar sveit GS: Ólafía Sigurbergsdóttir, Helga Sveinsdóttir, Magdalena S. Þórisdóttir, Hafdís Ævarsdóttir, Eygló Geirdal og Elín Gunnarsdóttir.

Því miður varð það hlutskipti GS að falla niður um deild.

Öldungar karla kepptu í Öndverðarnesi og skipuðu eftirtaldir sveitina: Elías Kristjánsson, Guðni Vignir Sveinsson, Jón Gunnarsson, Júlíus Jón Jónsson, Pétur Már Pétursson, Snæbjörn Guðni Valtýsson, Þorgeir Ver Halldórsson og Þorsteinn Geirharðsson.

GS endaði í 6. sæti sem er viðunandi árangur.

Það bar hæst að Guðni Sveinsson fór holu í höggi í keppninni, og var það í sjöunda sinn sem hann afrekar það.

Að auki sendi GS tvær sveitir af mögulegum fjórum í sveitakeppnir unglinga í ár og stefnum við á að eiga sveit í öllum flokkum að ári.

Barna-, unglinga- og afreksstarf

Margt gott var að gerast í barna- og unglingastarfi GS í ár. Það er mikið gleðiefni að sífellt er að fjölga í krakkahópnum og sjáum við fram á enn meiri fjölgun fyrir næsta sumar. Eins og staðan er í dag er aðstöðuleysi yfir vetrartímann að aftra okkur frá því að geta tekið á móti fleiri börnum og það stendur í vegi fyrir enn meiri fjölgun – það er þó vonandi aðeins tímabundið ástand.

Fámennur kjarni hefur stundað stigamót GSÍ, Íslandsbankamótaröðina, og miðað við fjölda keppenda úr GS er árangur okkar hreint glæsilegur. Birkir Orri Viðarsson lenti í 5. sæti í flokki 15-16 ára, sem er frábært sé tekið mið af því að hann er á yngra ári. Zuzanna Korpak, einnig á yngra ári í flokki 15-16 ára, endaði í 3. sæti. Þá varð Kinga Korpak í 3. sæti stigalista flokks 14 ára og yngri, og á hún ennþá nokkur ár eftir í flokknum. Kinga lenti einnig í 2. sæti Íslandsmótsins eftir bráðabana um fyrsta sætið og 3. sæti í Íslandsmeistaramóti í holukeppni 14 ára og yngri.

Hápunktur sumarsins er án efa afrek Zuzönnu Korpak, en hún varð Íslandsmeistari í holukeppni í ár.

Zuzanna, Kinga og Birkir Orri tóku öll þátt í landsliðsverkefnum í ár og kepptu þau fyrir hönd GS og Íslands á móti í Finnlandi í sumar auk þess að Birkir Orri tók þátt í móti í Hollandi í haust. Þá tóku þær systur, Zuzanna og Kinga Korpak, þátt í landsmóti í Póllandi í sumar.

Það var sannarlega frábær árangur hjá krökkunum okkar og er tilhlökkunarefni að fylgjast með þeim á næstu árum því keppendum GS mun aðeins fjölga og vonandi skila fleiri sigrum í hús.

Karen Guðnadóttir náði ekki að fylgja eftir frábæru tímabili síðasta árs, en þá stóð hún uppi sem stigameistari Golfsambandsins eins og menn muna. Karen byrjaði tímabilið í ár ekki nógu vel en rétti úr kútnum eftir því sem á leið og að lokum endaði hún í 5. sæti á stigalista GSÍ. Karen var valin í kvennalandslið Íslands og tók þátt í Smáþjóðaleikunum hér heima og Evrópumóti kvenna í Danmörku.

Öldungastarf

Öldunganefnd skipuðu Snæbjörn Guðni Valtýsson, formaður, Elías Kristjánsson og Magdalena Sirrý Þórisdóttir. Starf nefndarinnar er að mestu samþætt almennu starfi klúbbsins.

Þ-mótaröð GS og REK-mótaröðin er uppistaðan í starfi nefndarinnar ásamt þátttöku sveita

klúbbins í Íslandsmóti sveita eldri kylfinga.

REK-mótaröðin var leikin í þessari röð; Grindavík, Sandgerði, Leiran og Vogar. Eftir harða baráttu við okkur stóð GG uppi sem sigurvegari í liðakeppninni þar sem keppt er um farandgrip, REK-bikarinn, og titilinn Suðurnesjameistari eldri kylfinga.

Kvennastarf

Kvennanefnd skipuðu Ása Kristín Margeirsdóttir, formaður, Dagmar María Hrólfsdóttir, Elín Gunnarsdóttir, Guðrún Birna Guðmundsdóttir og Sigurrós Hrólfsdóttir. Það er óhætt að segja að kvennastarfið í golfklúbbnum blómstri. Kvenkylfingum fjölgar og þær eru duglegar að stunda sitt golf. Sérstakir kvennatímar hafa verið á mánudögum og þær eru duglegar að mæta í þá – og þær slá ekki slöku við, sama hvernig viðrar. Það er merkjanleg aukning í kvennatímana á mánudögum.

Kvennastarfið hófst formlega 22. apríl með vorgleði og mættu um 70 konur, sumarstarfið var kynnt og svo skemmtu þær sér saman hér í golfskálanum. GS konur tóku á móti kvennahópi úr Golfklúbbi Setbergs samkvæmt venju og endurguldu þær heimsóknina í sumar með ferð í Hafnarfjörðinn. Um 50 konur fóru í þá ferð. Árlegt 9 holu vinkonumót var haldið í Leirunni þar sem leikið er eftir Texas Scramble fyrirkomulagi.

Kvennagolfið er á uppleið í klúbbnum og augljóst er að gleðin er höfð að leiðarljósi í leik þeirra og starfi. Eitthvað sem við hin mættum oft á tíðum horfa til og taka til fyrirmyndar.

Viðhorfskönnun

Viðhorfskönnun var send á alla félaga í GS (sent á tölvupóstföng sem eru skráð á golf.is) og alls tóku 148 GSingar þátt í henni (75% karlar, 25% konur). Ég held að þetta verkfæri verði notað meira í framtíðinni til að kanna hug félaga og gera þá þannig að beinum þátttakendum í starfi og ákvörðunartöku sem viðkemur klúbbnum okkar. Niðurstöður könnunarinnar munu verða birtar í heild sinni á heimasíðu GS, gs.is, innan skamms. Almennt virðist vera ánægja með starfið í klúbbnum okkar; völlinn, starfsfólk, veitingasölu, mótahald o.þ.h. Tvennt stendur þó uppúr að mínu mati. 9 af hverjum 10 vilja sjá aukið samstarf klúbbanna hér á Suðurnesjum (t.d. í formi vinavallasamninga) og ¾ vilja kanna möguleika á að sameina GS og GSG. Þetta verður meðal verkefna næstu stjórnar og ég legg til að skipaður verði vinnuhópur sem fyrst til að huga að kostum og göllum við mögulegum samruna Golfklúbbs Suðurnesja og Golfklúbbs Sandgerðis.

Golfklúbburinn

Velta klúbbsins og afkoma í ár er ágæt, þó ber að taka fram að þetta er ekki auðveldur rekstur og stöðugt aðhald er nauðsynlegt. Við þurfum að leggja áherslu á fjölgun kylfinga, það er áhyggjuefni hve lítil nýliðun er í golfi í dag – sérstaklega hjá yngra fólki. Þetta á við um golf á heimsvísu, ekki bara í GS. Það gefur okkur þó tilefni til bjartsýni að fjölgun er hjá yngstu kylfingunum og merki um aukinn áhuga barna á golfi hjá okkur. Á þessu þurfum við að byggja, ungu kylfingarnir eru framtíð þessa klúbbs. Alvarlegt aðstöðuleysi til að stunda æfingar yfir vetrartímann er þó áhyggjuefni, en það er unnið stöðugt að því að finna hentuga æfingaaðstöðu og ég bind vonir við að viðunandi framtíðarlausn finnist fyrr en síðar.

Kylfingur ársins 2015 hjá Golfklúbbi Suðurnesja er Zuzanna Korpak. Hún sýndi miklar framfarir á árinu, endaði í 3. sæti stigalista GSÍ í sínum flokki og varð Íslandsmeistari í holukeppni GSÍ. Zuzanna tók þátt í landsliðsverkefnum á árinu og hefur sýnt að hún er afrekskylfingur framtíðarinnar.

Til hamingju Zuzanna og til hamingju GS.

Að lokum

Það er í mörg horn að líta í rekstri GS. Mörg verk falla til og sem betur fer erum við svo lánsöm að í klúbbnum er öflugur hópur sjálfboðaliða, þetta fólk er boðið og búið þegar þörf er á og verður þeim seint fullþakkað. Félagsskapur eins og okkar gæti aldrei gengið án aðkomu sjálfboðaliðanna. Þeir eru hryggjarstykkið í félaginu, burðarásinn, og án þeirra væri Golfklúbbur Suðurnesja ekki svipur hjá sjón. Þeir eru FÉLAGAR í Golfklúbbi Suðurnesja. Ég hvet alla GSinga til að taka virkan þátt í starfinu, það munar um hvert handtak.

Næg verkefni eru framundan og framtíðin er björt fyrir golfklúbbinn okkar.

Áfram GS!
Jóhann Páll Kristbjörnsson

Jóhann Páll Kristbjörnsson.
Jóhann Páll Kristbjörnsson.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ