/

Deildu:

Sigurður Elvar Þórólfsson og Hörður Þorsteinsson.
Auglýsing

Sigurður Elvar Þórólfsson hefur verið ráðinn sem útbreiðslustjóri hjá Golfsambandi Íslands. Hann mun ritstýra tímaritinu Golf á Íslandi ásamt frétta- og upplýsingagjöf á golf.is. Þá mun Sigurður Elvar veita golfklúbbunum faglega aðstoð um allt er lýtur að útbreiðslu- og kynningarmálum.

Sigurður Elvar er 46 ára gamall og hefur starfað sem íþróttafréttamaður í 15 ár ár. Hann hefur m.a. verið íþróttafréttastjóri hjá Morgunblaðinu og 365 Miðlum. Á undanförnum misserum hefur hann verið fréttastjóri á golffréttamiðlinum kylfingur.is ásamt því að skrifa efni í tímaritið Golf á Íslandi og á fréttavefinn Pressan.is.

„Ég er þakklátur að fá tækifæri til þess að takast á við þetta verkefni. Golfíþróttin hefur verið stór hluti af mínu lífi allt frá barnæsku og er enn í dag. Það eru mikil tækifæri fyrir Golfsambandið í miðlun upplýsinga um þessa frábæru íþrótt og þá sérstaklega í rafrænni útgáfu á miðlum á borð við golf.is.

Tímaritið Golf á Íslandi er gríðarlega öflugur miðill fyrir golfhreyfinguna á öllum sviðum. Þrátt fyrir miklar breytingar í aðgengi að upplýsingum á undanförnum árum sýna kannanir að Golf á Íslandi er enn með mikinn lestur. Það er ekki síður mikil áskorun fyrir mig og þá sem koma að útgáfunni að gera enn betur á næstu misserum. Það eru frábærir íslenskir afrekskylfingar á öllum aldri hér á landi og erlendis sem eiga skilið að fá enn meiri athygli.

Golfklúbbar landsins hafa lyft golfíþróttinni á hærri stall með öflugu starfi sínu á öllum sviðum á undanförnum árum. Ég tel að það sé forgangsverkefni að lýsa kastljósinu enn betur á það glæsilega starf sem unnið er í grasrótinni og nýta þá möguleika sem eru til staðar í fjölmiðlaflórunni. Það eru spennandi tímar framundan. “

“Með ráðningu Sigurðar Elvars er ætlunin að stórauka útbreiðslustarf GSÍ og styrkja þjónustu sambandsins við klúbbanna hvað varðar útbreiðslu og þá mun Sigurður Elvar jafnframt styrkja stöðu sambandsins hvað varðar samskipti við fjölmiðla og von okkar er golfíþróttin verði þannig en meira áberandi í fjölmiðlum”, segir Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri GSÍ um leið og hann bauð Sigurð Elvar velkominn til starfa.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ