Auglýsing

Golfsamband Íslands og RÚV hafa endurnýjað samkomulag um fjölbreytta golfumfjöllun á RÚV á næsta golfsumri. Samningurinn er til tveggja ára og að venju verður hápunktur dagskrárinnar verður bein útsending frá Íslandsmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem fram fer á Jaðarsvelli á Akureyri 21.-24. júlí.

Brynjar Eldon Geirsson, framkvæmdastjóri GSÍ, og Hilmar Björnsson íþróttastjóri RÚV undirrituðu samkomulag þess efnis nýverið í höfuðstöðvum Golfsambandsins.

Líkt og í fyrrasumar verður RÚV með sérstaka þætti um golfíþróttina, Golf á Íslandi. Hlynur Sigurðsson verður umsjónarmaður. Fjallað verður um golfíþróttina frá ýmsum hliðum í Golf á Íslandi, hinn almenna kylfing, afrekskylfinga og Eimskipsmótaröðina 2016.

[quote_box_center]„Við hjá Golfsambandi Íslands erum virkilega ánægð með áframhaldandi samstarf við RÚV. Með þessum samningi byggjum við ofan á það góða samstarf sem hefur verið á milli Golfsambands Íslands og RÚV undanfarin ár, það verður á nægu að taka í sumar og golfáhugamenn um allt land geta fylgst vel með íþróttinni á RÚV,“ sagði Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri GSÍ[/quote_box_center]

Bein útsending verður frá tveimur síðustu keppnisdögunum á Íslandsmótinu á Eimskipsmótaröðinni, 23. og 24. júlí. Gert er ráð fyrir þriggja tíma útsendingu að lágmarki frá báðum keppnisdögunum. Þetta verður í 19. skipti sem sýnt verður beint frá Íslandsmótinu í sjónvarpi. Fyrsta útsendingin var árið 1998 þegar mótið fór fram á Hólmsvelli í Leiru.  

[quote_box_center]„Golf á Íslandi er í sókn og mikið af ungum og efnilegum kylfingum að koma fram á sjónarsviðið sem gaman verður að fylgjast með í framtíðinni.  Samstarf RÚV og GSÍ hefur verið gott á undanförnum árum. Það verður spennandi  að sýna beint frá Íslandsmótinu á Jaðarsvelli á Akureyri í sumar og á Hvaleyrarvelli árið 2017 en þá verður 20 ára afmæli beinna sjónvarpsútsendinga frá Íslandsmótsinu í golfi,“ segir Hilmar Björnsson íþróttastjóri RÚV.[/quote_box_center]

Fyrsta mótið á Eimskipsmótaröðinni 2016 fer fram 20.-22. maí á Strandarvelli á Hellu. Töluverðar breytingar verða gerðar á Eimskipsmótaröðinni á þessu tímabili og má þar nefna að mótunum verður fjölgað, og er markmiðið með breytingunum að stækka mótaröðina og auka umfang hennar.

Alls verða 8 mót á Eimskipsmótaröðinni á þessu ári en þau voru 6 á síðasta ári.  Á árinu 2016 verður sú undantekning að sex mót telja til stigameistaratitla á Eimskipsmótaröðinni. Frá og með árinu 2017 munu alls átta mót telja á stigalista Eimskipsmótaraðarinnar.

Keppnistímabil hvers árs hefst í lok ágúst og lýkur í sama mánuði, ári síðar.

Tímabilið hefst á tveimur mótum að hausti, því fylgja svo tvö mót að vori árið eftir og lýkur á fjórum mótum yfir hásumarið. Nánar má lesa um breytingarnar á Eimskipsmótaröðinni hér.

author avatar
Sigurður Elvar

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ