Site icon Golfsamband Íslands

Spennandi lokasprettur framundan hjá Haraldi Franklín og Guðmundi Ágústi

Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru báðir á meðal keppenda á næstu tveimur mótum á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour. Það eru aðeins þrjú mót eftir á keppnistímabilinu fyrir lokamótið sem fram fer á Mallorca í nóvember.

Dagana 14. – 17. október fer fram mót á Empordà vellinum í Girona og á þeim velli verður einnig leikið á næst síðasta mótinu sem fram fer 19.-22. október.

Nánar um mótið – rástímar, staða úrslit.

Lokamótið fer síðan fram dagana 4.-7. nóvember á T-Golf & Country Club á Mallorca en þangað komast 45 efstu á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.

Aðeins tveir íslenskir kylfingar hafa náð að komast inn á lokamótið á Áskorendamótaröðinni, Birgir Leifur Hafþórsson árið 2017 og Guðmundur Ágúst Kristjánsson komst inn í fyrra. Birgir Leifur endaði í 35. sæti á stigalistanum árið 2017 þar sem hann sigraði á einu móti, fyrstur íslenskra kylfinga. Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti í fyrra.

Haraldur Franklín er í 50. sæti á stigalistanum en hann hefur hæst farið í sæti nr. 38. Besti árangur hans á tímabilinu er 2. sætið á B-NL mótinu sem fram fór Hollandi í lok ágúst.

Í upphafi ársins var Haraldur Franklín í sæti nr. 102 á stigalistanum en hann hefur leikið á 17 mótum á Áskorendamótaröðinni á tímabilinu. Í fyrra endaði Haraldur Franklín í 85. sæti á stigalistanum og besti árangur hans var 14. sæti.

Guðmundur Ágúst er í 85. sæti á stigalistanum á Áskorendamótaröðinni. Besti árangur hans á tímabilinu er 8. sæti á B-NL mótinu sem fram fór Hollandi í lok ágúst. Á þessu tímabiliu hefur Guðmundur Ágúst leikið á 17 mótum á Áskorendamótaröðinni.

Það er að miklu að keppa á lokamótinu á Mallorca. Þar tryggja 20 efstu sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni og þeir sem eru í sætum 21.-45. fá takmarkaðan keppnisrétt á stærstu atvinnumótaröð Evrópu.

Exit mobile version