/

Deildu:

Guðjón Henning Hilmarsson.
Auglýsing

– Guðjón Henning Hilmarsson afrekskylfingur úr GKG stundar meistaranám í stjarneðilsfræði

Nei, stjarneðlisfræðin nýtist mér ekkert í golfinu. Ég veit um bók sem fjallar um golf og eðlisfræði en ég hef aldrei sett mig inn í það. Þar er eflaust eitthvað áhugavert að finna sem snýr að eðlisfræði og golfíþróttinni,” segir Guðjón Henning Hilmarsson úr GKG en hann hefur einbeitt sér að námi í stjarneðlisfræði á undanförnum misserum eftir að hafa leikið með A-landsliði Íslands á árunum 2012-2013. Það eru ekki margir stjarneðlisfræðingar í heiminum og örugglega ekki margir afrekskylfingar sem hafa slíka menntun.

Guðjón stefnir á að klára meistarapróf í stjarneðlisfræði í haust. Hann hefur lítið getað einbeitt sér að golfíþróttinni undanfarin misseri vegna námsins en hann fór m.a. í  hálft ár til Helsinki í Finnlandi.

Eins og áður segir hefur „fókusinn” hjá Guðjóni verið á náminu á undanförnum misserum en hann rifjaði upp „golftaktana” í sumar þegar Eimskipsmótaröðin hófst að nýju.

„Ég kom heim s.l. vor úr framhaldsnáminu í Finnlandi og ég var þá lítið sem ekkert búinn að spila golf í heilt ár. Ég tók þátt í nokkrum mótum á Eimskipsmótaröðinni en ég var lengi í gang og var í raun enn ryðgaður í ágúst. Áhuginn var að kvikna aftur á þeim tíma og mig langaði þvílíkt mikið að spila áfram eftir s.l. sumar. Það var bara ekki hægt þar sem námið er krefjandi og fótboltameiðsli settu strik í reikninginn. Ég var „klipptur” niður aftanfrá í fótboltaleik enda er það eina leiðin til þess að stöðva mig,” bætti Guðjón við í léttum tón.  

Stjarneðlisfræðineminn ætlar að láta reyna á golfhæfileikana að nýju þegar sólin hækkar á lofti. „Ég hef eiginlega ekkert æft frá því í fyrra – en ég ætla að taka upp þráðinn eftir prófin í apríl og sjá hvernig staðan er á mér. Og hvort ég eigi eitthvað erindi í þetta aftur.”

[pull_quote_left]Það er erfitt að vera með ofurmetnað í golfinu samhliða krefjandi námi. Ég vil gera hlutina vel. Markmið sumarsins er að geta strítt einhverjum af þessum ungu kylfingum á Eimskipsmótaröðinni.[/pull_quote_left]

Guðjón Henning segir að hann sé ekki að hugsa um geimryk, stjörnur og blossa þegar hann slær kúluna hvítu á golfvellinum.     

„Það er frekar einfalt að „kúpla” sig út úr því sem ég er að gera flesta daga úti á golfvellinum. Það sem ég er að rannsaka er eitthvað sem við sjáum ekki. Verkefnið sem ég er að vinna að heitir „fast radio bursts” – sem eru örstuttir blossar sem sjást bara í útvarpsbylgjum. Við sjáum þessa blossa ekki með berum augum þannig að þetta er ekkert að trufla mig þegar ég er að leika golf. Ef ég tek útvarpssjónaukann út á völl gæti ég kannski „misst” fókusinn á golfið. Ég get hvort sem er ekki hugsað um marga hluti í einu.”

Kylfingurinn segir að hann hafi lagt stærstu golfdraumana á hilluna í bili – þar sem erfitt sé að vera með marga bolta á lofti í einu. „Ég býst við að fara á næsta ári í doktorsnám í stjarneðlisfræði – vonandi tekst mér að komast til Evrópu í það nám.

[pull_quote_right]Eðlisfræðikennarinn minn í Verslunarskólanum er sjálfur stjarneðlisfræðingur – og hann vakti áhuga hjá mörgum okkar á eðlisfræði og stjarneðlisfræði. Þar kviknaði þessi áhugi.[/pull_quote_right]

Í versta falli enda ég í Bandaríkjunum. Það er erfitt að vera með ofurmetnað í golfinu samhliða krefjandi námi. Ég vil gera hlutina vel. Markmið sumarsins er að geta strítt einhverjum af þessum ungu kylfingum á Eimskipsmótaröðinni. Ég er nú reyndar ekki nema 27 ára gamall en telst vera á meðal þeirra „gömlu” í þessu núna. Það eru ótrúlega margir spennandi ungir kylfingar að koma upp og ég ætla að reyna að „stríða” þeim aðeins. Stefnan er sett á að leika á nokkrum mótum á Eimskipsmótaröðinni og að sjálfsögðu á Íslandsmótinu,” sagði Guðjón Henning Hilmarsson.

Guðjón Henning Hilmarsson.
Guðjón Henning Hilmarsson.

 

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ