Auglýsing

Það má með sanni segja að það verði fjör í íslensku golflífi næstu tvær helgar þegar ríflega 550 kylfingar á öllum aldri munu leika á fjórum Íslandsmótum. Keppt verður á Íslandsbankamótaröðinni þar sem sjálft Íslandsmótið í höggleik fer fram á Hellu, auk þess sem keppt verður á Áskorendamótaröð Íslandsbanka á Hellishólum Icelandair Íslandsmót eldri kylfinga fer fram á Korpúlfsstöðum og Icelandair Íslandsmót 35 ára og eldri verður leikið í Vestmannaeyjum.

Íslandsbankamótaröðin, Íslandsmót unglinga í höggleik, Strandarvelli hellu.

Búist er við hörkuspennandi keppni á Íslandsbankamótinu – Íslandsmótinu í höggleik unglinga, sem fram fer hjá Golfklúbbi Hellu á Strandavelli um aðra helgi. Alls geta 150 keppendur tekið þátt í mótinu sem skiptist niður í þrjá aldursflokka. Í hverjum aldursflokki verða hámark 48 keppendur þar af verða 36 strákar og 12 stelpur. Leikinn er höggleikur án forgjafar.

Á Íslandsmótinu í höggleik unglinga má sjá marga af efnilegustu kylfingum landsins spila og hafa sést mörg glæsileg tilþrif á mótinu síðustu ár. Íslendingar hafa tekið miklum framförum í golfi á síðustu árum og það er óhætt að segja að framtíðin sé björt. Núverandi Íslandsmeistarar í höggleik unglinga 17-18 ára eru Ísak Jasonarson, úr GK, og Anna Sólveig Snorradóttir, einnig úr GK. Núverandi Íslandsmeistarar í flokki 15-16 ára eru Birta Dís Jónsdóttir úr GHD og Henning Darri Þórðarson GK og í flokki 14 ára og yngri eru Ólöf María Einarsdóttir úr GHD og Arnór Snær Guðmundsson úr GHD núverandi Íslandsmeistarar.

Áskorendamótaröð Íslandsbanka, Þverárvelli Hellishólum.

Á sama tíma og Íslandsmótið í höggleik unglinga fer fram verður áskorendamótaröð Íslandsbanka leikinn á Þverárvelli hjá Golfklúbbnum Þverá. Þar keppa þeir unglingar sem ekki komast inn á Íslandsbankamótaröð unglinga vegna fjöldatakmarkanna .

Icelandair – Íslandsmót eldri kylfinga, Korpúlfstaðavelli.

Sömu helgi og unglingarnir spreyta sig verður Íslandsmót eldri kylfinga haldið á Korpúlfsstaðavelli. Hámarksfjöldi kylfinga í mótið er 144, þar af verða hámark 78 keppendur í flokki karla 55 ára og eldri og 27 keppendur í flokki kvenna 50 ára og eldri. Í flokki karla 70 ára og eldri verða hámark 30 keppendur og 9 keppendur í flokki kvenna 65 ára og eldri. Leikinn er höggleikur með og án forgjafar.

Gríðarleg stemming er á Íslandsmóti eldri kylfinga enda margar gamlar golfhetjur sem mæta til leiks. Núverandi Íslandsmeistari í golfi 55 ára og eldri er Jón Haukur Guðlaugsson en hann hefur sex sinnum fagnað titlinum án forgjafar. Ragnar Guðmundsson er Íslandsmeistari kylfinga 70 ára og eldri í karlaflokki en hann hefur unnið þennan flokk í tvígang.

Ásgerður Sverrisdóttir er núverandi Íslandsmeistari í kvennaflokki 50 ára og eldri. Núverandi Íslandsmeistari í kvennaflokki, 65 ára og eldri, er Sigrún Margrét Ragnarsdóttir en hún hefur unnið titilinn fimm ár í röð.

Icelandair – Íslandsmót 35 ára og eldri, Vestmannaeyjum.

Síðasta mótið þessa helgi er Icelandair-mótið, Íslandsmót kylfinga 35 ára og eldri, sem fer fram í Vestmannaeyjum. Þar verða leiknar 54 holur á þremur dögum í karla- og kvennaflokki. Þar eru ríkjandi Íslandsmeistarar skráðir til leik, en það eru þau Þordís geirsdóttir, GK og Einar Lynd Hjartarsson, GL.

Íslandsmótið í golfi, Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar, Leirdalsvöllur.

Sjálft Íslandsmótið í höggleik, sem er hluti af Eimskipamótaröðinni, hefst svo í Leirdalnum hjá Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar þann 24. júlí næstkomandi en þar munu bestu kylfingar landsins etja kappi um sjálfan Íslandsmeistaratitilinn.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ