/

Deildu:

Björgvin Þorsteinsson. Mynd/seth@golf.is
Auglýsing

Íþróttaþing ÍSÍ fór fram um liðna helgi og þar voru veittar heiðursveitingar til forystufólks úr íþróttahreyfingunni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ÍSÍ.

Í samræmi við samþykktir framkvæmdastjórnar ÍSÍ þar að lútandi var Þráni Hafsteinssyni og Lilju Sigurðardóttur, fráfarandi stjórnarfólki ÍSÍ veitt Gullmerki ÍSÍ fyrir frábær störf í þágu íþróttahreyfingarinnar.

Lilja á að baki sex ára stjórnarsetu hjá ÍSÍ og Þráinn fjögurra ára stjórnarsetu en bæði hafa þau sinnt fjölbreyttum leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar á vettvangi félaga, íþróttahéraða og sérsambanda svo eitthvað sé nefnt. Án efa mun ÍSÍ eiga þau áfram að sem bakhjarla í verkefnum framtíðarinnar.

Við sama tækifæri voru eftirtaldir einstaklingar sæmdir Heiðurskrossi ÍSÍ:

Birna Björnsdóttir

Birna hefur verið leiðtogi í fimleikahreyfingunni á Íslandi í áratugi. Hún sat í stjórn Fimleikasambands Íslands sem meðstjórnandi, síðar varaformaður og sem formaður frá árinu 1985 – 1987. Síðar sneri hún aftur í stjórn og gegndi meðal annars varaformennsku frá 2008 – 2012. Birna var mjög virk í alþjóðastarfi fimleika, innan Fimleikasambands Norðurlanda, Evrópska fimleikasambandsins og Alþjóðafimleikasambandsins þar sem hún lét mikið að sér kveða.

Björgvin Þorsteinsson

Björgvin er einn af okkar allra fremstu kylfingum og á langan og glæsilegan feril í golfíþróttinni. Auk afreka á golfvellinum hefur hann verið virkur í leiðtogastörfum innan íþróttahreyfingarinnar. Hann sat meðal annars í stjórn Golfklúbbs Akureyrar 1967-1969 og í stjórn Golfsambands Íslands 1998 – 2002. Björgvin situr í Áfrýjunardómstól ÍSÍ og hefur verið kjörinn á Íþróttaþingum ÍSÍ til starfa hjá dómstólnum síðastliðin ríflega tuttugu ár.

Engilbert Olgeirsson

Engilbert Olgeirsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Héraðssambandsins Skarphéðins frá árinu 1991. Hann var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 2000 og sat þar til ársins 2009. Hann sat meðal annars í stjórn Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ og sem formaður Hnefaleikanefndar ÍSÍ. Hann situr í vinnuhópi ÍSÍ um Ferðasjóð íþróttafélaga og hefur gert frá upphafi þess vinnuhóps og eins situr hann í Heiðursráði ÍSÍ. Engilbert hefur verið leiðtogi á sínu heimasvæði en einnig verið virkur í nefndum á vegum FRÍ, GLÍ og UMFÍ svo eitthvað sé nefnt.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir

Helga varð fyrst kvenna formaður Ungmennafélags Íslands en hún gegndi því embætti á árunum 2007 – 2015. Helga var lengi í stjórn UMFÍ áður en hún varð formaður, hún var fyrst kjörin í stjórnina árið 1997 og sat í varastjórn fyrsta tímabilið. Hún varð svo meðstjórnandi árin 1999-2001 og varaformaður árin 2001-2007.

Sigríður Jónsdóttir

Sigríður sat í stjórn Badmintonsambands Íslands frá 1988 og var formaður sambandsins frá 1990-1996. Hún var kjörin í framkvæmdastjórn ÍSÍ árið 1996 og átti samfellda 25 ára setu í stjórn ÍSÍ en hún hætti störfum í stjórn á þinginu nú í maímánuði. Sigríður gegndi embætti varaforseta á árunum 1997-2006 og aftur árin 2017 – 2021. Hún situr í Íþróttanefnd ríkisins fyrir hönd ÍSÍ.

Valdimar Leó Friðriksson

Valdimar á að baki áratuga starf í hreyfingunni. Hann var formaður Handknattleiksfélags Akraness í eitt ár, var framkvæmdastjóri Ungmennasambands Eyjafjarðar 1993-1994 og framkvæmdastjóri Umf. Aftureldingar 1994-2005. Valdimar Leó sat í stjórn UMSK í 23 ár, þar af í 20 ár sem formaður sambandsins. Hann var kjörinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ í maí síðastliðnum. Ákvörðun um að heiðra Valdimar Leó var staðfest í framkvæmdastjórn í marsmánuði.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ