Íslandsmót 2016
Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.
Auglýsing

Hér fyrir neðan er skýrsla stjórnar Golfsambands Íslands í heild sinni, en skýrslan var kynnt á Formannafundi 2016.

Kæru félagar.

Þar sem einu besta golfsumri í nokkur ár er nú að ljúka er rétt að líta yfir farinn veg og rifja upp það helsta í starfi Golfsambands Íslands.

Stjórn og starfsfólk

Stjórn Golfsambands Íslands var þannig skipuð starfsárin 2015-2016:
Forseti:
Haukur Örn Birgisson GO
Aðalstjórn:
Eggert Á. Sverrisson GR, varaforseti og formaður fræðslunefndar.
Kristín Guðmundsdóttir GÖ, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar
Hansína Þorkelsdóttir GKG, ritari
Bergsteinn Hjörleifsson GK, formaður útgáfunefndar
Jón Júlíus Karlsson GG, formaður mótanefndar
Helgi Anton Eiríksson GSE, formaður afreksnefndar
Gunnar Gunnarsson GV, formaður laganefndar
Theódór Kristjánsson GM
Rósa Jónsdóttir GÓ
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir GK

Þær breytingar voru gerðar á lögum sambandsins á síðasta golfþingi að stjórnarmönnum var fjölgað um einn og nú eru allir stjórnarmenn aðalmenn í stjórn, í stað þriggja varamanna áður. Stjórnin hefur haldið 12 fundi á árinu og hafa þeir allir verið vel sóttir af stjórnarmönnum, sem allir hafa tekið virkan þátt í stjórnarstörfum á árinu. Stjórn hefur haldið áfram uppteknum hætti og birtir allar fundargerðir stjórnarfunda á heimasíðu sambandsins, www.golf.is. Það er m.a. gert í þeirri viðleitni að opna betur sambandið og gera öllum kleift að fylgjast með störfum þess.

Tvær megin breytingar voru gerðar á skrifstofu sambandsins á árinu. Í fyrsta lagi þá lét Hörður Þorsteinsson af starfi framkvæmdastjóra í upphafi árs eftir 16 ára starf. Starf framkvæmdastjóra var auglýst og voru umsækjendur tæplega 60 talsins. Að loknu ráðningarferli, sem var í umsjón Hagvangs, var stjórn sambandsins einróma í afstöðu sinni til að ráða Brynjar Geirsson í starfið og hóf hann störf þann 1. mars. Í öðru lagi réði golfsambandið sérstakan mótsstjóra sambandsins og varð Andrea Ásgrímsdóttir PGA kennari fyrir valinu en hún hóf störf í maí. Andrea starfar jafnframt sem framkvæmdastjóri PGA á Íslandi, ásamt því að vera skólastjóri PGA golfkennaraskólans. Aðrir starfsmenn sambandsins voru þeir Arnar Geirsson, kerfis- og skrifstofustjóri, Stefán Garðarsson, markaðs- og kynningarstjóri og Sigurður Elvar Þórólfsson, útbreiðslustjóri. Úlfar Jónsson gegndi starfi landsliðsþjálfara líkt og undanfarin ár og naut liðsinnis Birgis Leifs Hafþórssonar, aðstoðarlandsliðsþjálfara. Þá voru ýmsir aðrir sem komu að landsliðsverkefnum á tímabilinu. Úlfar Jónsson sagði starfi sínu lausu á haustmánuðum og stendur nú yfir leit að nýjum landsliðsþjálfara en áætlað er að viðkomandi hefji störf í upphafi næsta árs. Afreksstarf golfsambandsins hefur tekið miklum framförum í starfstíð Úlfars og eru Úlfari þökkuð frábær störf á undanförnum árum.

Samhliða komu nýrra starfsmanna voru gerðar þó nokkrar breytingar á skrifstofurými sambandsins í íþróttamiðstöðinni Laugardal. Markmiðið með breytingunum er að búa til heimili fyrir golfhreyfinguna á Íslandi en PGA samtökin, LEK, Golf Iceland ásamt golfvallahönnuðinum Edwin Rögnvaldssyni hafa nú aðstöðu á skrifstofu sambandsins. Þá býðst öðrum aðilum innan hreyfingarinnar að nýta sér aðstöðuna til fundarhalda.

Mynd/seth@golf.is
Myndsethgolfis

Samskipti innan hreyfingarinnar
Stjórn sambandsins hélt uppteknum hætti og heimsótti golfklúbba víðsvegar um landið á árinu. Þessir samráðsfundir með forsvarsmönnum klúbbanna hafa tekist vel og eru mikilvægur liður í góðum samskiptum innan hreyfingarinnar. Þá setti nýr framkvæmdastjóri það einnig á oddinn að heimsækja kollega sína í golfklúbbum landsins.

[pull_quote_right]
Stjórn sambandsins hélt uppteknum hætti og heimsótti golfklúbba víðsvegar um landið á árinu.[/pull_quote_right]

Á vormánuðum stóð golfsambandið fyrir opinni fundarröð með forsvarsmönnum golfklúbba og fóru aðallega fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Á fundunum héldu starfsmenn sambandsins erindi fyrir fundarmenn auk þess sem góðar umræður sköpuðust í lok hvers fundar.

Til samræmis við breytingar innan EGA á aldursmörkum eldri kylfinga var reglugerðum GSÍ varðandi eldri kylfinga breytt. Nú teljast allir kylfingar 50 ára og eldi til eldri kylfinga og hafa þátttökurétt í slíkum mótum á vegum sambandsins. Samhliða þessum breytingum gerðu Landsamtök eldri kylfinga (LEK) viðeigandi breytingar. Ánægjulegt er að segja frá því að samstarf milli LEK og GSÍ hefur aukist jafnt og þétt undanfarin misseri en bæði samtök stefna að enn meira samstarfi á komandi ári. Kylfingar eldri en 50 ára eru orðnir meirihluti hreyfingarinnar og því mikilvægt að hlúa vel að þessum iðkendum.

Stórafmæli
Á þessu ári fögnuðu nokkrir golfklúbbar stórafmælum og eru hamingjuóskir til eftirfarandi klúbba áréttaðar.

Golklúbburinn Geysir 10 ára
Golfklúbburinn Glanni 10 ára
Golfklúbbur Húsafells 20 ára
Golfklúbburinn Gláma 25 ára
Golfklúbbur Vatnsleysustrandar 25 ára
Golfklúbbur Sandgerðis 30 ára
Golfklúbbur Grindavíkur 35 ára
Golfklúbbur Selfoss 45 ára
Golfklúbbur Hornafjarðar 45 ára

Útgáfu- og fræðslumál
Tímaritið Golf á Íslandi kom út sex sinnum á árinu. Tvær nýjungar voru gerðar á útgáfunni í ár. Í fyrsta lagi var tölublaðið, sem kom út í maí, gefið út á dagblaðsformi og því dreift á 90 þúsund heimili í landinu. Var það gert í þeirri viðleitni að stækka verulega lesendahópinn og ná þannig til fólks sem ekki er skráð í golfklúbba. Blaðið hlaut mikla athygli og var útgáfunefnd ánægð með afraksturinn.

Samkvæmt könnunum eru lestur blaðsins mikill en um 45 þúsund lesendur lesa blaðið reglulega. Ritstjórn blaðsins hefur meðvitað fært meiri fókus á hinn almenna kylfing og hafa efnistök í blaðinu tekið breytingum í þá veru, vonandi flestum til ánægju.

Í öðru lagi þá hóf sambandið rafræna útgáfu á nýju fréttabréfi sambandsins. Í stefnu golfhreyfingarinnar, sem samþykkt var á Golfþingi árið 2013, var ákveðið að róa á ný mið rafrænnar útgáfu fyrir miðla sambandsins. Upphaflega hugmyndin var að gefa út nokkur rafræn fréttabréf með fréttum úr starfi sambandsins, ætluðum hinum almenna kylfingi, en útgáfan þótti takast vel að fréttabréfin verða um 32 talsins á árinu. Allir félagsmenn með skráð netfang fá fréttabréfið sent til sín.

Samhliða rafrænni útgáfu var heimasíðu sambandsins, golf.is, breytt á þann veg að nú þjónar hún auknu fréttahlutverki, ásamt því að allt það helsta úr starfi hreyfingarinnar er sett inn á Facebook síðu sambandsins. Golfsambandið stendur því fyrir lifandi fréttaflutningi í mun meiri mæli en áður sem nær til fleiri lesenda en þess má geta að heimsóknir á golf.is voru samtals 1,7 milljónir á liðnu ári.

Golfsambandið hefur látið hanna sérstakt rástíma- og skorkortaforrit fyrir snjallsíma (app). Forritið er að mestu tilbúið og verður prufukeyrt í vetur með það fyrir augum að vera sett í loftið fyrir næsta golftímabil.

Á síðasta Golfþingi var samþykkt að skipa sérstaka starfsnefnd sem hefði það hlutverk að fara yfir tölvukerfi sambandsins og skila skýrslu um heildarendurskoðun á tölvukerfum sambandsins. Nefndina skipa þeir Bergsteinn Hjörleifsson, Arnar Geirsson, Guðmundur Óskarsson og Guðmundur Daníelsson. Nefndin hefur starfað allt árið og mun skila skýrslu sinni á þessum formannafundi.

Líkt og undanfarin ár gerði golfsambandið samning við RÚV um beina útsendingu frá Íslandsmótinu í golfi auk framleiðslu og sýningu vikulegra þátta um golf. Samningur var gerður til tveggja ára og gildir því út árið 2017. Var þetta gert til að tryggja ákveðinn stöðugleika fyrir samstarfsaðila sambandsins og auka möguleika á því að semja við þá til lengri tíma eins árs í senn. Býður það upp á meiri stöðugleika í fjáröflun sambandsins.

Golfþættir RÚV voru í umsjón Hlyns Sigurðssonar þar sem spjótum var fyrst og fremst beint að hinum almenna kylfingi. Íslensku afreksgolfi voru svo gerð skil í íþróttafréttaþáttum sjónvarpsins.

Beina útsendingin frá Íslandsmótinu þótti heppnast afar vel og voru flestir sammála um að útsendingin hafi orðið betri með hverju árinu. Samkvæmt mælingum horfa 35 þúsund manns á beinu útsendinguna eða 56% allra sjónvarpsáhorfenda þessa helgi. Það er því óhætt að fullyrða að íslensku afreksgolfi hafi verið komið vel til skila með útsendingunni og að það hafi falið í sér góða auglýsingu fyrir íþróttina.

Kylfingur slær teighögg á Eimskipsmótaröðinni á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Mynd/seth@golf.is
Kylfingur slær teighögg á Eimskipsmótaröðinni á Hlíðavelli í Mosfellsbæ Myndsethgolfis

Gripið var til þeirrar nýbreytni árið 2015 að sýna beint frá leik á lokaholu Íslandsmóts unglinga sem þá fór fram á Korpúlfsstaðarvelli. Þótti það takast einstaklega vel og því var ákveðið að halda verkefninu áfram í sumar. Sýnt var beint frá 17. holu lokahringsins á sjónvarpsstöðinni sporttv.is undir lýsingu þula. Er rétt í þessu sambandi að þakka Íslandsbanka fyrir stuðninginn við þetta verkefni og mótahald barna og unglinga.

Í samstarfi við Vita ferðir gaf golfsambandið út bækling um leikhraða sem dreift var með golfreglubókinni í upphafi árs. Golfhreyfinginn þarf stöðugt að vera vakandi fyrir bættum leikhraða á golfvöllum landsins og var útgáfa bæklingsins viðleitni í þá veru.

Í kjölfar umræðna á formannafundi árið 2014 um breytingu á teigmerkingum valla, stukku nokkrir golfklúbbar á hugmyndina og hrintu henni í framkvæmt. Markmiðið var að hvetja kylfinga til þess að leika af fremri teigum en áður og hafa þannig meiri ánægju af golfleik sínum. Tilraunin hefur gefið góða raun og hafa nú fleiri golfklúbbar tekið upp þessa hugmyndafræði. Ljóst er að enn fleiri munu bætast í hópinn á næsta ári og vill golfsambandið hvetja alla klúbba til þess að kynna sér þessar hugmyndir fyrir næsta ár.

Umræðunni um svokölluð GSÍ kort hefur skotist upp reglulega á Golfþingum og formannafundum undanfarin ár og sitt sýnist hverjum um útgáfu þeirra. Á síðasta Golfþingi var samþykkt veruleg breyting á útgáfu kortanna. Hið nýja fyrirkomulag, þar sem allir handhafar greiða kr. 1.500 fyrir hvern leikinn hring hefur reynst vel og vonandi hefur skapast sátt um málið til framtíðar.

Karl Ómar Karlsson golfkennari hefur, í samstarfi við golfsambandið, lokið við kennslurit fyrir golfklúbba og leiðbeinendur í barna- og unglingastarfi. Í ritinu er sjónum beint að því hvað klúbbum ber að hafa í huga ef þeir vilja byggja upp öflugt barna- og unglingastarf og hvernig leiðbeinendur og golfkennarar geta staðið að golfkennslu fyrir yngstu kylfingana. Hægt er að nálgast kennsluritið á golf.is og er það öllum aðgengilegt.

Engin mál komu á borð aganefndar eða dómstóla golfsambandsins þetta árið.

Nokkur umræða skapaðist á síðasta Golfþingi um hugsanlegar breytingar á forgjafarkerfi EGA í tengslum við mismunandi holufjölda golfvalla. Foseti GSÍ, sem jafnframt á sæti í framkvæmdastjórn EGA, hefur rætt málið á vettvangi EGA og forgjafarnefndar EGA undanfarin misseri. Eins og flestir vita þá hefur staðið yfir vinna undanfarin ár í tengslum við alþjóðlegt forgjafarkerfi (World Handicap System) sem miðar að því að sameina öll forgjafarkerfi heimsins undir einum hatti. Til stendur að ljúka vinnunni á næstu árum og taka í notkun nýtt samræmt kerfi í ársbyrjun 2020. Því miður verður ekki gert ráð fyrir möguleikanum á að leika mismargar holur til forgjafar í hinu nýja kerfi þótt slíkir möguleikar hafi verið ræddir. Er því, eins og sakir standa, ekki líklegt að hægt verði að leika annað en 9 eða 18 holur til forgjafar fyrr en kerfið verður uppfært árið 2024. Golfsamband Íslands mun hins vegar halda áfram að sækja að slíkar breytingar verði gerðar á kerfinu fyrr.

Mynd/seth@golf.is
Myndsethgolfis

Samstarf golfsambandsins við alla helstu fjölmiðla landsins gekk prýðilega á árinu og þegar litið er yfir árið í heild er óhætt að fullyrða að íslensku golfi hafi aldrei verið gerð jafn góð skil í fjölmiðlum.

[pull_quote_right]Þegar litið er yfir árið í heild er óhætt að fullyrða að íslensku golfi hafi aldrei verið gerð jafn góð skil í fjölmiðlum.[/pull_quote_right]

Golfdagar í Kringlunni fóru fram 12.-14. maí og er þetta í fjórða skipti frá árinu 2013 sem golfhreyfingin og Kringlan standa saman að þessum viðburði. Aðsókn hefur verið góð en fjöldi manns lögðu leið sína um Kringluna og gátu þar með kynnt sér það sem íslenskt golf hefur upp á að bjóða. Er hér um að ræða einstakt tækifæri fyrir golfklúbba landsins til að kynna félagsstarf sitt og aðstöðu fyrir nýjum upprennandi kylfingum, sér að kostnaðarlausu.

Stelpugolfið var á sínum stað en undanfarin þrjú ár hafa PGA kennaraskólinn og GSÍ staðið fyrir Stelpugolfi á Leirdalsvelli. Árið 2014 mættu yfir 400 stelpur á öllum aldri til að kynnast golfíþróttinni og fá leiðbeiningar frá nemendum PGA kennaraskólans og í fyrra mættu yfir 700 stelpur á viðburðinn. Í ár voru um 500 iðkendur sem mættu til leiks og hefur Stelpugolfið öðlast slíkar vinsældir að aðrir klúbbar á landinu hafa ákveðið að bætast í hópinn. Á þessu ári voru, auk GKG, Golfklúbbur Akureyrar og Golfklúbbur Fjarðarbyggðar sem héldu Stelpugolfdaginn hátíðlegan. Við blasir að fleiri klúbbar munu bætast í hópinn á næstu árum.

Nýtt forgjafarkerfi tók gildi 1. janúar með ýmsum breytingum. Ein sú helsta var sú að nú fá nýliðar 54 í forgjöf í stað 36 áður. Þessi nýbreytni er liður í því að fá nýja kylfinga til að smita nýja kylfinga af golf „bakteríunni“ fyrr. Með því að sjá mælanlegar árangur strax frá upphafi aukast líkurnar á því að kylfingurinn haldi áfram iðkun sinni og gerist meðlimur til lengri tíma. Nýbreytnin hefur þó sætt þeirri gagnrýni að hún komi til með að hægja á leikhraða þar sem kylfingar munu síður hætta leik á hverri holu, þar sem þeir fá punkta fyrir að leika holuna á fleiri höggum en áður. Ekki hafa verið gerðar rannsóknir á þessu en ljóst er að þessi breyting hefur mælst vel fyrir hjá nýliðum í golfi.

Afreksmál
Íslendingar hafa aldrei átt betri eða fleiri afrekskylfinga en nú og það er bjart framundan í íslensku afreksgolfi.

[pull_quote_right]Íslendingar hafa aldrei átt betri eða fleiri afrekskylfinga en nú og það er bjart framundan í íslensku afreksgolfi.[/pull_quote_right]

Golfsambandið stóð fyrir og styrkti að þessu sinni 93 kylfinga til keppni í alþjóðlegum mótum, samanborið við 118 árið 2015. Árið 2014 voru ferðirnar 86 talsins. Til einföldunar og skýringar má segja að afrekskylfingar hafi farið í 93 keppnisferðir erlendis.

Árangur keppenda var góður, sérstaklega í einstaklingsmótum. Vísast til skýrslu landsliðsþjálfara um árangur okkar landsliðsfólks og atvinnukylfinga á árinu. Þó ber sérstaklega að nefna frábæran árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, sem stóð upp úr á þessu ári. Í lok síðasta árs, á sínu fyrsta ári sem atvinnukylfingur, tókst Ólafíu að tryggja sér fullan þátttökurétt á Ladies European Tour og lék hún á þeirri mótaröð í ár. Hún hefur staðið sig einstaklega vel í þeim mótum sem hún hefur haft þátttökurétt í en frammistaða hennar í Abu Dhabi á dögunum fór ekki framhjá neinum.

[pull_quote_left]Þó ber sérstaklega að nefna frábæran árangur Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur, sem stóð upp úr á þessu ári. [/pull_quote_left]

Forskot, afrekssjóður kylfinga, hélt áfram göngu sinni á þessu ári en öll fyrirtækin sem stofnuðu sjóðinn ákváðu í lok síðasta árs að halda samstarfinu áfram. Í Forskotsfjölskylduna bættist síðan tryggingafélagið Vörður. Golfsamband Íslands ásamt Íslandsbanka, Eimskip, Valitor, Icelandair Group og Verði standa því nú að sjóðnum og leggur hver aðili sjóðnum til 3,5 milljónir króna á hverju ári. Sjóðurinn hefur reynst okkar fremsta afreksfólki gríðarlega mikilvægur í viðleitni þeirra að komast á erlendar atvinnumannaraðir en á hverju ári er 21 milljón úthlutað úr sjóðnum til okkar fremstu kylfinga.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Indlandi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir á Indlandi

Mennta- og menningarmálaráðurneytið undirritaði á árinu nýjan samning við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sem felur í sér stóraukin framlög til íslenskra afreksíþróttamanna. Samningurinn felur í sér að framlög ríkisins til afreksíþrótta munu hækka úr 100 milljónum í 400 milljónir króna á næstu þremur árum. Golfsamband Íslands hefur, undanfarin ár, fengið um 5,3 milljónir (5,3%) úr sjóðnum þrátt fyrir að vera 17% af íþróttahreyfingunni, miðað við félagafjölda. Það er því ljóst að mikil tækifæri eru til staðar í framtíðinni fyrir golfhreyfinguna að sækja aukið fé til ÍSÍ fyrir íslenska afrekskylfinga.

Mótahald
Á síðasta Golfþingi var samþykkt ný og endurbætt stefna fyrir Eimskipsmótaröðina. Stefnan var afrakstur mikillar vinnu sem fjölmargir komu að en til stendur að koma hugmyndum stefnunnar í framkvæmd á næstu árum. Óhætt er að segja að vel hafi tekist til og voru keppendur ánægðir með breytingarnar. Á þessu ári tóku 192 keppendur þátt í Eimskipsmótaröðinni á árinu en þátttakendur voru 206 í fyrra, sem var mesta þátttaka frá því Eimskip varð aðalsamstarfsaðili golfsambandsins. Þessa lítilsháttar fækkun má hugsanlegra rekja til þess að markmið mótaraðarinnar var að fá sterkari kylfinga til leiks með því að lækka forgjafarviðmiðin og takmarka þátttökufjölda í tveimur af síðustu mótum tímabilsins. Mótum á mótaröðinni var fjölgað úr sex í átta talsins.

[pull_quote_right]Í fyrsta sinn í sögunni var boðið upp á peningaverðlaun á mótaröðinni, að því gefnu að stigameistararnir væru atvinnukylfingar. [/pull_quote_right]

Eflaust er margt á mótaröðinni sem enn má bæta en mikilvægt er að halda áfram vinnunni og trúa á hugmyndirnar. Þær eru margar nýstárlegar og þurfa að fá að þróast og festa sig í sessi. Hugmyndin um „final four“ þóttist heppnast vel en hún gerði það jafnframt að verkum að áhugi samstarfsaðila vaknaði við að koma að mótahaldinu með sterkari hætti en áður. Í fyrsta sinn í sögunni var boðið upp á peningaverðlaun á mótaröðinni, að því gefnu að stigameistararnir væru atvinnukylfingar. Í karlaflokki var það atvinnukylfingurinn Axel Bóasson sem safnaði flestum stigum og fór hann heim með hálfa milljón króna í verðlaunafé. Þá voru nokkrir erlendir atvinnukylfingar sem tóku þátt í lokamóti mótaraðarinnar í Grafarholtinu en sigurvegari í flokki atvinnukylfinga fékk kr. 250.000 kr. í sinn hlut en það var Axel Bóasson sem einnig hreppti þá ávísun. Þá er það sérstakt gleðiefni að golfklúbbar á höfuðborgarsvæðinu hafa ákveðið að koma með ríkari hætti að mótahaldinu en þeir hafa ekki verið nógu iðnir við mótahald á Eimskipsmótaröðinni undanfarin ár. Allt horfið það hins vegar til betri vegar og því ber að fagna, enda koma langflestir keppendur á mótaröðinni frá þessum klúbbum.

Ákveðið var að breyta hinni hefðbundnu sveitakeppni og var hún færð framar á tímabilinu. Þá var nafni keppninnar einnig breytt í Íslandsmót golfklúbba, að lokinni nafnasamkeppni þar sem tæplega 200 tillögur bárust. Íslandsmeistari í kvennaflokki varð sveit GR en í karlaflokki var þar GK sem hampaði Íslandsmeistaratitlinum. Var þetta í 17. sinn sem GR sigrar í kvennaflokki og í 14. sinn sem GK sigrar í karlaflokki.

Hápunktur Eimskipsmótaraðarinnar var sjálft Íslandsmótið í golfi sem haldið var á Akureyri eftir 16 ára hlé. Akureyringar sýndu það og sönnuðu að þeir kunna að halda golfmót en félagsmenn í Golfklúbbi Akureyrar tóku á móti öllum bestu kylfingum landsins þegar Íslandsmótið í golfi fór fram á Jarðarsvelli. Framkvæmd mótsins var frábær og kunnu kylfingar virkilega að meta gestrisni norðanmanna. Íslandsmeistarar urðu Birgir Leifur Hafþórsson GKG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir GR. Golfsambandið færir félagsmönnum í Golfklúbbi Akureyrar bestu þakkir fyrir vinnu þeirra og framlag til mótsins.

Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Myndsethgolfis

Íslandsbankamótaröðin var að sjálfsögðu á sínum stað en keppt var í 12 mótum vítt og breitt um landið, að Áskorendamótaröðinni meðtalinni. Afar skemmtilegt og fjölmennt lokahóf var haldið hjá GKG að loknu Íslandsmótinu þar sem einnig mættu keppendur úr Áskorendamótaröðinni. Á árinu hafa átt sér stað viðræður um breytingar á Íslandsbankamótaröðinni en til stendur að ljúka þeirri vinnu í vetur í samstarfi við PGA.

Þrír íslenskir kylfingar tóku þátt í opna sænska meistaramóti fatlaðra. Þau Sveinbörn Guðmundsson, Elín Ólafsdóttir, Þóra María Fransdóttir, öll kylfingar úr GK, stóðu sig einstaklega vel í mótinu Sveinbjörn og Elín gerðu sér lítið fyrir og sigruðu í sínum flokki á meðan Þóra hafnaði í þriðja sæti í sínum flokki. Kylfingarnir fengu allir styrk úr minningarsjóði Harðar Barðdal vegna þátttöku sinnar í mótinu.

[pull_quote_left]Á síðustu tveimur árum hafa farið fram tvö stór alþjóðleg mót hér á landi. [/pull_quote_left]

Á síðustu tveimur árum hafa farið fram tvö stór alþjóðleg mót hér á landi. Í fyrra var leikið á Smáþjóðaleikunum, hvar Íslendingar nánast einokuðu verðlaunapallana. Í sumar mættu allir bestu kvenkylfingar álfunnar til landsins til að keppa á Evrópumóti kvennalandsliða. Mótið er liður í mótahaldi EGA og mættu 20 lið til leiks. Þetta er stærsta golfmót sem haldið hefur verið hér á landi en skemmst er frá því að segja að mótið heppnaðist einstaklega vel. Kylfingar léku Urriðavöll í einstöku veðri og við frábærar aðstæður. Félagsmenn í Golfklúbbnum Oddi önnuðust framkvæmd mótsins. Við höfum sýnt það og sannað að Íslendingar kunna að halda golfmót í hæsta gæðaflokki og því einungis spurning um vilja okkar, hvenær við kjósum að taka á móti næsta móti.

En talandi um alþjóðleg stórmót. Einn íslenskur kylfingur fékk þann einstaka heiður fyrr á þessu ári að vera boðin þátttaka á einu frægasta golfmóti heims. Hörður Geirsson alþjóðadómari úr GK var boðið að dæma á Opna breska meistaramótinu sem fram fór á Royal Troon vellinum í júlí. Hörður er fyrsti Íslendingur sem dæmir í mótinu og óskar sambandið honum innilega til hamingju með þennan heiður og þá dýrmætu reynslu sem hann öðlaðist með þátttöku sinni.

Rekstur sambandsins er góður
Rekstraráætlun golfsambandsins gerði ráð fyrir smávægilegum hagnaði á árinu en árangurinn fór fram úr væntingum. Hagnaður sambandsins á árinu var 3,7 milljónir króna og heildarvelta 182 milljónir króna, samanborið við 151 milljónir króna á síðasta ári. Það felur í sér 21% veltuaukningu milli ára. Stjórn sambandsins er afar stolt af þessum árangri, sem vissulega má rekja til fjölgunar félagsmanna í hreyfingunni en ekki síður mikillar vinnu við öflunar nýrra samstarfsaðila. Tveir nýir aðalsamstarfsaðilar bættust í hópinn á þessu ári; Borgun og Bílaumboðið Bernhard. Þá bættst KPMG í hóp samstarfsaðila á Eimskipsmótaröðinni auk þess sem fjöldi annarra samstarfsaðila bættist í hópinn með öðrum hætti. Stjórnarmenn sambandsins tóku virkari þátt í fjáröflun sambandsins en áður hefur þekkst og bar það mikinn ávöxt. Þá er gaman að segja frá því að 12 milljónir króna hafa safnast til hreyfingarinnar frá opinberum aðilum á síðustu tveimur árum, bæði í tengslum við Íslandsmótið í golfi og Evrópumót kvennalandsliða. Þetta eru fjármunir sem ekki hafa áður verið sóttir af golfhreyfingunni til opinberra aðila en þeir hafa komið sér virkilega vel í metnaðarfullu starfi hreyfingarinnar.

Stjórn golfsambandsins reynir ávallt að sýna varkárni og aðhald í rekstri og er það stefna stjórnar að eigið fé sambandsins verði ekki lægra en 15-20% af heildargjöldum þess á hverjum tíma til að tryggja að hægt sé að taka við óvæntum áföllum og er ánægjulegt að sjá að við nálgumst það markmið. Þá er það jafnframt langtímamarkmið sambandsins að auka sértekjur sambandsins þannig að hlutfall tekna af félagagjöldum lækki niður í þriðjung.

Eins og undanfarin ár var Eimskipafélag Íslands okkar helsti bakhjarl í tengslum við mótahald þeirra bestu og er það mikilvægt fyrir okkur í íþróttahreyfingunni að hafa svo öfluga bakhjarla, því án þeirra væri erfitt að koma íþróttinni á framfæri. Aðrir megin samstarfsaðilar sambandsins eru Ölgerðin, Síminn, KPMG, Icelandair, Borgun, Securitas, Bernhard, Nýherji, Íslandsbanki, Vörður og Zo On.

Frábært ár að baki
Eitt besta ár golfhreyfingarinnar í langan tíma er nú að líða undir lok. Eftir stöðnun í fjölgun kylfinga undanfarin tvö ár, er íslenskum kylfingum aftur farið að fjölga og nemur fjölgunin 2%. Í dag eru skráðir kylfingar 16.823 talsins og hafa þeir aldrei verið fleiri. Til samanburðar eru skráðir iðkendur innan knattspyrnuhreyfingarinnar 22.000 talsins.

[pull_quote_right]Eitt besta ár golfhreyfingarinnar í langan tíma er nú að líða undir lok.[/pull_quote_right]

En þrátt fyrir fjölgun þá eru engu að síður hættumerki á lofti. Þótt kylfingum yfir 50 ára hafi fjölgað um 13% þá fækkaði kylfingum undir 22 ára um 7% – það er vissulega áhyggjuefni og við því verður öll golfhreyfingin að bregðast í sameiningu. Íslenskir kylfingar eru að eldast en nú eru 55% allra kylfinga 50 ára eða eldri. Meðalaldur karlkylfinga er 46 ár á meðan meðalaldur kvenkylfinga er 52 ár. Árið 2008 voru börn undir 16 ára aldri 1.372 talsins en þeim hafði fjölgað í 1.727 árið 2015 – eða um 26% á aðeins sjö árum. Börnin eru kylfingar framtíðarinnar og því er mikilvægt fyrir golfklúbba landsins að taka vel á móti þeim og fjárfesta af krafti í barna- og unglingastarfi.

[pull_quote_left]Íslensk golfhreyfing stendur frammi fyrir fjölmörgum sóknartækifærum á næstu árum og þau tækifæri þarf að nýta vel. Eitt tækifærið felst í komu erlendra ferðamanna á íslenska golfvelli.[/pull_quote_left]

Íslensk golfhreyfing stendur frammi fyrir fjölmörgum sóknartækifærum á næstu árum og þau tækifæri þarf að nýta vel. Eitt tækifærið felst í komu erlendra ferðamanna á íslenska golfvelli. Íslandi þarf að koma á kortið sem raunverulegum áfangastað erlendra kylfinga. Unnið hefur verið markvisst að þessu undanfarin ár og hafa samtökin Golf Iceland staðið sig vel í markaðssetningu erlendis. Í dag eru 16 golfklúbbar í samtökunum og þar af hafa fjórir þeirra haldið vel utan um tölfræði í tengslum við heimsóknir erlendra kylfinga. Í fyrra voru leiknir 875 hringir á þessum völlum en í ár voru þeir orðnir 1.443. Þetta er 65% aukning á milli ára. Það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þessara kylfinga fyrir rekstrarafkomu íslenskra golfklúbba. Ísland er einstök golfparadís og hreyfingin má, með markvissari hætti, sækja á ný mið hvað þetta varðar.

Íslandsmeistarar 2016: Hlynur Bergsson, Ingi Rúnar, Sigurður Arnar, Hulda Clara, Amanda og Saga. Mynd/seth@golf.is
Íslandsmeistarar 2016 Hlynur Bergsson Ingi Rúnar Sigurður Arnar Hulda Clara Amanda og Saga Myndsethgolfis

[pull_quote_right]Börnin eru kylfingar framtíðarinnar og því er mikilvægt fyrir golfklúbba landsins að taka vel á móti þeim og fjárfesta af krafti í barna- og unglingastarfi.[/pull_quote_right]

Með þátttöku golfíþróttarinnar í Ólympíuleikunum felast einnig tækifæri, fyrst og fremst í aukinni útbreiðslu íþróttarinnar og kynningu. Í dæmaskyni má nefna að frá því ákveðið var að golf yrði Ólympíuíþrótt þá fjölgaði aðildarþjóðum að Alþjóða golfsambandinu (IGF) úr 104 í 147. Golfið verður á sínum stað á Ólympíuleikunum í Japan að fjórum árum liðnum og mikilvægt er að nýta til fulls þau tækifæri sem bjóðast vegna þess, t.a.m. með þátttöku íslenskra kylfinga á leikunum.

Golfíþróttin hefur rækilega fest sig í sessi hér á landi og er næst fjölmennasta íþrótt landsins. Á næsta ári fagnar Golfsamband Íslands 75 ára afmæli sínu og í tilefni þess vill golfsambandið efna til markaðsátaks fyrir golfhreyfinguna. Til þessa hefur sambandið ekki farið í sameiginlegt markaðsátak en ljóst er að íslenskir golfvellir og golfklúbbar hafa upp á mikið að bjóða fyrir vætanlega kylfinga á öllum aldri.
[pull_quote_right]
Til þessa hefur sambandið ekki farið í sameiginlegt markaðsátak en ljóst er að íslenskir golfvellir og golfklúbbar hafa upp á mikið að bjóða fyrir vætanlega kylfinga á öllum aldri.[/pull_quote_right]

Að lokum vill stjórn Golfsambands Íslands þakka öllum forsvarsmönnum golfklúbba og sjálfboðaliðum þeirra fyrir samstarfið á árinu.

Haukur Örn Birgisson,
forseti Golfsambands Íslands.

Deildu:

Auglýsing
 
Auglýsing
 

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ