/

Deildu:

Ragnhildur Kristinsdóttir og Logi Sigurðsson, Íslandsmeistarar í golfi 2023.
Auglýsing

Skýrsla stjórnar Golfsambands Íslands 2023. Kynnt á Golfþingi 11. nóvember 2023 á Grand hótel Reykjavík:

Frá vinstri: Ólafur Arnarson, Jón B. Stefánsson, Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri, Hjördís Björnsdóttir, Birgir Leifur Hafþórsson, Hulda Geirsdóttir, Ragnar Baldursson, Hörður Geirsson, Hansína Þorkelsdóttir, Karen Sævarsdóttir, Viktor Elvar Viktorsson, Jón S. Árnason. Mynd/seth@golf.is

Stjórn Golfsambands Íslands var þannig skipuð á síðasta starfsári:

  • Hulda Bjarnadóttir, NK formaður sjálfbærninefndar.
  • Hörður Geirsson GK, varaforseti og formaður laganefndar.
  • Jón S. Árnason GA, gjaldkeri og formaður fjárhagsnefndar.
  • Hansína Þorkelsdóttir GKG, ritari og formaður upplýsingatækninefndar.
  • Ragnar Baldursson GR, formaður afreksnefndar.
  • Viktor Elvar Viktorsson GL, formaður mótanefndar.
  • Hjördís Björnsdóttir GÚ, formaður markaðs- og kynningarnefndar.
  • Birgir Leifur Hafþórsson, GKG meðstjórnandi.
  • Karen Sævarsdóttir GK, meðstjórnandi.
  • Ólafur Arnarson GKG, meðstjórnandi.
  • Jón B. Stefánsson GR, formaður þjónustunefndar.
 

Efri röð frá vinstri: Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri, Sóley Bæringsdóttir, verkefnastjóri, Arnar Eldon Geirsson, skrifstofustjóri, Kristín María Þorsteinsdóttir, móta – og kynningarstjóri, Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri, Sigurður Elvar Þórólfsson, útbreiðslustjóri.

Ólafur Már Einarsson var í ýmsum verkefnum á mótasviði sumarið 2023. Magnús Oddsson, verkefnastjóri Golf Iceland og Edwin Roald golfvallahönnuður eru með aðstöðu á skrifstofu GSÍ líkt og undanfarin ár. 

Stjórn golfsambandsins hélt alls 11 fundi á starfsárinu auk tveggja stefnumótandi vinnufunda. Aukaþing sambandsins var haldið í maí. Þá er ótalin fjöldi funda þar sem fjölmargar nefndir sambandsins koma saman á hverju starfsári.

Þær nefndir skila síðan niðurstöðum sínum inn til stjórnar sem tekur málin til formlegrar afgreiðslu. Stjórn birtir allar fundargerðir stjórnarfunda á heimasíðu sambandsins, www.golf.is.

Starfsnefndir golfsambandsins hafa verið opnar félagsmönnum úr hreyfingunni og kemur tugur manna og kvenna að starfi golfsambandsins gegnum slíka vinnu ár hvert. Við viljum færa öllum þessum einstaklingum okkar bestu þakkir fyrir samstarfið á tímabilinu.

Einnig færum við starfsfólki skrifstofu Golfsambandsins þeim Brynjari, Arnari, Kristínu Maríu, Ólafi Birni, Sóleyju, Ólafi Má og Sigurði Elvari okkar bestu þakkir fyrir liðið starfsár. 

Margir klúbbar fögnuðu stór afmælum á árinu 2023 og eru hamingjuóskir til eftirfarandi klúbba áréttaðar.

50 ára afmæli:
Golfklúbburinn Jökull 
Golfklúbbur Borgarness

40 ára afmæli: 
Golfklúbbur Bolungarvíkur

30 ára afmæli:
Golfklúbbur Kiðjabergs
Golfklúbbur Hveragerðis
Golfklúbburinn Gljúfri
Golfklúbburinn Úthlíð

20 ára afmæli:
Golfklúbburinn Hvammur
Golfklúbburinn Þverá

Á árinu tóku íslenskir afrekskylfingar þátt í mörgum og fjölbreyttum alþjóðlegum verkefnum. Margir hafa náð eftirtekarverðum árangri og tókst afrekssviði vel til í stuðningi við afrekskylfinga.

Landsliðs- og atvinnukylfingar nýttu sér nýja æfingabækistöð íslenska landsliðsins á Spáni og hélt til að mynda 48 manna hópur í vel heppnaða æfingaferð 13.-20. janúar. Aðstaðan skiptir miklu máli fyrir okkar afrekskylfinga.

Fyrir utan einfaldara skipulag, minni kostnað og meiri fyrirsjáanleika fá okkar kylfingar frábæran vettvang til að efla tengsl sín á milli, hvetja hvort annað áfram og keppa hvert við annað.

Atvinnukylfingurinn, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, lék á þessu tímabili á 22 mótum á DP World Tour, sterkustu mótaröð Evrópu og náði best 24. sæti í Norður-Írlandi í ágúst. Axel Bóasson lék frábærlega á Nordic Golf League í ár, hann sigraði einu sinni og hafnaði alls sex sinnum í verðlaunasæti. Árangurinn skilaði honum fimmta sæti á stigalista mótaraðarinnar sem veitir honum fullan þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni á næsta ári. Guðmundur, Axel og Haraldur Franklín Magnús kepptu allir á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröðina. Haraldur komst áfram á lokastigið og er að keppa þar um þessar mundir.

Guðrún Brá lék í nokkrum mótum á Evrópumótaröðinni í ár og Ragnhildur Kristinsdóttir gerðist atvinnukylfingur í vetur og hefur lekið á LET Access mótaröðinni. Þær eru báðar skráðar til leiks í úrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í desember.

Landslið kylfinga 50 ára og eldri tóku þátt á Evrópumótinu í liðakeppni í kvenna – og karlaflokki. Kvennaliðið keppti á Spáni og endaði Ísland í 15. sæti af alls 20 þjóðum. Karlaliðið keppti í Tékklandi og endaði Ísland í 13. sæti af alls 23 þjóðum sem tóku þátt. 

 

Í sumar léku okkar bestu áhugakylfingar á mörgum af bestu golfmótum heims. Áframhaldandi áhersla var lögð á að hlúa sérstaklega vel að þeim ungu kylfingum sem hafa náð frábærum árangri en Gunnlaugur Árni Sveinsson (18 ára) og Perla Sól Sigurbrandsdóttir (17 ára) léku til að mynda á fjölmörgum sterkum alþjóðlegum áhugamannamótum á árinu með góðum árangri. 

Markús Marelsson fylgdi sigri Perlu vel eftir í Evrópumóti 16 ára og yngri með því að enda í 2. sæti í Slóvakíu í sama móti í júlí. Góður árangur okkar stúlkna, þá sérstaklega Perlu, gerði það að verkum að Ísland fékk boð í fyrsta skipti í sögunni á Heimsmeistaramóti stúlkna sem fór fram í Kanada í október.

Piltalandslið Íslands náði frábærum árangri á Evrópumóti í sumar og lenti liðið í 2. sæti í 2. deild og var því eitt þriggja liða til að tryggja sér sæti í efstu deild á næsta ári. Kvennalandsliðið náði bestum árangri í fullorðinsflokki er þær lentu í 14. sæti á EM liða í Finnlandi í júlí.

Markaðs – og kynningarmál voru með ýmsum hætti á árinu 2023 – og stefna GSÍ var leiðarljósið í þeim verkefnum sem farið var í. 

Golf.is, samfélagsmiðlar GSÍ, hlaðvarpsþættir og rafrænt fréttabréf eru í dag helstu stoðir í útbreiðslu á fréttum úr innra starfi sambandsins. Þar að auki var unnið markvisst að því að koma golfíþróttinni á framfæri í helstu fréttamiðlum landsins. Myndasafn GSÍ er mikið notað af fréttamiðlum – og myndabankinn stækkar og eflist með hverju árinu sem líður.  Allir miðlar GSÍ fengu meiri aðsókn á árinu 2023 en árið 2022.

Bein sjónvarpsútsending á RÚV frá Íslandsmótinu í golfi er gríðarlega mikilvægur þáttur í útbreiðslu golfsins – þar sem að tugþúsundir landsmanna horfa á útsendinguna. 

Á árinu 2023 var lögð áhersla á nýja nálgun á samfélagsmiðlum GSÍ – í samstarfi við Bullish.  Verkefnið gekk mjög vel – þar sem að áherslan var að ná til nýrra markhópa og þá sérstaklega unga fólksins. Bullish var einnig samstarfsaðili í kynningu á afrekskylfingum landsins – þar sem að margvísleg form miðlunar voru notuð við útgáfu efnis.  Meiri aðsókn var niðurstaðan á öllum samfélagsmiðlum GSÍ á árinu 2023. 

Golfsambandið hélt áfram að keyra auglýsingaherferðina „sláðu í gegn“ þar sem markmiðið var að hvetja konur til að skoða golfíþróttina sem áhugaverðan valkost.

Golfsambandið framleiddi fræðsluefni sem tengist umgengni á golfvelli og er það efni aðgengilegt á golf.is, Facebook og Youtube.

Lýðheilsuráðstefna GSÍ fór fram á árinu í samvinnu með Háskólanum í Reykjavík með það að markmiði að draga fram rannsóknir háskólasamfélagsins á lýðheilsu og gildi golfs fyrir lýðheilsuna. GSÍ gaf út lýðheilsubækling sem er aðgengilegur á golf.is.

Á undanförnum misserum hefur GSÍ í samstarfi við PGA á Íslandi og KPMG staðið að kynningu á golfíþróttinni undir handleiðslu PGA kennara víðsvegar um landið. „Golfdagurinn“ er nafnið á verkefninu og hafa þeir nú þegar farið fram á Höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og Norðurlandi. Markmiðið er að bjóða upp á slíkan viðburð í öllum landshlutum.

Golfhreyfingin hefur á undanförnum árum lagt alla áherslu á útgáfu á rafrænum miðlum. Á golf.is eru ítarlegar upplýsingar og fréttir af innra starfi golfhreyfingarinnar. Instagram og Facebook sambandsins eru í stöðugri sókn. GSÍ nýtir einnig samfélagsmiðlana X áður Twitter og Golfrásina á Youtube. 

Golfsambandið hélt 23 Íslandsmót árið 2023. Það er öllum ljóst að án mikillar aðkomu golfklúbbanna við framkvæmd þessara móta ætti Golfsambandið í miklum erfiðleikum með að halda slíkan fjölda Íslandsmóta. Golfsambandið vil því ítreka þakklæti sitt til þeirra klúbba sem komu að Íslandsmótum á árinu 2023. Einnig voru haldin fjölmörg mót á stigamótaröð fullorðinna og unglinga sem golfklúbbarnir sáu alfarið um þó svo að golfsambandið haldi utan um sjálfa stigalistana í samræmi við stefnu sambandsins. Fyrir þessa framkvæmd ber einnig að þakka fyrir hönd stjórnar GSÍ sem og kylfinganna sem þar leika.

Stjórn GSÍ hefur fundið fyrir auknum áhuga golfklúbba að taka að sér að halda Íslandsmót og er það vel. Golfklúbbarnir fá með því að halda slík mót oft á tíðum aukna athygli, bæði almennra kylfinga, keppenda sem og nærsamfélagsins alls. Einnig er oft hægt að tengja aukna styrki frá sveitafélögum Íslandsmótum enda hlýtur það að vera markmið hvers klúbbs að völlurinn skarti sínu fegursta þegar slík mót fara fram á velli klúbbsins.

Golfklúbburinn Oddur hélt einmitt Íslandsmótið í höggleik í ár og er óhætt að segja að þar hafi forsvarsfólk klúbbsins sem og félagsfólk allt lagt allt kapp á að gera völlin og umgjörð mótsins sem besta úr garði. Það tókst þeim svo sannarlega og fyrir hönd stjórnar Golfsambandsins viljum við þakka fyrir frábært mót í alla staði og gott samstarf.

Við viljum á sama tíma óska öllum sigurvegurum ársins á Íslandsmótum Golfsambandsins til hamingju með árangurinn. Það er of langt mál að telja þá alla upp enda mörg mót og fjölmargir flokkar. 

Þó viljum við sérstaklega við óska þeim Ragnhildi Kristinsdóttur úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Loga Sigurðssyni úr Golfklúbbi Suðurnesja til hamingju með sína titla. Við hlökkum til að fylgjast með þeim verja titlana á heimavelli Loga á næsta ári.

Megin hlutverk dómaranefndar er að vera æðsti innlendi aðilinn um túlkun golfreglna, sjá um fræðslu og menntun dómara og hafa umsjón með málefnum þeirra. 

Undanfarin ár hefur fjöldi dómara aukist og lögð hefur verið áhersla á af GSÍ að golfklúbbar hvetji sýna meðlimi til að afla sér dómararéttindi þannig að klúbbarnir geti sinnt þeim mótum sem þeir halda með eigin dómurum. Hlutverk dómaranefndar er að útvega dómara ef klúbbar hafa ekki aðgang að dómara og hefur sú breyting orðið á síðust árum að sú tala hefur lækkað í 1-2 dómara á ári í stað þess að vera 8-10 fyrir 5 árum síðan.

Vel hefur gengið undanfarin ár að mennta fleiri dómara og sérstaklega héraðsdómara. Námskeiðin eru haldin árlega, annaðhvort í febrúar eða mars. Fyrirkomulag þeirra er á fyrirlestraformi, fjögur kvöld haldin yfir tvær vikur. Þau eru send út á netinu og hefur það mælst vel fyrir ásamt því að frá og með 2019 hefur héraðsdómaraprófið einnig verið haldið sem rafrænt próf á netinu. Betur má þó gera í því að fá fleiri konur til að starfa sem dómarar.

Landsdómaranámskeið hafa verið haldin annað hvert ár undan farin ár eða eftir eftirspurn frá klúbbunum. Það námskeið er mun umfangsmeira og er haldið yfir fjóra mánuði með fyrirlestrum og verkefnavinnu. Nefndin hefur miðað við þátttaka sé 6 eða fleiri. Stefnt er að halda námskeið núna í vetur ef lágmarks þátttaka næst.

Dómararéttindi skiptast í þrennt: héraðs-, lands- og alþjóðadómari. Dómaranefndin sér um að mennta héraðs- og landsdómara en til að fá alþjóðadómara réttindi þarf að sækja TARS námskeið hjá R&A í Skotlandi. Dómaranefndin hefur í samráði við GSÍ sent reglulega landsdómara á þannig námskeið undanfarin ár, en miðað er við að viðkomandi sé kominn með mikla reynslu í dómgæslu og hafi sýnt áhuga á því sækja sér meiri réttinda.

Ef skoðuð er aldursdreifing dómara (sjá mynd hér á eftir) þá sést að meirihluti dómara er 50+. Ástæða þess er líklega sú sama að aldur meirihluti kylfinga er 50+.  

Á árunum 2010-2016 þá fengum við 6 nýja alþjóðadómara, en aðeins 3 nýja dómara á árunum 2020-2023 og eitthvað tengist það Covid faraldrinum. Á síðustu 10 árum hafa 4 alþjóðadómarar annaðhvort hætt störfum vegna aldurs eða látist. Megum ekki sofna á verðinum með að mennta fleiri alþjóðadómara því að helmingur alþjóðadómara er á aldursbilinu 60-69 og gæti hætti í dómgæslu á næstu 5-10 árum. Sama á við um hóp landsdómara.

Dómaranefndin heldur reglulega fræðslufundi með dómurum þar sem farið er yfir málefni eins og atriði sem koma fyrir í dómaraskýrslum hvers árs, breytingar á golfreglum og áhugaverð atvik sem gerast á mótum bæði innanlands og erlendis. Haldnir eru 1-2 fræðslufundir vor og haust. Síðan 2016 hafa allir fræðslufundir verið haldnir sem fjarfundir, þannig að dómarar utan höfuðborgarsvæðisins hafa getað tekið þátt.

Mikil vinna hefur verið lögð í það að íslensku golfreglurnar síðan nýjar golfreglur tóku gildi í ársbyrjun 2019. Þær hafa verið aðgengilegar á netinu hjá R&A og einnig í R&A appinu. 

Þegar nýjar golfreglur komu 2019 þá voru útbúnar golfreglubækur sem var dreift á kylfinga. Stærri breytingar á golfreglunum eru gerðar á fjögra ára fresti og síðast breyting kom núna í byrjun árs 2023. Ákveðið var að prenta ekki bækur á pappírsform við þessu breytingu heldur aðeins birta þeir á rafrænu formi á netinu.

Sjálfbærninefndin, sem stofnuð var í janúar 2022 er ætlað að samþætta verkefni Umhverfisnefndar og skerpa hlutverk og markmið GSÍ í málaflokknum. Nefndin lagði upp með heildstæða sjálfbærnivegferð sem gengur út á að vinna með þrjár heildstæðar stoðir sjálfbærrar þróunar; Umhverfi, félagslega þætti og stjórnarhætti.

Samið var við Sjálfbærnilausnir Klappa um að koma í tilraunaverkefni með GSÍ og golf hreyfingunni. Fjórtán golfklúbbar taka þátt í tilraunaverkefninu og hafa nú þegar fullnægt innsetningu á upplýsingum. Sú vinna mun líta dagsins ljós um áramót. Skýrslugerðin mun vonandi reynast mikilvæg í tilvistar og varnarbaráttu íþróttarinnar um landsvæði og sýna fram á ábyrgð golfhreyfingarinnar og þá jákvæðu þætti sem við þegar erum að leggja af mörkum og vinna með.

Sjálfbærnigátt var opnuð á starfsárinu og þannig er verið að auðvelda aðgengi að fræðsluefni og útgáfu tengdri umhverfismálum, forvörnum og ábyrgum stjórnarháttum.

Stefna GSÍ er að stuðla að öflugu og traustu upplýsingakerfi fyrir golfhreyfinguna í heild. Markmiðið er að golfhreyfingin reki sameiginlegt upplýsingakerfi sem veitir golfklúbbum og félagsmönnum þeirra góða þjónustu. Golfklúbbar og félagsmenn þeirra eru notendur hins sameiginlega upplýsingakerfis en GSÍ hefur umsjón með gagnagrunni golfhreyfingarinnar. 

GSÍ er rekstraraðili hins sameiginlega upplýsingakerfis, Golfbox, a.m.k. til ársloka 2024, sem stendur saman af félagaskrá, forgjafarkerfi, rástímakerfi og mótakerfi. Nú hefur GolfBox verið í notkun hér á landi í fjögur ár og reynst golfhreyfingunni vel.

Tölvukerfið fagnaði 20 ára afmæli í sumar og við það tilefni voru helstu áherslur næstu ára kynntar. Þar má nefna nýtt samskiptakerfi fyrir golfklúbba til að deila fréttum og vera í samskiptum við klúbbfélaga og litla mótastjórann sem gefur hópum möguleika á að búa til sín eigin mót mun líta dagsins ljós. Á árinu var tekið í notkun, nýtt notendaviðmót í appi og stafrænt kort til að staðfesta mætingu í rástíma. Hér á landi var mikil aukning í notkun á GolfBox appinu á árinu.

Í lok sumars stofnaði GolfBox til samráðshóps á milli norrænu golfsambandanna, þess íslenska, danska og norska, sem eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta með kerfinu.

Stærstu verkefni af óskalista GSÍ hafa nú verið innleidd af GolfBox en unnið verður áfram að nýjum verkefnum með GoflBox og norræna samráðshópnum. GSÍ stefnir að því að vera leiðandi í upplýsingagjöf og að efla gagnasöfnun golfhreyfingarinnar. Áætlað var að innleiða greiningartól Players1st fyrir sumarið 2023 en sú vinna tafðist og er nú fyrirséð að kerfið verði opnað í lok ársins. Með tilkomu P1 munu golfklúbbar geta rýnt í og sett fram gagnlegar upplýsingar og gögn á myndrænan hátt, bæði úr félaga- og rástímakerfi GolfBox.

 

Forgjafar- og vallamatsnefnd GSÍ hefur yfirumsjón með vallarmatsmálum okkar. Í ár voru teknir út eftirtaldir vellir: Korpúlfsstaðavöllur, Urriðavöllur, Álftanesvöllur, Lundsvöllur, Hólmsvöllur, Þverárvöllur við Hellishóla, Arnarholtsvöllur, Garðavöllur undir Jökli.

Ný uppfærð útgáfa af forgjafarkerfinu tekur gildi í byrjun nælsta árs 2024 en frekar litlar breytingar verða á kerfinu frá því sem nú er. Helstu breytingarnar verða kynntar í byrjun árs 2024.

Lágmarkslengd golfvalla sem samþykktir verða til vallarmats og vægis verður minnkuð úr 2.745 metrum í 1.370 metra fyrir 18 holur og úr 1.370 metrum í 685 metra fyrir 9 holur. Því mun vallarmatsnefnd golfsambandsins byrja næsta sumar á því að meta alla golfvelli þar sem þessi breyting opnar á. Sem dæmi um velli eru Ljúflingur, Thorsvöllur, Sveinkotsvöllur sem hægt verður að skila inn forgjafarhringjum á næsta ári. Eins bíður þetta upp að möguleika að gera styttri teiga á lengri völlum sem gilda þá til forgjafar.

Heilt yfir má segja að starfsemi GSÍ hafi gengið vel. Þrátt fyrir ýmsar áskoranir á starfsárinu hefur okkur tekist að halda úti öflugu móta- og afreksstarfi.

Starfssemi skrifstofu hefur gengið vel og ber það að þakka okkar frábæra starfsfólki. Þá hefur starf nefnda gengið vel enda með reynt og ósérhlífið fólk í nefndum sambandsins. Fjárhagur GSÍ er sterkur og staða þess góð. Við stöndum frammi fyrir mörgum áskorunum, en þróun golfíþróttarinnar er að okkar mati á réttri leið og það þarf að halda þétt á spöðunum og horfa til framtíðar, golfhreyfingunni til heilla.

Verkefnalistinn er langur og krefjandi en samstillt stjórn, öflugir starfsmenn og fulltrúar í nefndum ásamt forsvarsfólki golfklúbbanna í landinu og sjálfboðaliðum getum við áorkað miklu og haldið áfram góðri uppbyggingu. Stjórn GSÍ þakkar ánægjulegt og gefandi samstarf og horfir björtum augum til framtíðar.

Fyrir hönd stjórnar Hulda Bjarnadóttir, forseti GSÍ.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ