Auglýsing

Ragnhildur Kristinsdóttir og Perla Sól Sigurbrandsdóttir, báðar úr GR, féllu báðar naumlega úr leik í 64 manna úrslitum á Opna breska áhugamannamótinu sem fram fer á Hunstanton vellinum á austurströnd Englands.

Mótið er eitt af allra sterkustu áhugamannamótum veraldar í kvennaflokki og á mótið sér langa sögu.

Alls hófu 144 keppendur leik og var keppendahópurinn skipaður mjög sterkum leikmönnum.

Fyrstu tvo keppnisdagana var leikinn höggleikur og komust 64 efstu í holukeppnina sem tekur við eftir höggleikinn.

Smelltu hér fyrir stöðu og úrslit í holukeppninni:

Ragnhildur endaði í 43. sæti og keppti í gær gegn Celine Sattelkau frá Þýskalandi. Sattelkau er í 82. sæti heimslistans og hefur leikið með Vanderbilt háskólaliðinu undanfarin ár. Ragnhildur er í sæti nr. 321 á heimslista áhugakylfinga en hún var að ljúka keppnisferlinum í háskólagolfinu í vor með Eastern Kentucky háskólaliðinu.

Perla Sól, sem er aðeins 15 ára gömul, endaði í 57. sæti og mótherji hennar var engin önnur en Ingrid Lindblad frá Svíþjóð – sem er í öðru sæti á heimslista áhugakylfinga. Lindblad var á dögunum í baráttunni um sigurinn á Opna bandaríska meistaramótinu þar sem hún endaði í 11. sæti. Hún gat ekki tekið við verðlaunafé fyrir þann árangur, 26 milljónir kr., þar sem hún er enn áhugakylfingur.

Perla Sól, sem er í sæti nr. 546 á heimslista áhugakylfinga, veitti Lindblad harða keppni en viðureign þeirra lauk á 17. holu þar sem að Lindblad átti þá þrjár holur þegar ein hola var eftir.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr leik Perlu og Lindblad.

Hér má sjá samantekt frá þriðja keppnisdegi mótsins.

Ísland var með 5 keppendur á þessu móti og er það í sögulegu samhengi met. Aldrei áður hefur Ísland átt svo marga keppendur á þessu móti á sama tíma.

Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit í höggleikskeppninni.

2. keppnisdagur:

43. sæti: Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, (74-73) 147 högg (+1).
57. sæti: Perla Sigurbrandsdóttir, GR, (74+74) 148 högg (+2).

84. sæti: Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, GR, (73-77) 150 högg (+4).
98. sæti: Andrea Bergsdóttir, Hills (Svíþjóð)/GKG, (78-74) 152 högg (+6).
130. sæti: Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, (83-75) 158 högg (+12)

Í fyrra náðu íslensku keppendurnir frábærum árangri á þessu móti. Jóhanna Lea Lúðvíksdóttir, GR, náði alla leið í úrslitaleikinn – sem er besti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð á áhugamannamóti.

Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, var í efsta sæti eftir höggleikskeppnina, sem er árangur sem íslenskur kylfingur hefur ekki náð áður.

Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, komst einnig áfram í 64 manna úrslit í holukeppninni en þar var Jóhanna Lea mótherji Huldu Clöru í 1. umferð – þar sem að Jóhanna hafði betur.

Nánar um Hunstanton Golf Club völlinn hér:

Perla Sól er fædd árið 2006 en hún fagnar 16 ára afmæli sínu í haust og er því aðeins 15 ára gömul. Það er mikið afrek hjá ungum kylfingi á borð við Perlu Sól að vera með það lága forgjöf að hún komist inn á keppendalistann á svona sterku alþjóðlegu móti.

Samkvæmt reglum um áhugamannamót eru engin peningaverðlaun á þessu móti en það er að miklu að keppa.

Sigurvegarinn fær þátttökurétt á ýmsum atvinnumótum – og risamótum á LPGA og LET. Sú sem sigrar fær keppnisrétt á einu LET móti á þessu ári, auk þess að fá keppnisrétt á risamótunum AIG Women’s British Open 2022 og The Evian Championship 2022. Á næsta ári fær sigurvegarinn keppnisrétt á Opna bandaríska meistaramótinu (US Open) og The Augusta National Women’s Amateur Championship 2023.

Frá vinstri: Hulda Clara, Perla Sól, Ragnhildur, Andrea og Jóhanna Lea.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ